25.4.2012 | 21:14
Vá steðjar að - samkeppni hafin um hlaupara í Vesturbænum
Fyrr í dag barst sú frétt um Netheima að stofnaður hafi verið nýr hlaupahópur í Vesturbænum: KR-skokk. Ekki er hægt að amast við hlaupahópi með svo göfugt nafn, en þó kviknuðu ýmsar hugrenningar með skrifara er hann leiddi sér í hug tilganginn með stofnun hópsins. Spyrja má hvaða þörfum honum er ætlað að mæta sem Hlaupasamtök Lýðveldisins mæta ekki. Einnig má spyrja hver markhópur hinnar nýju hlaupahreyfingar er. Af myndum sem fylgja hópnum á Facebook virðist mega draga þá ályktun að þar fari ungir, grannvaxnir, glaðbeittir hlauparar, konur og karlar, sem stefni upp á við, fara lengra og hraðar. Þar verður bannað að baktala náungann, bannað að segja kjaftasögur, og blátt bann lagt við vísbendingaspurningum um bílnúmer og kosningaúrslit. Einungis talað um hlaup, vegalengdir, tempó o.þ.h. Þetta er í hrópandi ósamræmi við þann hóp er einna helst hleypur frá Vesturbæjarlaug reglulega: miðaldra, feitlagnir, vinalausir karlmenn sem alltaf gera allt eins og líður best illa. Persónufræðingar, ættfræðingar, gáfumenni. En í ljósi þess að KR-skokk hleypur á öðrum tímum en Hlaupasamtökin og munu ekki ógna intellektuellum yfirburðum Samtakanna í Vesturbænum munum við ekki fetta fingur út í starfsemina.
Í yfirlýsingu frá hinum nýja hópi segir að hlaupið verði á mismunandi hraða og má skilja það svo að enginn verði skilinn eftir. Já, takk! Herra Brandarakarl, kanntu annan? Hvað hefur maður ekki heyrt þessa yfirlýsingu oft? Enginn skilinn eftir?
Jæja, hvað um það. Stofnun nýs hóps hafði engin áhrif á einbeitta hlaupara Hlaupasamtakanna. Þeir mættu í tonnavís til hlaups. Mátti þar bera kennsl á S. Ingvarsson, Flosa, dr. Jóhönnu, Benzinn, Bjössa, blómasalann, skrifara, Þorvald, Hjálmar, Ósk, Ólaf Gunnarsson (gamlan hlaupara endurheimtan) og Björn bróður hans, Frikka Meló, Möggu, Pétur og Magga. Frikki nýkominn úr Lundúnamaraþoni og var í bata. Honum var fagnað, náði enda frábærum árangri ytra.
Á Plani voru ýmis plön uppi: heitstrengingar um Kársnes og langt, aðrir voru hófstilltari, Þriggjabrúa eða jafnvel bara Hlíðarfót. Blómasalinn fór í fylkingarbrjósti þeirra sem stigu á stokk og heimtuðu langhlaup, en skrifari var raunsær og taldi við hæfi að farið yrði Þriggjabrúahlaup. Blómasalinn ætlaði að fylgja dr. Jóhönnu, en með henni voru fleiri frambærilegir hlauparar eins og Pétur og Hjálmar.
Eitthvað virðist blómasalinn hafa misreiknað tempóið sem myndi duga til að fleyta honum á Kársnes með súper-hlaupurum eins og Jóhönnu, því að hann dróst aftur úr þegar á Hofsvallagötu. Og það sem meira er: hann virtist ekki hafa áhyggjur af þessari þróun mála eða sýna viðleitni til þess að bæta úr því sem upp á vantaði í hraða. Hann raðaði sér meðal öftustu hlaupara og virtist una hag sínum vel þar.
Skrifari var í millihópi með Benzinum og Þorvaldi. Það er ekki slæmur félagsskapur. Þrátt fyrir að sumir kunni að vera annarrar skoðunar eru þeir kumpánar hvorki verri né betri en hverjir aðrir hlauparar. Jú,jú, það er sosum hávaði og kjaftagangur, alla vega í Benzinum, en allt er þetta á réttri leið og má ætla að á Jónsmessu verði kominn á hlaupafriður í Samtökunum og menn geti hlaupið án þess að vera stöðugt með einhvern vaðal í eyrunum.
Þetta gekk giska vel þrátt fyrir allt. Við Benzinn tókum vel á því þrátt fyrir að vera þungir á okkur og tíminn leið hratt, við lögðum hvern malbiksmetrann á fætur öðrum undir sóla og áður en við vissum af vorum við komnir inn í Nauthólsvík. Þar var ekki stoppað heldur haldið á Flanir og var haft á orði að tilhlökkun væri að því að takast á við Boggabrekkuna, við myndum dröslast þetta á síðustu bensínlítrunum ef svo færi.
Við litum um öxl er komið var að Brekku og sáum hlaupara að baki okkur sem við þekktum, Flosa, Magga og blómasalann. Settum í overdrævið og tókum Brekkuna með trompi, ekki blásið úr nös er upp var komið. Þar gerðum við stutta tímajöfnun og leyfðum blómasalanum að ná okkur. Hann blés eins og fýsibelgur og hreytti út úr sér eitthvað um schnitzel í hádeginu. Þar var komin skýringin á því hversu hægur hann var í dag: hann hefur fengið sér schnitzel með frönskum og bernaise-sósu í hádeginu!
Jæja, Flosi náði okkur líka og saman var kjagað yfir Útvarpshæð og tekið upp létt skokk yfir um Hvassaleiti, yfir Miklubraut, út á Kringlumýrarbraut og svo niður eftir. Það var góður gangur í hlaupurum og við skiptumst á að hafa forystuna. Er komið var niður undir Sæbraut sást til Magnúsar og mátti furðu sæta að hann skyldi hafa kraft í að ná okkur, ekki það við færum eitthvað sérstaklega hratt.
Við tókum Sæbrautina með látum og linntum ekki látum fyrr en komið var að Hörpu, gengið hjá hljómleikahöllinni, en svo haldið áfram um Hafnarhverfi og upp Ægisgötuna. Ekki sást til hinna lakari hlaupara, eingöngu bræður tveir á ferð sem signdu sig er upp var komið að Kristskirkju. Og svo rólega til Laugar. Blómasali með allra dapurlegasta móti í dag og kvartaði yfir slæmsku í baki, en hélt að vísu um magann á sér til stuðnings gegn bakverkjum. Dr. Jóhanna kom á Plan um svipað leyti og við hafandi farið 17,8 km - en við 13,6 eða þar um bil. Og svo Hjálmar og Björn stuttu síðar. Þar er allnokkur munur.
Samtökin lögðu undir sig Barnapottinn og var þó Benzinn ókominn. Rætt um hlaup, vegalengdir, hraða, tíma, tempó og annað sem tilheyrir. Frikki fékk kastljós kvöldsins og sagði frá Lundúnamaraþoni, með samanburði við þau fjölmörgu önnur borgamaraþon sem hann hefur þreytt.
Frábær hlaupadagur í frábæru veðri og frábærum félagsskap. Meira á föstudaginn er kemur. Í gvuðs friði.
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Athugasemdir
skrifari góður, MAMMON er mættur. Af hverju eru flest öll íþróttafélög búin að stofna skokkhópa. GETTU. Og það verður reynt að höggva í raðir Lýðveldisins. Asicselítan ráðin.
jörundur (IP-tala skráð) 25.4.2012 kl. 23:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.