Dýrðardagur í Lýðveldinu

Hvern sunnudagsmorgun er hlaupið frá Vesturbæjarlaug kl. 10:10. Þar koma saman fulltrúar Hlaupasamtaka Lýðveldisins og taka léttan sprett á sama tíma og tekin er rispa á þjóðmálunum, menningarmálunum og kjaftasögunum. Að þessu sinni voru mættir Ó. Þorsteinsson, Jörundur, Biggi, Benzinn og skrifari. Þeir áttu létt spjall við geðþekka sundlaugargesti sem mættir voru til að þreyta sund á þessum fagra degi en komu að lokuðum dyrum Laugar. Ekki er opnað fyrr en kl. 11 og má heita að sæti furðu, að Vesturbæingar skuli ekki fá aðgang að einni helstu auðlind þjóðarinnar, heita vatninu, fyrr en langt er liðið á dag. Þessu þarf að breyta.

Vitanlega var rabbað stuttlega um afmæli vinar okkar, Vilhjálms Bjarnasonar, en jafnframt um frammistöðu hans í Útsvari, sem var alveg með ágætum, utan hvað leikið atriði þótti under sygekassegrænsen. Spurt var: "Hver í Garðabænum heldur að Vilhjálmur geti leikið?" Jæja, við vorum svo sem ekkert að svekkja okkur á þessu en fórum af stað á léttu skokki.

Einnig var rætt um þátttöku félaga okkar í vormaraþoni í gær - og ekki síst þá sem taka þátt í London Marathon í dag, Frikka, Rúnu og Benna. Voru bundnar vonir um góðan árangur þessara frábæru hlaupara.

Þrátt fyrir að búið sé að gera sérstaka stíga fyrir hjólreiðafólk þráast það við að fara þar sem því er ætlað, en fer um göngu- og hlaupastíga, hlaupurum og gangandi vegfarendum til mikils ama. Bjarni tók til sinna ráða og las þeim sumum pistilinn og lá við handalögmálum í e-m tilvikum.

Við mættum dr. Einari Gunnari snemma hlaups, hann var í löngum göngutúr en stefndi að því loknu á Laug.

Í Nauthólsvík var stanzað og fyrstu sögur sagðar. Það er jafnan hátíðarstund þegar sagðar eru sögur í Víkinni, og vill dragast af þeirri ástæðu að menn taki upp hlaup af nýju, fetuðum okkur í átt að Flönum þegar menn mundu loks eftir að taka til fótanna.

Í Garði var gengið að leiði stofnanda og fyrsta formanns Víkings, nú man ég ekki nafnið, en hann var Andrésson. Þessu næst var haldið áfram og farið hefðbundið hjá Veðurstofu og um Hlíðar. Á Klambratúni rákumst við á Hirðsmið Kvisthaga og áttum við hann stutt spjall. Rætt um þök og viðgerð á þökum. Biggi kvaðst vera með ónýtt þak, en sagðist ætla bíða þangað til það yrði alveg ónýtt áður en hann skipti um.

Við tókum Sæbrautina og Hörpu, en Ó. Þorsteinsson breytir ógjarnan út af fornri venju og fór yfir Sæbrautina hjá Sjávarútvegshúsi og fór þá leið um Miðbæ. Við hinir um hafnarhverfið og upp Ægisgötu. Hjá Kristskirkju gera menn hefðbundinn stanz, taka ofan höfuðföt og signa sig. Svo var haldið áfram til Laugar. Teygt á Plani og eftir það farið í Pott. Það var varla þverfótandi fyrir börnum og útlendingum í Laug. Ef Laugin opnaði á eðlilegum tíma væri ekki þetta kraðak af fólki þegar fastagestir eins og Hlaupasamtökin mæta á svæðið.

Sem fyrr skiptist hópurinn í tvo potta: barnapott og Örlygshöfn. Hávaði í Benzinum og höfðu sumir á orði að það þyrfti hljóðkút á hann. Aðrir höfðu meiri trú á öðrum meðulum. Þarna var rætt af kappi um frambjóðendur til Forseta Íslands og sýndist sitt hverjum. En þó mátti ætla að menn teldu sitjandi forseta og hana Þóru Arnórs eiga mesta möguleika á kosningu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband