21.3.2012 | 20:30
"Nú er Bleik brugðið!"
Bleik var brugðið í dag. Meira um það seinna. Veður með bezta móti þegar hlauparar söfnuðust saman til hlaupa frá Vesturbæjarlaug. Þurrt, stillt, 6 stiga hiti hið minnsta. Og það bara batnar fram að helgi. Mættir: Magnús, Flosi, Þorvaldur, Magga, dr. Jóhanna, Ósk, Helmut, blómasali, skrifari, Bjössi, Benz, Frikki - og loks kom Kalli af Brimum, vinur Goðmundar vinalausa. Hann hefur ekki sézt að hlaupum um langt árabil. Í okkar hópi er engin skömm að því að vera vinalaus, það er legio.
Jæja, það var þetta venjulega karp í Brottfararsal og baktal um náungann. En loks var ekki undan því vikizt að hefja hlaup. Nes var nefnt, sem er óvenjulegt á miðvikudegi, en það var einhver pastoral rómantík í mannskapnum, menn sáu fyrir sér hæga ölduna falla að og frá, bleika akra og slegin tún. Skrifari hafði efasemdir, en á þær var ekki hlustað frekar en fyrri daginn. Magga lagði til að það yrði byrjað á að fara út að Drulludælu og svo vestur úr. Leist þeim vel á þessa áætlun sem stefna á langt á næstunni, en okkur hinum var sosum alveg sama.
Skrifari hélt sér aftast af ráðnum hug, hann hefur ekki hlaupið að ráði síðustu þrjár vikurnar, orðinn feitur og þungur af hreyfingarleysi og óhófi í mat og drykk er tengist fundahöldum um landið. Einhverra hluta vegna raðaði blómasalinn sér í sama flokk, maður sem er búinn að æfa eins og heltekinn síðustu vikur og ætti að vera í fantaformi. Þarna voru Maggi, Benzinn, Kalli, Bjössi og fleiri.
Blómasalinn er ólíkindatól og hrekkjusvín. Hann hafði frétt af því að Benzinn væri viðkvæmur fyrir Hamborgarabúllunni. Upphóf hann nú mikinn munnsöfnuð og afflutning á þessum hjartnæma og geðþekka matsölustað, taldi fæðinu þar allt til foráttu og menn ættu að forðast hann eins og pestina. Ekki hafði hann lengi malað þegar Bjarni var stokkinn upp á nef sér, orðinn trítilóður og kvaðst ekki hlusta á svona óhróður. Var sem rakettu væri stungið í óæðri endann á honum og hann var horfinn með sama, náði hraðförunum á stuttum tíma og hélt sig þar.
Við hinir fórum þetta í hægðum okkar í Skerjafjörðinn og snörum við hjá Stoppustöð SVR og Oddi ættfræðingi. Á móti okkur kemur Friðrik kaupmaður og hafði eitthvað villst. Hann sneri líka við og hélt á Nes. Nú tók Kalli við sér og Bjössi og skildu okkur eftir. En blómasali og Maggi voru rólegir. Ég innti menn eftir því hvað blómasalinn hefði fengið í hádeginu, það var skyrdolla og glas af ávaxtasafa - ekkert sem getur útskýrt hægaganginn. Fór fetið er komið var að Hofsvallagötu, en lagði svo á Nes með Magga. Bjössi og blómasalinn hættu hlaupi hér.Hér var Bleik brugðið.
Við Maggi fengum félagsskap af Þorvaldi á Nesi og saman héldum við út að Haðkaupum, niður á Norðurströnd og svo í humátt að Laug. Er þangað kom sátu Bjössi og blómasalinn úti í glugga að trúnaðarhjali. Skrifari slóst í hópinn og áttum við langt spjall þar. Svo kom Sif langhlaupari og hafði pínt sig 6 km, hálffarlama konan. Svo var farið í Pott. Þar áttum við gæðastund nokkur. Bjarni með hávaða að venju, en sem betur fer hás svo það heyrðist ekki mikið í honum. Lagt á ráðin um Árshátíð og eru þeir hvattir til að skrá sig sem ekki hafa gert það, plássin fara að fyllast! Björn upplýsti að hann ætlaði að opna nýjan dagskrárlið: "The airing of grievances" í anda Frank Costanza. Leyfa félögunum að heyra um öll þau tilvik sem þeir hafa valdið honum vonbrigðum allt síðastliðið ár, hér verða einkum ákveðnir félagar skotspónn kokksins. Hins vegar verður enginn látinn gjalda fyrir hugsunarleysi sitt í mat Kokksins - hann verður ósvikinn! Hægri afturlöpp af íslenzkri rollu. Laugardaginn 14. apríl, muna það.
Í gvuðs friði.
Skrifari
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.