Barnakennari í Vesturbænum fyllir sjötta áratuginn

Á þessum hlaupadegi, fyrsta mánudegi í maímánuði, fyllir Flosi Kristjánsson sjötta áratuginn og er þarafleiðandi kominn á sjötugsaldur. Í Útiklefa var hann sagður ekki degi eldri en 49 ára. Þar voru mættir, auk ritara, Björn Nagli og Helmut. En þaraðauki voru mætt í Brottfararsal: dr. Friðrik, Magnús, próf. Fróði, Karl Gústaf, Magga þjálfari, Ósk, Haraldur, Ragnar, Pétur Einarsson, dr. Jóhanna og Friðrik kaupmaður. Svo kom Kári á Plan, en var á reiðhjóli og með hjálm og hafði einhver miður falleg orð um slíkt fólk. Hann reyndi að selja Kalla hjólið á staðnum, en ég veit ekki hvort Kalli féll fyrir trikkinu.

Veður fagurt, það hafði hitnað vel yfir daginn, nú var 16 stiga hiti og sól skein í heiði. Þetta var stuttbuxnaveður, enda margir komnir í sumargírið. Ég sá að prófessorinn var enn og aftur með snúruflækju um hálsinn og ég óttaðist að hann færi sér að voða á leiðinni. Magga lagði til að tækjum spretti í Öskjuhlíðinni, ekkert við það að athuga. Farið hratt út, 5 mín. tempó inn í Nauthólsvík og hékk ég í þeim hröðustu alla leið. Einhvers staðar við flugvöll sneri prófessorinn sér við og reyndi að hrækja á mig, en ég vék mér undan. Hann afsakaði sig með því að það væri ekki kurteist að hrækja á kvenfólkið í kringum hann.

Komið í Öskjuhlíðina og dokað við. Magga vildi taka átta 300 m spretti, mér leizt svona og svona á það, en lagði í hann. Ekki búinn að taka spretti á árinu og ekki spenntur fyrir að lenda í meiðslum núna. Fór því rólega og tók aðeins 4 spretti, gat talað Helmut til eftir það og saman fórum við tilbaka þar sem Ósk slóst í för með okkur. Hún keyrði upp hraðann og áður en við vissum af vorum við komin upp í sama brjálæðistempóið og við upphaf hlaups. En þetta gekk ágætlega og við héldum tempóið út, þótt hún færi loks fram úr okkur.

Teygðum á Plani. Þar voru Magnús og dr. Friðrik fyrir og að dreif kvenfólk sem vildi ganga í Hlaupasamtökin. Þeir reyndu sitt bezta til þess að flæma það frá, trúir beztu hefðum Samtakanna frá tímum Guðjóns hortuga. Má teljast merkilegt að enn hlaupi konur með Hlaupasamtökunum þegar slíkir öðlingar annast nýliðunina.

Jörundur mætti í Pott og kvaðst hafa hlaupið fyrr um daginn. Fyrir því er engin vissa. Hann boðaði fjallgöngur þegar í næstu viku til undirbúnings Laugavegi, verður kallað sérstaklega til þeirra viðburða. Þá verður Esja. Í gvuðs friði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband