Einsemdin er algjör

Ritari hefur verið á vegum Lýðveldisins á fjarlægum ströndum og stritað í þágu íslenzkrar alþýðu. Þar fyrir utan voru meiðsli sem skutu upp kollinum í kjölfar hlaups 2. maí þegar ritari var teymdur á 5 mín. tempói inn í Öskjuhlíð og látinn taka spretti þar og aftur á sama tempói tilbaka. Slíkt er bara áskrift að meiðslum. Sem létu ekki á sér standa. Bólginn ökkli sem varð þess valdandi að ritari hökti um flugvelli Evrópu eins og aumingi.

Nema hvað. Á þessum laugardagsmorgni var að því komið að þreyta rólegt hlaup. Til þess að draga skörp skil milli sín og annarra ákvað ritari að hlaupa kl. 11. Hann hitti fyrir Hjálmar í Útiklefa sem hafði hlaupið á Nes. Frétti þar að ýmsir hefðu hlaupið, ýmist kl. 8:30 og 9:30. Ritari var ekki að nenna þessu, en sá að hjá því yrði ekki komizt að hlaupa. Lagt í hann rólega.

Hann mætti Möggu og Bryndísi á Hofsvallagötu og á Ægisíðu mætti hann dr. Jóhönnu og stuttu fyrir aftan hana var Helga Jónsdóttir frá Melum í Hrútafirði. Þar fyrir utan var fjöldi hlaupara á vegum úti, og allir brunnar í Reykjavík þurrir. Þetta var furðu auðvelt þrátt fyrir langa fjarveru frá hlaupum og ljóst að áhyggjur ónefnds blómasala af ástandi ritara óþarfar. Á móti mætti spyrja: hvar er sá feiti? Hvað er hann að afreka í dag?

Ritari hljóp sem leið lá austur Ægisíðu og alla leið út í Nauthólsvík. Ekkert bar til tíðinda á þeirri leið, og svo var beygt inn á Hlíðarfót. Ekkert bar þar til tíðinda að heldur þar sem ritari var einsamall og fátt sagt. Ekki er því að neita að hér var ritari orðinn áhyggjufullur yfir ástandi þeirra félaga sem ætla Laugaveginn í sumar, einkum blómasalans, sem er veikur fyrir góðum mat og er staddur í sumarbústað í dag.

Tók aukasveiflu á brúnum yfir Miklubraut til þess að lengja og endaði hlaup á góðum spretti. Ánægður með hið líkamlega ástand, nú er bara að halda áfram. Ritari heldur til N.Y. næstkomandi þriðjudag og mun taka sprettina í Central Park þar sem engin fjöll er að finna. Vonast til þess að félagar hans haldi sig við prógrammið og biður ábyrga félaga að passa sérstaklega upp á blómasalann, sem er einn af okkar minnstu bræðrum.

En á morgun er sunnudagshlaup.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég hélt að þið ferðaglöðu eyðsluseggir ráðunneytana, höktu ekki heldur væru keyrðir um í lúxuskerrum. Ein spurning, ef allir sem eru á launaskrá mennnnningarmálaráðuneytisins væru staddir í vinnunni á sama tíma, væri þá pláss?

Jörundur (IP-tala skráð) 15.5.2011 kl. 09:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband