23.4.2011 | 13:45
Þegar Biggi þagnaði skaut ég inn orði
Lítill en snaggaralegur hópur hlaupara mættur í Brottfararsal kl. 9:30 í morgun í aðdraganda laugardagshlaups hjá Hlaupasamtökum Lýðveldisins - og hefur líklega oft verið ófrýnilegri. Mættir: ritari, Biggi, Flóki, Fríða, Nate (vona að ég hafi náð því réttu) og Tinna. Svo dúkkaði þekktur hlaupari upp í miðju hlaupi, en að því verður vikið síðar. Þar sem þau Fríða og Nate eru ný var gefin út hefðbundin viðvörun um þagmælsku í návist ritara ef þau vildu ekki að "mismæli" þeirra lentu á veraldarvefnum og varðveittust þar um alla framtíð.
Flóki búinn að fara 4 km fyrir hlaup og ætlaði bara stutt. Ritari ætlaði hins vegar langt og hafði vonast til þess að sjá blómasalann einnig, en varð að láta sér nægja Bigga sem hlaupafélaga í dag. Farið frekar hratt út enda voru aðrir hlauparar með eitthvað annað í huga en við Biggi. Þetta var of hratt tempó fyrir mig og ég hægði, vildi fara langt hlaup og hægt og njóta þess. Eftir Flanir fékk Biggi í hásinina og bað um hvíldarstopp, einhvern tíma um það leyti dúkkaði Friðrik kaupmaður upp og var ferð á honum. Hann tætti fram úr okkur, en kom stuttu síðar á móti okkur á leið að ná í hana Rúnu sína. Við sögðum að hann gæti náð okkur síðar.
Það bjargaði okkur í dag að nægar birgðir drykkjar voru með í för og var byrjað að kneyfa þær við Víkingsheimili. Undir Breiðholtsbraut og út í Hólma, og svo aftur tilbaka undir brautina og stefnan sett á Laugardalinn. Vart þarf að taka fram að Biggi malaði eins og köttur alla leiðina og var engin leið að komast að með sjónarmið. Þó gerði hann stutt hlé á máli sínu við Glæsibæ og þá notaði ég tækifærið og skaut inn sögu frá eigin brjósti sem entist að mig minnir niður á Sæbraut. Biggi spurði hvaðan heitið "69" væri komið og ég reyndi að útskýra það fyrir honum eftir beztu getu. Sögur og fróðleikur eru nauðsynlegt veganesti á hlaupum, þau taka athygli manns frá því hvað manni líður illa og hvað hlaupið er erfitt og allt í einu finnst manni það ekki erfitt lengur.
Löng hlaup eru tímafrek og eins gott að vera ekki tímabundinn. Biggi kvaðst ekki vera tímabundinn. Raunar væri búið að skipuleggja Sorpudag á hans heimili að honum fornspurðum og það kæmi bara ágætlega út að vera svolítið lengi í hlaupi dagsins. Hér spilar Pottur líka sterkur inn, því þar getur orðið allnokkur töf ef fróðleik er að hafa þar. Við höfðum lengt í Laugardalnum og fórum svo Hljómskálagarð á heimleiðinni og teljum okkur hafa farið rúma 18 km. á þokkalegu tempói.
Teygðum vel og lengi á eftir, bæði á Stétt og í Móttökusal. Svo var Pottur á eftir. Þangað kom Albert hjóla- og sundþjálfari Jakobsson og var ekki að því að spyrja að úr spannst hátt í klukkutíma samtal um hjól, hlaup og sund og var fróðlegt að hlusta á þá tvo, Bigga og Albert, ræða af þekkingu um þessi mál sem ritari hefur ekki vit á. Ég bara hleyp.
Lokað er í Laug á páskadag, en opið á annandaginn og er það tillaga mín að hlaupið verði hefðbundið sunnudagshlaup þá frá Laug kl. 10:10, en VBL opnar kl. 11.
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.