10.4.2011 | 14:32
Hlaup halda áfram að loknu þjóðaratkvæði
Starfsemi Hlaupasamtaka Lýðveldisins raskast ekki þrátt fyrir þjóðaratkvæði eða breyttan afgreiðslutíma Vesturbæjarlaugar. Nú stóðum við utan Laugar kl. 10 í morgun, vindbarðir og vinalausir, Ó. Þorsteinsson, Ólafur ritari, Jörundur og Þorvaldur. Það er mjög einkennileg staða að láta vísa sér úr Sal eftir 25 ára samfellda sögu hlaupa, menningar og persónufræða. Enda blasir við að það verður að breyta afgreiðslutíma á sunnudögum, en hleypa félögum Samtakanna í búningsaðstöðu ella svo að þeir geti hengt af sér reyfin og klæðst hlaupagöllum.
Það blés einhver ósköp og af þeirri ástæðu var þrædd leiðin milli bakgarða í 107 með Þorvald í fylkingarbrjósti. Jörundur að koma úr Flóahlaupi í gær þar sem hann sigraði í flokki sjötugra og eldri. Sigurður Ingvarsson sigraði einnig í sínum flokki, hljóp 10 km á 42 mín. í vitlausu veðri. Þannig fórum við um garðana allt þar til komið var út á Suðurgötu, þar brast sunnanstormur á og svo hvasst á köflum að maður stóð eiginlega í stað. Þetta var ekki veður fyrir aumingja. En á móti kom að við stoppuðum oftar og gengum, skoðuðum hús sem nafni minn og frændi benti á og þekkti íbúa þeirra.
Það var komið í Nauthólsvík og þar var varla nokkurt skjól að hafa og engin sérstök ástæða til að staldra við. Því var haldið áfram í Kirkjugarð og þá loksins fór að verða nokkurn veginn þolanlegt að hlaupa. Hér var rifjað upp hlaup ónefnds blómasala í gærmorgun, laugardag. Hann hafði haft í frammi heitstrengingar um að fara 20 km hið stytzta. Hann sást þó heldur lúpulegur í Útiklefa eftir 10 km hlaup og gaf þá skýringu að hann hefði fengið í magann! Það þýðir ekki að bera við magapest ef menn eru staddir uppi á miðju fjalli í Laugavegshlaupinu í sumar.
Við fórum hefðbundið yfir Veðurstofuhálendið og er komið var hinum megin í Borginni fór vind að lægja og við fórum um Laugaveg. Fáir voru á ferli hvort heldur var á Ægisíðunni eða Laugaveginum, en þó var þekkt klíentel á Kaffi París þar sem hefðbundin hylling fór fram. Upplýst að Sundlaugaratriði Hlaupasamtakanna frá föstudegi var sýnt á frönsku sjónvarpsstöðinni Arte í gær. Heimsfrægð er staðreynd.
Dólað tilbaka og í Pott. Þar var hefðbundin uppstilling og umræða um niðurstöðu atkvæðagreiðslu. Þarna var barnabarn Mímis, ung stúlka, og fékk yfir sig gusurnar frá dr. Einari Gunnari, en það er sérstakur hæfileiki hans að dæla vatni á fólk með greipinni krepptri. Sú stutta tók gusunum af karlmennsku.
Flokkur: Pistill Ritara | Breytt s.d. kl. 14:34 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.