31.12.2010 | 16:13
Metþátttaka í velheppnuðu ÍR-hlaupi
Hlaupasamtök Lýðveldisins áttu glæsilegan hóp í Gamlárshlaupi ÍR þetta árið, ekki færri en 22 hlauparar úr okkar hópi þreyttu hlaupið og voru til fyrirmyndar. Veður var afbragðsgott, þurrt, stillt og hiti um frostmark. Þátttakendur voru yfir 1000 og var stemmningin sem aldrei fyrr. Lagt upp frá mótum Hólavallagötu og Túngötu, hlaupið ræst með flugeldi. Svo mikill var fjöldinn að maður hljóp í hópi alla leiðina og var aldrei einn.
Var til að byrja með í samfylgd við blómasalann, en fljótlega gaf hann í og hvarf. Stuttu síðar dúkkaði Helmut upp með hatt og bakpoka. Í bakpokanum geymdi hann kampavínsflösku og við belti dingluðu nokkur glös. Ég ákvað að hengja mig á hann. Það gekk nokkurn veginn fyrstu fimm kílómetrana, en svo seig hann fram úr og hvarf.
Það var hált á hlaupaleiðinni og því mátti fara varlega. Brautarvarsla var með ágætum og hressandi að fá kalt vatn að drekka á drykkjarstöð. Það var farið að draga af manni á Suðurgötu og árangurinn ekkert til að hrópa húrra fyrir er komið var í mark, en samt bærileg lok á hlaupaárinu. Ég hóf þegar brjálæðislega leit að Helmut og kampavínsflöskunni, en fann ekki. Það var farið að kólna og ég drattaðiðst heim á leið.
Ritari óskar lesendum bloggs gleðilegs nýs árs og farsældar á nýju hlaupaári.
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.