Einn illyrmislegur sermón um sólskinshlaupara

Enn var spurt: hvar var blómasalinn? Hvar var prófessor Fróði? Getur verið að nístingskuldi og norðanátt hafi haldið þeim frá hlaupi í dag? Um þetta var rætt í Brottfararsal er safnast var saman til hlaupa á þessum kalda og vindasama mánudegi í versta vetrarmyrkrinu. Mætt voru: ritari, Bjarni, Bjössi, Flosi, Karl, Þorvaldur, Magnús, Melabúðar-Frikki, Rúnar, Dagný, Ósk og Jóhanna Ólafs. Ekkert plan lá fyrir um hlaup dagsins svo að menn æddu beinustu leið niður á Ægisíðu og þaðan inn í myrkrið þar sem ekki sá handa skil.

Fremstir fóru vaskleikamenn, þeir Flosi og Bjarni, og Þorvaldur blandaði sér í keppnina. Ritari náði að hanga í þeim inn að flugvelli, en þá hurfu þeir, við Þorvaldur héldum hópinn og stefndum á Hlíðarfót, þar sem Dagný náði okkur. Þau styttu síðan þvert yfir hjá Gvuðsmönnum, en við hinir fórum rétta leið fyrir hornið á Vodafone-höllinni. Síðan voru farnar Þrjár brýr á Hringbraut, að Háskóla, Háskólagöng, Háskólatorg, Aragata og svo aftur niður á Ægisíðu og þannig klárað 10 km hlaup á 55 mín, 5:30 tempó eða þar um bil.

Aldrei varð ég var við aðra hlaupara í hlaupinu og veit ekki hvað þeir gerðu, en sá þá koma tilbaka nokkru á eftir okkur slefandi af kulda og illri meðferð. Var greinilegt að Rúnar hafði pískað þá áfram og látið þá hafa fyrir hlutunum.  Teygt í Sal áður en haldið var til Potts, þar sem setið var lengi og sagðar  sögur og rifjaðir upp staðhættir á Snæfellsnesi. Þar sátu engir sólskinshlauparar, heldur hetjur sem láta ekki nístandi gadd og norðanátt tefja hlaup. Næst hlaupið á miðvikudag: þá verður það enn verra!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband