Glerhált!

Fámennur hópur hlaupara mættur á mánudegi í prýðisveðri - en glerhált á götum og stígum. Magga, Maggi, Flosi, Siggi Ingvars, Karl Gústaf, Björn, Bjarni Benz, ritari, Ósk og Biggi. Rekistefna í Útiklefa yfir Stjórnlagaþingi, Benzinn og Bjössi lentu upp á kant hvor við annan yfir ólíkum sjónarmiðum um kosninguna.

Lagt í hann á rólegu nótunum, en hraðinn settur upp á Suðurgötunni og skeiðað út að Skítastöð. Þar skipti hópurinn sér, sumir tóku spretti á Nesi, aðrir héldu áfram í Hlíðina. Þeirra á meðal voru ritari, Benzinn, Flosi og Kalli. Fórum á hröðu tempói og drógum  Magnús uppi í Nauthólsvík, hann hafði svindlað og stytt hlaup sitt. Hér héldum við Flosi og Benzinn áfram á sama hraða tempói en Kalli kaus að dóla sér með Magga. Sem fyrr segir var nokkuð hált og máttu menn gæta sín víða á leiðinni.

Það fór svo að ég hægði ferðina og leyfði þeim að halda sínum hraða. Fór hjá Gvuðsmönnum, tók Þrjár brýr, hjá Háskóla, Háskólatorg, Aragötu og aftur niður á Ægisíðu, náði þannig 10,8 km í kvöld á alveg þokkalegum hraða, 59 mín. Teygt á Plani og aftur upphófust orðahnippingar yfir Þinginu, en nú æstust leikar og menn að hækka róminn. Svívirðingar gengu á báða bóga, atvinnurógur og persónulegt níð. Þau hin höfðu tekið 10 400 m spretti á Nesinu og farið út á Lindarbraut. Góður hlaupadagur, synd að svona margir skyldu missa af hlaupinu. Vakin athygli á Fyrsta Föstudegi næsta föstudag - ætli það verði ekki bara Ljónið?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband