26.11.2010 | 21:27
Fjórir fræknir á ferð á föstudegi
Þeir voru ekki margir sem sáu ástæðu til þess að hlaupa með Hlaupasamtökum Lýðveldisins frá Vesturbæjarlaug á þessum fagra vetrardegi þegar himinninn skartar sínu fegursta og sólin er við það að hníga til viðar um það er menn leggja í hann. Þessir fjórir voru Þorvaldur, Flosi, Bjarni og ritari. Þar sem þessir menn eru allir geðprúðir þá ríkti mikil eindrægni, samstaða og bræðralag í Brottfararsal fyrir hlaup. Eitthvað var rætt um jólahlaðborð, en einnig bar á að fjarverandi hlauparar væru bornir þungum sökum fyrir það að taka drykkjuskap og matarát fram yfir heilnæma útiveru og heilbrigt líferni í hópi glaðværra miðaldra hlaupara. Hvað um það, hér skyldi hlaupið.
Farið afar rólega af stað og voru Flosi og Bjarni aftastir til að byrja með. Þorvaldur æddi áfram á undan okkur í hugstola tryllingi, en tók svo eftir því að við náðum ekki að fylgja honum, varð því að snúa við og sameinast okkur. Við skildum ekki alveg hvað var í gangi og voru settar á flot kenningar um að þessi hraði félaga okkar myndi skila honum síðar í mark en okkur hinum. Hélt hann þó uppteknum hætti og hljóp á undan okkur og var ólmur að leggja sem flesta kílómetra að baki sér á sem skemmstum tíma.
Smásaman var hraðinn aukinn og var hann orðinn þolanlegur í Skerjafirði. Maður fór að velta fyrir sér hvort þetta gæti haldið áfram svona, við skiptumst á að hafa forystuna í hlaupinu, en þó hafa sumir okkar ekki hlaupið um nokkurt skeið vegna vinnu í þágu þjóðarinnar á erlendri grund. Nú eru hlutir að breytast í Öskjuhlíðinni, það er búið að gera dónamönnunum erfitt um vik að athafna sig, grjóti velt fyrir akstursleiðir svo að nú geta hlauparar um frjálst höfuð strokið og hlaupið hættulaust um stíga og götur. Við upp brekkuna samkvæmt venju og dokuðum við eftir öftustu hlaupurum. Svo var það bara áfram um Veðurstofu og Hlíðar.
Hér fóru þeir Flosi og Bjarni að derra sig og fór það svo að þeir skildu okkur Þorvald eftir. Raunar lenti ég á rauðum ljósum við umferðargötur oftar en mér þótti fyndið og tafði það fyrir hlaupi. Svo var það bara Sæbrautin og hér leið manni harla vel. Farin Svörtuloft og Geirsgata, mig grunar að þeir hafi lengt, því ég sá þá ekki. Þorvaldur trúlega stytt. Við sameinuðumst á Plani og teygðum.
Í potti var ungur sveinn 18 mánaða gamall sem hélt uppi skemmtun og hændist mjög að þeim Bjarna og Kára sem bættist í pott, enda eru þeir meir í ætt við tröllkarla en venjulegt fólk. Sá ungi hefur trúlega haldið að hann væri staddur í ævintýri þar sem honum væri ætlað mikilvægt hlutverk. Það urðu nokkrar umræður um hvernig menn geta yfirgefið persónu sína við erfiðar aðstæður og horft á sjálfan sig utan frá. Var Kári skárri en enginn í því að greina frá fólki sem farið í gegnum ýmisleg hamskipti í þessum skilningi.
Fámennt en vel heppnað hlaup að baki.
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.