Sunnudagar eru einstakir

Þekktir hlauparar söfnuðust saman við Vesturbæjarlaug í dag til þess að þreyta hlaup: Ólafur Þorsteinsson, Jörundur, Þorvaldur, Magnús, Einar blómasali, Ólafur ritari og René. Veður var afar fallegt, sól, logn, þriggja stiga hiti. Einstakur dagur til hlaupa. Lagt upp rólega enda sumir búnir að vera frá hlaupum um nokkurt skeið. Rætt um úrslit leikja í enska boltanum og um óhagstæða niðurstöðu í leik ónefnds kappliðs í Austurbænum gegn gvuðsmönnum úr Hafnarfirði. Þann leik vissi Formaður um enda hljóp hann alla leið austur að Víkingsheimili í gærmorgun og tilbaka aftur, 16 km, takk fyrir!

Aðventan er á næsta leiti og því orðið tímabært að huga að hefðbundnu jólahlaðborði Samtakanna. Sú hugmynd hefur komið upp að halda boðið í heimahúsi og annað hvort draga sjálf saman aðföngin eða kaupa hlaðborð hjá fagmanni. Blómasalinn bauð fram hús Jörundar til þessara nota og var vel tekið í það boð. Ritari gerði tillögu um 4. eða 11. desember sem mögulega hátíðardaga og er það með hliðsjón af utanlandsferðum hans. Jörundur blés á þessa tillögu og sagði að það yrði ekkert tillit tekið til þess hvort ritari er á landinu eða ekki. Þetta sárnaði ritara.

Rætt um jólabækurnar og um framboð til Stjórnlagaþings. René er einn frambjóðenda og kvaðst vera á leið upp í Útvarp í viðtal sem verður útvarpað. René hljóp í stuttbuxum í dag og hlýtur að hafa verið kalt. Menn lögðu fram óskalista um það sem ritari ætti að taka með heim úr næstu utanlandsferð: Cadbury´s súkkulaði, 400 g, reyktan ál, paté, leverpastej, belgískt súkkulaði og ég veit ekki hvað.

Komið í Nauthólsvík og gerður fyrsti stanz dagsins. Gengið um stund, en enginn tæmdi skinnsokkinn þarna. Haldið áfram í kirkjugarð þar sem Jörundur og blómasalinn tóku á sig sérstakan krók til þess að leita að vökumanni garðsins, sem ku hafa verið grafinn þarna 1932. Svo var haldið áfram sem leið lá um Veðurstofuhálendið og þann pakka allan.

Það var stoppað á réttum stöðum og staða mála tekin. Meðal annars var spurt: hvar er Villi? Hvað skyldi hann vera að gera í dag? Nú hefur fækkað neyðarhringingum á sunnudagsmorgnum og því harla fátt að rapportéra, annað en að hann ku hafa verið í Írlandi að flytja út ráð - og varla hafði hann sleppt orðinu hjá frændum okkar þegar Cameron reif upp veskið og bauðst til þess að beila út írsku bankana. Svo máttug eru orð Villa á Eyjunni grænu.

Jæja, það var farið um Rauðarárstig og niður á Sæbraut. Við urðum að vísu viðskila við Ó. Þorsteinsson, það fór eins og stundum gerist að hann þurfti að taka mann tali og þá varð bara að sætta sig við það. Það var múgur og margmenni á Sæbraut, aðallega túristar frá hinum Norðurlöndunum. Gegnum miðbæ, Grófina og út á Ægisgötu. Þetta var fínn túr hjá okkur og gott að hreyfa sig örlítið á milli flugferða.

Baldur Símonarson mættur í pott og var settur í bílnúmerapróf sem hann flaskaði illilega á. Hann veit ekki mikið um bílnúmer. Þarna  voru líka frú Helga Zoega Gröndal Flygenring og Stefán maður hennar. Það var rætt um mat og aftur bar reyktan ál á góma sem og annað góðgæti.

Nú verður enn hlé á að ritari hlaupi, en ég bið fólk að velta fyrir sér dagsetningum fyrir jólahlaðborð.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband