18.10.2010 | 21:35
Kaaaaaaaalt!
Vel mætt í fyrsta kalda hlaup haustsins, hiti fallinn í 5 gráður og farið að blása af norðri. Mættir Ágúst, Gísli, Flosi, dr. Friðrik, dr. Jóhanna, Helmut, Melabúðar-Frikki, Jóhanna, Rakel, Bjössi, Benzinn, ritari, Eiríkur, Hannes, Magga og Rúnar, enn á reiðhjólinu. Það var líf og fjör í Útiklefa eins og venjulega, rætt við dr. Svan um ýmsar venjur Hlaupasamtakanna. Afhentur listi yfir boðsgesti frá Formanni. Einar blómasali mætti, en hugði ekki á hlaup, gerði peningamerki með fingrunum til þess að réttlæta fjarveru.
Á Plani voru lagðar línur um hraðaleik, en fyrst rólega út að Dælu. Farið á 5 mín. tempói þangað. Sumir héldu áfram austur úr, einhverjir fóru Hlíðarfót, Ágúst fór tæpa 20 km. Við hin tókum spretti vestur á Nes, mislanga, en fjári góða, frá 500 upp í 1000 metra, með stuttum hvíldum á milli. Ég hékk í þeim fyrstu tvo sprettina, en dróst svo aftur úr. Haldið á Nes um Skjólin, og ég orðinn einn þar til Rúnar dúkkaði upp á hjólinu og fylgdi mér svo eftir alla leið tilbaka um Lindarbraut og Norðurströnd. Farið á hröðu tempói síðasta spölinn, kringum 5 mín. eða þar um bil.
Teygt lengi í Móttökusal, áform um Mývatnsmaraþon rædd, þurfum að fara að taka ákvörðun og hefja skipulagningu. Áhugi á að leigja rútu og fara með allan hópinn norður. Pottur vel heitur og setið lengi, eða allt þar til Ágúst kom úr sínu langa hlaupi. Nú fer að verða kalt að fara upp úr eftir hlaup og maður dregur það við sig í lengstu lög.
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.