"Djöfull ertu orðinn feitur!"

Elskulegheit af ofangreindu tagi heyrast vart lengur í Hlaupasamtökum Lýðveldisins, en menn fengu tilefni til þess að rifja þau upp í hlaupi dagsins. Þessi orð voru viðhöfð fyrir fáeinum árum þegar hlaupari í meiðslum mætti til Útiklefa og hitti þar fyrir félaga sína. Meira um það seinna. Nú voru þessir mættir á sunnudagsmorgni: Magnús tannlæknir, Jörundur, Flosi, Ólafur Þorsteinsson og Ólafur ritari. Það hafði kólnað frá því í gær og minna logn var á.

Lagt upp í rólegheitum, Jörundur og Maggi tæpir og gáfu til kynna að ekki væri víst að þeir tækju fulla porsjón í dag. En þeim var haldið við efnið með samfelldri orðræðu frá Hofsvallagötu og út í Nauthólsvík þannig að þeir höfðu ekki tækifæri til þess að snúa við. Samtalið snerist um bíla við Ægisíðu, íbúa, ættir og bílnúmer. Það var gerð örkönnun á þekkingu manna á eftirtöldum númerum: R-29, R-28 og R-27.

Jörundur spurði Magga hvort það væri rétt að lúpína yxi upp úr bílhræi sem stendur í garðinum hjá honum. Sjálfur er hann nýkominn úr ferð um Vestfirði þar sem allt veður uppi í lúpínu. Hér var rætt um fyrrverandi hlaupara sem ku vera komnir með ístruna niður á tær. Einhver lýsti yfir þeirri ósk að viðkomandi mættu í Útiklefa svo að hægt yrði láta í ljós skoðun á vaxtarlagi þeirra.

Áfram upp úr Nauthólsvík og í Kirkjugarð, gengið. Eftir þetta segir fátt af hlaupurum, enn fjallaði Ó. Þorsteinsson um hið velheppnaða Bláskógaskokk og veizluna á eftir. Það var fremur svalt á þessum kafla, öllu kaldara en í gær. Það var farið um Veðurstofu, Hlíðar, Klambra og niður á Sæbraut. Staldrað við hjá Hörpu og nýtt útlit skoðað. Farið um Austurvöll í von um hyllingu, sem engin varð fremur en seinast.

Teygt á Stétt. Jörundur kvaðst hafa áhuga á að nýta Fyrsta Föstudag maí-mánaðar sem mun hafa fallið niður. Gæti orðið af því næsta föstudag að Jörundar í Skjólum. 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband