Reðurtákn á Ristruflönum - eða einn stór fokkjúputti

Hlýindi að vori, rigning, lygnt, enn einn hlaupadagurinn runninn upp. Fámennt að Laugu, hafði fólk á orði hversu mjög hefði fækkað í hópi hlaupara, en fátt um skýringar. Enginn Guðjón sem flæmir kvenfólkið í burtu. Hvað er um að ske? Jæja, mættir voru þjálfarar, Gerður, Flóki, Haraldur, Þorvaldur, Flosi, S. Ingvarsson, Benzinn, Ólafur ritari, dr. Friðrik, Denni af Nesi og Kristján með honum, Neslaug lokuð. Denna var efst í huga Fyrsti Föstudagur sem er n.k. föstudag og hafði áhyggjur af skipulaginu.

Dagsskipunin hljóðaði upp á Drulludælu til að byrja með. Helmingurinn fór upp á Víðimel og setti stefnuna á Suðurgötu, hinn helmingurinn fór beinustu leið niður á Ægisíðu og setti stefnuna á Sólrúnarbraut. Sá er hér ritar fór af meðfæddri samvizkusemi út á Suðurgötu og nam á leiðinni allt baktal sem grasserað hafði um hann i Samskokkinu, alls kyns ýkjusögur og ósannindi. Er komið var að dælu var staðan ekki góð: venjulegir hlauparar horfnir áfram austur úr, en ofurhlauparar að stilla sér upp til spretta. Ekki höfðu þjálfarar fyrir því að útskýra fyrir ritara planið, nei, menn gáfu sér bara fyrirfram að hann ætlaði að vera aumingi í dag. Það var rokið orðalaust af stað vestur úr á spretti. Ég hélt áfram austur úr á eftir hinum aumingjunum.

Sá menn sem ég kannaðist við í Nauthólsvík, sá að fjórir þeirra fóru Hlíðarfót, en Benzinn og Flosi fóru áfram Flanir og stefndu á Þriggjabrúa. Ég set kúrsinn á eftir þeim. Er komið er á Flanir blasir við mikið listaverk í hlíðinni á vinstri hönd, sem mig grunar að sé helgað Sveinbirni Beinteinssyni Allsherjargoða. Þetta er heljarmikið grjót á breiðum stöpli og minnir einna helzt á risareður ellegar fokkjúputta og er vel við hæfi að stilla því upp á þessum stað. Hvað um það, ég áfram á eftir þeim hinum. Ritarinn var í góðum fíling, en þar sem hann var einn nennti hann ekki að fara Þrjárbrýr, lét sér nægja Suðurhlíð.

Á Plani velti fólk fyrir sér ástæðum þess að svo mjög hefði fækkað í hlaupahópnum upp á síðkastið. Jafnframt var kvartað yfir því að hópurinn tvístraðist á hlaupum, menn væru að hlaupa einir sér og yfirgefnir. Það er ekki skemmtilegt. Þarf ekki líka að sinna hinum lakari hlaupurum? Á bara að einbeita sér að spretthörðustu hlaupurunum? Ekki var laust við að maður saknaði blómasalans og prófessors Fróða, sem nenna að hlaupa með feitlögnum, miðaldra kyrrsetumönnum.

Huga þarf að Fyrsta Föstudegi, við bíðum eftir orðsending frá Denna. Í gvuðs friði, ritari.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ritari góður, velkominn í aumingjahópinn. Nú erum við tveir.

Jörundur (IP-tala skráð) 4.5.2010 kl. 20:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband