Magnús gengur í endurnýjun lífdaga - leggur drög að miðasafni með afsökunum

Er við Bjarni bjuggumst til hlaupa sáum við til Magnúsar tannlæknis í heita pottinum. Hann hefur kannski haldið að eftir honum yrði ekki tekið og að hann myndi sleppa. Nei, við hófum þegar köll og hróp og drifum hann skömmustulegan upp úr potti. Hann neyddist til að fara inn og klæða sig í hlaupagír. Á sama tíma klæddust Þorvaldur og Kári hlaupafatnaði, Flosi ekki langt undan. Þessir bættust við allnokkurn hóp hlaupara sem þreyttu miðvikudagshlaup frá Vesturbæjarlaug í dag.

Í Brottfararsal var rætt um myndina góðu sem birtist á forsíðu Fréttablaðsins í síðustu viku. Reyndu menn að rifja hana upp, stellingar hlaupara, svipbrigði og annað sem lesa mætti úr myndinni. Grunur lá á um að Benedikt hafi vitað af ljósmyndaranum, hann var ÓEÐLILEGA pósaður á myndinni.
Á morgun er Flugleiðahlaupið og höfðu menn í einhverjum mæli mið af því, fóru hægt og stutt. Prófessor Fróði leit í kringum sig að auðsveipum fórnarlömbum - hann vildi fara langt, ekki styttra en 20 km. Fáir sem gáfu kost á því. Stemmning fyrir Þriggjabrúahlaupi. Aðrir kváðust ætla hægt og stutt. Magnús ætlaði að ganga - það er svo illa komið fyrir þessum hlaupara. Annað kom að vísu í ljós að hlaupi loknu. Jörundur mættur án ísaxarinnar, en veitti slíkan ádíens að manni rann kalt vatn milli þils og veggjar.  

Lagt í hann í blíðskaparveðri. Það voru þessi hefðbundnu uppsettu leikatriði, sumir fóru hratt og hurfu, aðrir rólega. Ég slóst í för með góðu fólki sem ætlaði Þriggjabrúa, m.a. Melabúðar-Frikka. Fórum þetta nokkuð hratt, langaði í sjó í Nauthólsvík, en eitthvað hélt aftur af okkur. Bogga-Brekkan erfið, en hafðist. Mikil brennsla, mikill sviti.

Hefðbundið tilbaka um Útvarpshæð. Er komið var á Plan aftur var Magnús þar og hafði hlaupið 10 km og var allur annar. Ég sagði honum að þetta væri bara sálrænt - eiginlega bara leti. Hann mótmælti því og kvaðst í alvöru hafa verið slappur fyrir hlaup, slæmur í baki, og ég veit ekki hvað. Enn var rifjað upp nýja kartotekið sem er í smíðum, lagt til að þeir legðu höfuð saman í bleyti, hann og blómasalinn, þar gætu komið skrautlegar afsakanir fyrir fjarveru frá hlaupum.

Talsmaður Hlaupasamtakanna um brezk stjórnmál, Baldur Símonarson, hlaupari án hlaupaskyldu, hvers tími í 10 km er trúnaðarmál, aðalgestur Kastljóss í kvöld og var Samtökum Vorum til mikils sóma með þekkingu og víðsýni, svo sem vænta mátti.

Enn er minnt á Flugleiðahlaupið á morgun kl. 19 - og svo er Fyrsti Föstudagur á föstudag. Hvað gerist þá?

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband