Jörundur er ekki vinalaus aumingi - sex hlupu honum til heiðurs 69

Þetta leit ekki vel út í byrjun, við Ágúst vorum tveir mættir í Brottfararsal á afmælisdegi Jörundar þegar til stóð að hlaupa 69 honum til heiðurs. Þó var vitað af Flosa og Benzinum í Útiklefa, en engu að síður spurðum við okkur: "Hvar eru vinir Jörundar?" En svo lagaðist þetta smásaman og það tíndust fleiri hlauparar inn: þjálfarar báðir, Benedikt, Magnús, Ragnar, Þorvaldur og Friðrik Meló. Og svo Jörundur sjálfur, að sjálfsögðu. Ekki var vitað til þess að veittar hefðu verið undanþágur frá hlaupi fyrir þá sem hyggjast hlaupa í París.

Jörundur fékk afmælisgjöf frá dóttursyninum sem hann valdi sjálfur. Hann var vakinn með pakka í morgun. Þegar pakkinn var opnaður kom í ljós púsluspil með 1000 bitum. "Þetta er mjög gott fyrir þig," sagði sá stutti. "Þetta þjálfar nefnilega heilann."

Mönnum voru ofarlega í hug góðar óskir sem streymdu að í allan dag til Jörundar og hlýnaði mönnum einkum um hjartarætur yfir þeirri vinsemd og vinarþeli sem ónefndur álitsgjafi í  Garðabænum sýndi afmæliisbarninu. Eru vonir bundnar við að þetta séu fyrstu teikn um þíðu í samskiptum og að áður en langt um líður verði gamlir vinir farnir að hlaupa með okkur á ný.

Parísarfarar ætluðu bara stutt í dag og skilst mér að þeir vildu sprikla eitthvað í Öskjuhlíðinni. En það voru einbeittir menn sem settu stefnuna á 69 og Jörundur þar í fylkingarbrjósti, eða þannig. Að vísu skal viðurkennt að tvær grímur voru á Magnúsi Júlíusi alla leið inn að Kringlumýrarbraut. Greinilegt var að litli lati kallinn í höfðinu á honum hamaðist á fullu við að brjóta niður allan vilja til langhlaupa og Magnús fór að spyrja Jörund hvort hann ætlaði virkilega langt í dag. "Viltu ekki frekar fara stutt með mér, fara Suðurhlið?" Nei, Jörundi fannst það ekki nógu gott á svo ágætum degi. Það skyldi farið yfir brúna á Kringlumýrarbraut. Hér gat Magnús ekki snúið við eða farið einn Suðurhlíð svo að það varð ekki hjá því komist að halda áfram.

Ekki var heldur fýsilegt að fara upp brekkuna hjá Bogganum, og við sögðum Magnúsi að þegar komið væri í Fossvogsdalinn væri þetta nánast búið. Hann tók það gott og gilt og hélt áfram með okkur. Það var trimmað inn dalinn og skiptust  menn á að hafa forystuna, prófessorinn með krók í Kópavoginn. Mættum félögum í Laugaskokki en þeir voru ekki mjög margir á ferð í kvöld. Haldið áfram hefðbundið hjá Víkingsheimili og niður að Elliðaám, yfir í hólmann.

Síðan var farið í Laugardalinn og fóru menn ýmsar leiðir þar. Hjá kirkju og niður á Sæbraut. Beðið eftir afmælisbarninu, en þegar það lét ekki sjá sig var haldið áfram og gefið í. Geta fróðir menn sér til að meðaltempóið í dag hafi verið 5:40 eða því sem næst. Svo var farið um miðbæinn, um Hljómskálagarð og hjá háskóla. Fámennt að Laugu við lok hlaups. Þar fór fram vísindaleg umræða um bóseindir sem verið er að framleiða í evrópskum hraðli.

Hvað gerist næst? Boðið er upp á samskokk frá Árbæjarlaug laugardaginn 3. apríl kl. 9. Ennfremur munu framsæknir menn í Vesturbænum hlaupa hefðbundið sunnudagshlaup þann sama dag frá Laug kl. 10:10.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Mönnum voru ofarlega í hug góðar óskir sem streymdu að í allan dag til Jörundar og hlýnaði mönnum einkum um hjartarætur yfir þeirri vinsemd og vinarþeli sem ónefndur álitsgjafi í  Garðabænum sýndi afmæliisbarninu. Eru vonir bundnar við að þetta séu fyrstu teikn um þíðu í samskiptum og að áður en langt um líður verði gamlir vinir farnir að hlaupa með okkur á ný. "

Þessi ummæli eru með öllu óþörf. Það er almenn kurteisi á Íslandi að óska fólki velfarnaðar og óska fólki hamingju á tímamótum. Svo er fólki einnig óskað til hamingju með að hafa sigrað áskoranir, að hafa gert vel.

Annars staðar er það svo að svívirðingar og upphrópanir eru viðhafðar um þá sem gera vel. Vegni ykkur vel í Vesturbæ.

Þar skilur á milli.

Vilhjálmur Bjarnason (IP-tala skráð) 1.4.2010 kl. 08:36

2 identicon

Fjarlægðu rangt eista

Þegar læknarnir áttuðu sig á mistökunum var „rétta“ eistað...

Sjúkrahús á norðurhluta Ítalíu hefur verið dæmt til að greiða karlmanni 180.000 evrur (um 30 milljónir króna) í skaðabætur vegna læknamistaka. Æxli hafði greinst í öðru eista mannsins sem fór í aðgerð árið 2004 til að láta fjarlægja það. Læknarnir fjarlægðu hins vegar heilbrigða eistað.

Gætið varúðar, drengir mínir, eftilvill bæði!

Vilhjálmur Bjarnason (IP-tala skráð) 1.4.2010 kl. 09:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband