15.2.2010 | 21:08
Nýstárleg aðferð
Bjarni sagði að það hefði valdið mönnum heilabrotum og almennri hneykslan að blómasalinn, maður sem er búinn að æsa alla í að þvælast til Parísar í vor í maraþon, skuli láta sig hverfa á hlaupadegi og vanrækja hlaup, án þess svo mikið sem segja orð í afsökunarskyni. Ennfremur upplýsti hann ritara um nýja aðferð sem hann hefur prófað með góðum árangri við að þvo þvottinn sinn. Hann byrjaði á því að lauma húfu sinni í tösku barnaskólakennarans og fékk hana nýþvegna tilbaka fyrir hlaup dagsins. Næst ætlar hann að bæta bolnum sínum við og sjá hvort þjónustan haldi ekki áfram. Svo er ekki að vita nema hann komi öllu hlaupadótinu í tösku kennarans og sleppi við að þvo af sér.
Bjössi mættur í hlaup dagsins og er búinn að uppgötva nýja hlaupaaðferð - hlaup í vatni. Þeir fóru Hlíðarfót með útúrdúr um brýrnar. Ekki fengust upplýsingar um hvað aðrir fóru. Veður gott, lítill vindur, og fremur hlýtt í veðri. Á morgun er Sprengidagur og daginn þar á eftir er hlaupið næst. Eru hlauparar vinsamlega beðnir að hlaupa ekki með baunasúpu í maganum. Slæm reynsla er af þeim undirbúningi. Í gvuðs friði, ritari.
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.