Fram og aftur blindgötuna

Ekki mjög margir mættir í hlaup kvöldsins, enda var glerhálka á gangstéttum og götum og yfirvöld búin að banna fólki að vera á ferð utandyra. Þetta létu félagar í Hlaupasamtökunum ekki á sig fá því nú skyldi tekið á því. Mætt: þjálfarar, dr. Friðrik, Magnús, Flosi, Þorvaldur, Ágúst, Bjössi, Frikki, ritari, Jóhanna, Þorbjargir báðar og Eiríkur. Um leið og þjálfarar höfðu orð á að fara spretti kom kvíðasvipur á prófessor Fróða, en þegar þeir töluðu um að fara í Faxaskjólið og taka hálfhringinn þar breyttist kvíðinn í angist, einhver spurði: "Var það ekki þarna sem þú meiddist um árið, Ágúst?" Hann kinkaði kolli þegjandi. Menn sáu í hendi sér að þetta hlyti að enda illa. Ágúst fór strax að blása til mótspyrnu og leita að samsærismönnum til þess að gera eitthvað allt annað en þjálfarar lögðu upp með, en varð lítt ágengt í því efni. Menn hlupu í einni hersingu niður á Ægisíðu og stefndu á Skjólin. "Hva, ætliði bara að hlýða þjálfurunum í blindni?" spurði prófessorinn, en þorði ekki að víkja frá settri stefnu og elti hina eins og bundinn á klafa.

Það var of hált til þess að taka spretti í Skjólum svo að við breyttum áætlun. Fórum á hjólastíginn á Ægisíðu og sprettum úr spori þar, meðan aðrir fóru annað, Flosi og Ágúst áfram austurúr og þeir Maggi, Þorvaldur og dr. Friðrik eitthvert afbrigði af aumingja. Við hin tókum spretti á stígnum, eigi færri en 12 400 m spretti og tókum vel á því. Eftir það var farið löturhægt út á Suðurgötu og þaðan til baka til Laugar um Hringbraut og Hofsvallagötu. Geysigott hlaup og veður frískandi, þótt víða væri hált. Náðum að teygja það í 10 km.

Í potti gómuðum við Kára og Önnu Birnu og hlýddum á afsakanir fyrir fjarveru, eitthvað um að detta af reiðhjóli. Toppurinn var svo þegar ritari fór upp úr og hitti fyrir blómasalann sem var að koma til Laugar þegar klukkan var langt gengin átta! Hvað á svona að fyrirstilla? Biluð tölva, vírus, svangir munnar heimafyrir, það sem fólki dettur í hug að bjóða upp á sem afsakanir! Nei, nú verður farið langt á miðvikudag og ekkert gefið eftir. Frábær hlaupadagur að baki.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband