Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2014
25.4.2014 | 22:04
Fyrsti Föstudagur í sumri - fagnað sigri í Víðavangshlaupi
Ný hefð varð til í sögu Hlaupasamtaka Lýðveldisins í dag: Fyrsti Föstudagur í sumri. Meira um það seinna. En fyrst ber að þakka hlaupurum Samtakanna sem héldu merki þeirra hátt á loft í Víðavangshlaupi gærdagsins og enduðu í þriðja sæti í flokkahlaupinu. Snorri, Frikki, G. Löve, Ragnar og S. Ingvarsson, hafið heila þökk fyrir frammistöðuna!
Mættir til hlaups í dag, föstudag, hiti 11 gráður, stillt og bjart: próf. Fróði, Flosi, Þorvaldur, Magnús, Einar blómasali, Ólafur skrifari, Ingi og Kári. Í Brottfararsal kvartaði Einar yfir gamla dollaragríninu sem átti að fungera sem mælitæki og hann hafði sært út úr þeldökkum sölumanni í dollarabúð í Boston að viðlögðum eið um að koma aldrei aftur í verzlunina. Nú spurði hann viðstadda hvort þeir ættu ekki gamalt mælitæki sem þeir væru hættir að nota og gæti gagnast honum við að mæla hraða og vegalengdir á hlaupum. Hér blandaði skrifari sér í samræðurnar og spurði um tilgang slíkra mælinga. Blómasalinn brást forviða við og sagði: "Nú, til að vita hvað ég fer langt og hratt." Eins og það skipti einhverju máli!
Þeir lögðu saman þekkingu sína um mælitæki og voru eins og litlir drengir, nefndu týpur og tölur og skrifari var engu nær. Þeir sögðu hvað úrið þeirra gæti gert, "mitt sýnir fjórar tölur", "mitt sýnir tölu" og þar fram eftir götunum. Eru þetta örlög Hlaupasamtakanna að sitja uppi með einhverja tækjanörda sem hugsa fyrst og fremst um tækin sem mæla hlaupin - og hlaupin mæta afgangi!
Jæja, við biðum eftir síðustu mönnum, Þorvaldur án hlaupaskúa og Magnús hljóp undir bagga, reddaði gömlum Adidasskóm sem hann fann hjá varadekkinu í bílnum sínum. Og af stað lagði hersingin. Hægt og rólega.
Á leið niður á Ægisíðu var flautað á okkur úr kampavínslitri jeppabifreið með skráningarnúmerinu R-158, þar var á ferð Formaður Vor, vakinn og sofinn yfir velferð menningar, sögu og bílnúmera í Vesturbænum. Við vörpuðum kveðju á foringja vorn.
Fljótt varð vart við derring í sumum hlaupurum, þrátt fyrir að sumir þeirra hefðu sporðrennt fimm (segi og skrifa FIMM) flatbökusneiðum í hádeginu. Prófessorinn, Flosi og Einar blómasali settu upp hraðann, þrátt fyrir yfirlýsingar um að fara rólega í dag. En stefnan var sett á hefðbundið. Við hinir vorum rólegri. Á endanum fór það svo að við héldum hópinn Magnús, Þorvaldur og skrifari. Kári og Ingi voru sér á parti, en samt var Kári flottur, búinn að grennast. Einar spurði: "Kári, ertu búinn að grennast?" Þetta eru vondar fréttir fyrir skrifara, hann hafði í Útiklefa lýst yfir ánægju með að vera í hópi félaga með hæg efnaskipti.
Jæja, þarna siglum við áfram og skrifari bara flottur, finnur svitann brjótast út og þetta verður léttara með hverju hlaupinu sem hann raðar inn. Þetta er alltaf auðveldara með góðum félögum, ekki gæti maður gert þetta einn. Maggi talaði líka um þetta að það væru lífsgæði að eiga þess kost að hlaupa með góðum drengjum eins og okkur Þorvaldi og eiga uppbyggileg samtöl við okkur.
Jæja, við þraukuðum hlaup út í Nauthólsvík og þar var gengið stuttlega, og félagar okkar horfnir sjónum. Hlaup tekið upp af nýju, farin Hi-Lux brekkan, og svo langa brekkan og sú leið áfram hjá Kirkjugarði og um Birkihlið, Veðurstofu, Saung- og skák og um Hliðar og Klambra. Við drógum ekki af okkur, orðnir vel heitir, Hlemmur og niður á Sæbraut. Ekki er búið að skrúfa frá vatnshönum þótt komið sé sumar.
Það var steðjað vestur úr, hjá Hörpu, Höfn og vestur að Slipp, upp Ægisgötu og niður Hofsvallagötu. Við Magnús áttum síðasta spölinn saman.
Að hlaupi loknu söfnuðust hlaupnir og óhlaupnir félagar saman í Nýjapotti, Helmut og dr. Jóhanna, auk próf. dr. emeritusar Einars Gunnars Péturssonar, og var rætt um árshátíð Hlaupasamtakanna 2014, sem væntanlega verður að loknum síðasta legg Reykjavegarins, einhvers konar sammenkomst í Garðinum, meira um það seinna. Kári fékkst ekki til að segja söguna af ljóninu og apanum.
Fyrsti Föstudagur sumars haldinn hátíðlegur á Rauða Ljóninu. Mættir: próf. Fróði, Þorvaldur, skrifari. Horfðum á körfuboltaleik við hlið Jakobs Möllers hæstaréttarlögmanns og KR-ings. Áttum gott spjall saman þar sem ég útskýrði söguna af ljóninu og apanum sem Einar reyndi að segja þeim Flosa í hlaupi dagsins, en tókst ekki betur en svo að prófessorinn, alveg yfir meðalgreind, skildi ekki söguna. Í gvuðs friði.
23.4.2014 | 22:04
Hlaupasamtökin eru föst í hefðinni
Ævinlega er hlaupið á miðvikudögum frá Vesturbæjarlaug kl. 17:30. Á þessu var engin breyting á síðasta vetrardegi 2014. Þó virðist sem páskarnir hafi ruglað einhverja í ríminu, því að einungis voru fjórir hlauparar mættir á lögbundnum tíma: próf. Fróði, Magnús Júlíus, Ólafur skrifari og Guðmundur Löve. Guðmundur stefnir á Kaupmannahafnar-maraþon 18. maí og því búinn að toppa og farinn að trappa niður. Hann bað um rólegt. Ekki stóð á okkur Magga, við erum báðir eymingjar og fúsir að hlaupa hægt og stutt hvenær sem það er í boði. Jafnvel prófessorinn lagðist ekki gegn því, en svo er annað mál hvort hann skilji "hægt og stutt" sama skilningi og við dauðlegir.
Jæja, klukkan orðin 17:30 og við að leggja í hann í 13 stiga hitamollu þegar gamli barnakennarinn dúkkaði upp og hljóp orðalaust í Útiklefa með tuðru sína. Einnig varð vart við Inga, en óljóst hvort hann óskaði eftir að beðið væri eftir honum. Við fjórir sómar Samtaka Vorra ákváðum að hér væru ekki séríösir hlauparar á ferð og lögðum af stað. Það var rætt um Hlíðarfót - prófessornum þótti það heldur stutt, nýbúinn að fara 37,5 km frá heimili sínu og um Heiðmörk, en hann kom ekki á framfæri mótmælum. En við lögðum af stað með magana fulla af góðum ásetningi.
Þetta var erfitt fyrir feitlaginn hlaupara í endurkomu. Þeir hinir sýndu mér þann sóma að leyfa mér að hanga í sér. Meira að segja Guðmundur Löve spurði á einum stað hvort ekki væri hefð fyrir göngu hér. Það var eftir að Magnús Júlíus hafði hitt hjón með barnavagn og hann heimtaði að fá að kíkja upp í væntanlegan skjólstæðing sinn þótt í vöggu væri. Svo var haldið áfram. Það var hér sem Snorri Gunnarsson dúkkaði upp og var upplýstur af G. Löve að hér væri hæg lest á ferð. Skrifara heyrðist Snorri segja: "Come on! Ertu ekki að djóka í mér?" - eða eitthvað í þá veru. Enda settu þeir tveir fljótt upp tempóið og yfirgáfu okkur hina.
Prófessorinn hékk enn í okkur Magga og virtist njóta þess að vera samferðamaður okkar. Við höfum oft náð góðum samtölum okkar í millum í gegnum tíðina og því upplifði maður þessa klassísku stund að vera á ferð með góðum félögum, hreyfandi sig, reynandi á sig, svitnandi og þar fram eftir götunum. Það skal viðurkennt að fyrstu 4 km reyndust skrifara erfiðir, hann var þungur á sér, andstuttur, en hafði ekki nægilega ástæðu til þess að hlaupa ekki eða fara að ganga og ákvað því að hanga í Magga.
Við komum í Nauthólsvík og þar er gert lögbundið stopp. Við upplýstum prófessorinn um að við myndum fara Hlíðarfót, honum þótti það helst til stutt og hélt áfram og setti stefnuna á Stokk. Við Maggi beygðum af og fórum inn á stíginn hjá HR. Við gengum ekki lengi en tókum upp hlaup og þá sagði ég Magga fallega dæmisögu af apa og ljóni sem myndi ganga vel í Kirkjuráðið, sögu sem Kári sagði mér og er upplýsandi um völd fjölmiðlanna í nútímasamfélagi.
Hér var skrifari orðinn heitur og léttur og það var hlaupið sleitulaust og án tafa rakleiðis til Laugar, framhjá Gvuðsmönnum, um Hringbraut, hjá Akademíunni, Þjóðarbókhlöðunni og þá leið til Laugar. Hér sannaðist sem endranær að þegar menn eru komnir af stað og búnir að hita skrokka sína upp þá er eftirleikurinn auðveldur. Þetta mætti ónefndur blómasali sem best tileinka sér, hann hefur ekki sést lengi að hlaupum og Halldór Bergmann er farinn að kvarta yfir fjarveru hans í morgunhlaupum þrátt fyrir yfirlýstan góðan ásetning.
Það var tómlegt í Laug. Við teygðum lítillega, stuttur Pottur og bara útlendingar, en ekki kátir sveinar að ræða málefni líðandi stundar. Hér er þörf á félagslegu átaki til þess að forða Samtökum Vorum frá tortímíngu. Því er tímabært að huga að árlegri Árshátíð Hlaupasamtaka Lýðveldisins. Þá er spurt: vill fólk halda sig við Viðey eða er vilji til þess að kanna aðra kosti? Kona spyr sig.
Er skrifari hafði sig á brott var prófessorinn að koma til baka af hröðu 16 km hlaupi og Flosi ekki enn kominn tilbaka, en þeir giskuðu á að hann gæti hafa farið Þriggjabrúa.
13.4.2014 | 20:15
Sumartími
Nú er búið að opna nýjan pott í Laug Vorri og varla þverfótað fyrir baðgestum. Á sama tíma hafa konur endurheimt inniklefa sinn á efri hæð og karlar útiklefa sinn, en merkingar eru ekki nægilega skýrar svo að enn villast konur í útiklefa karla, hátta sig þar og fara í sturtu. Það getur valdið óþægindum. Á sunnudegi mættu þessir til hefðbundins sunnudagshlaups: Jörundur, Ó. Þorsteinsson, Ingi, blómasali, Þorvaldur og skrifari. Þeir voru sprækir.
Lagt upp í björtu og fögru veðri, en svölu, ca. 5 stiga hita. Farið afar rólega af stað. Mættum Rúnu sem kom á móti okkur á Hofsvallagötu. Aðspurð hvers vegna hún kæmi ekki með okkur sagði hún að við færum of seint af stað. Hér kviknaði hugmyndin um að færa klukku Samtaka Vorra framar og hefja sunnudagshlaup eigi síðar en 9:10 á sumrin. Var hugmyndinni vel tekið og hún samþykkt og ákveðið að frá og með Sumardeginum fyrsta yrði hlaupið 9:10 á sunnudögum.
Hlaup hélt áfram á hefðbundnum nótum. Aðallega rætt um hinn nýja stjórnmálaflokk Benedikts Jóhannessonar sem mun vafalítið draga mikið fylgi frá Sjálfstæðisflokki. Nefndir voru tveir af núverandi þingmönnum Flokksins sem munu fylgja Benedikt - og Formaður Vor til Lífstíðar taldi líklegt að sér yrði boðið sæti á lista hins nýja flokks.
Venju samkvæmt var gengið í Nauthólsvík og aftur í Kirkjugarði, enda er brýnt fyrir gestum er þangað koma að virða helgi staðarins og frið þeirra sem þar hvíla. Svo var það bara þetta hefðbundna, Veðurstofa, Hlíðar, Klambrar og Hlemmur. Farið niður á Sæbraut og þá leið gegnum Miðbæinn. Jörundur bara brattur þrátt fyrir háan aldur og hékk í okkur yngri mönnum alla leiðina.
Vandræði voru með hinn nýja pott er komið var tilbaka, mökkur af baðgestum, sumum hverjum alla leið frá Seltjarnarnesi, en nýi potturinn lokaður vegna of mikils klórmagns í vatni. Það lagaðist þó fljótlega og áður en langt var liðið á hádegissamtal Pottverja streymdi hópurinn yfir í nýja pottinn og það varð rúm til þess að halda hefðbundinn ádíens á sunnudegi með dr. Baldri og Stefáni verkfræðingi, en auk þeirra var Helga Jónsdóttir frá Melum mætt í Pott.
2.4.2014 | 20:01
Afmælisdrengur
2. apríl á sérstakur sómapiltur Hlaupasamtakanna afmæli: gamli barnatannlæknirinn. Hann mætti ekki til hlaups í dag fyrir sakir hógværðar og meðfæddrar hlédrægni. Magnús okkar er líklega fyrsti brotthvarfsnemandinn í menntasögu Lýðveldisins. Hann var ungur nemandi á Vesturborg hjá forvera eiginkonu skrifara og gegndi nafninu "Magnús prúði", en leiddist námið verandi kominn á sjötta aldursárið og ákvað að strjúka og var í framhaldinu sendur vestur á firði í vist.
Þessir voru mættir til hlaups: blómasalinn, skrifari, Helmut, dr. Jóhanna, Þorvaldur, Jörundur, Ólafur Gunnarsson, Baldur Tumi, Kaufmann, og loks kom hvítur hrafn steðjandi: sjálfur Benzinn, strýhærður og síðskeggjaður og úfinn í skapi og hafði ekki sést svo mánuðum skipti í Vesturbænum. Skrifari reyndi að beina honum í Útiklefa, en aðrir hlauparar komu í veg fyrir að hann ylli uppnámi í kvennaklefa. Síðar fréttist svo af Hjálmari og Ósk að hlaupum og Benedikt mættum við á Tröppum í lok hlaups. Þannig að kunnuglegum andlitum brá fyrir á þessum degi, en ekki sást prófessor Fróði.
Átti að bíða eftir Benz? Nei, það kom ekki til greina. Við Helmut héldum af stað og fórum rólega. Aðrir biðu eitthvað, en er leið á hlaupið kom liðið streymandi. Blómasalinn fullyrti að skrifari skuldaði honum Cadbury´s súkkulaði. Ástæðan er sú að er skrifari sté á vigt Vesturbæjarlaugar seinni partinn í gær teljandi sig harla óhultan, dúkkaði blómasali skyndilega upp fyrir horn og náði að spenna glyrnum í töluna á skjánum. Hann hótaði að segja félögum Hlaupasamtakanna frá uppgötvun sinni ef skrifari léti honum ekki í té Cadbury´s súkkulaði. Málið er óuppgert þeirra í millum, en því má skjóta að hér í algjörum trúnaði að nú skilja aðeins tvö kíló þessa tvo félaga að í líkamsvigt, og er skrifari á hraðri niðurleið. Sannleikurinn kemur í ljós í fyrramálið, á lögbundnum vigtardegi Vesturbæjarins.
Nú, það var þetta hefðbundna, kjagað í mótvindi og mótlæti inn í Nauthólsvík þar sem var tímajafnað og Benzinum leyft að ná okkur, en það var þá sem Kaufmann Friedrich hljóp fram úr okkur. Við fórum inn á Hlíðarfótinn og söfnuðum hópnum saman. Hér vorum við fimm sem héldum hópinn, þessir lökustu og hægustu. En þó má segja að við höfum sótt í okkur veðrið er leið á hlaupið og tókum seinni hlutann af þó nokkrum röskleika. Enginn skilinn eftir, Hlaupasamtökin að ná vopnum sínum á ný.
Menn voru eitthvað seinir að koma sér til Potts og hefði þó ekki veitt af ærslafullum Benz til þess að ryðja pott fullan af aðkomufólki. Um síðir gafst skrifari upp og hélt á vit heimilislífsins. Honum var ofarlega í sinni Fyrsti Föstudagur og boð frænda hans og vinar, Ó. Þorsteinssonar, að heimili hans. Boðin þau eru ævinlega hátíðleg, þar er fjallað um sögu málaralistar á Íslandi, staldrað við bílnúmer og persónufræði. Vel mætt!
Pistill Ritara | Breytt s.d. kl. 22:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)