Bloggfærslur mánaðarins, maí 2010

Reðurtákn á Ristruflönum - eða einn stór fokkjúputti

Hlýindi að vori, rigning, lygnt, enn einn hlaupadagurinn runninn upp. Fámennt að Laugu, hafði fólk á orði hversu mjög hefði fækkað í hópi hlaupara, en fátt um skýringar. Enginn Guðjón sem flæmir kvenfólkið í burtu. Hvað er um að ske? Jæja, mættir voru þjálfarar, Gerður, Flóki, Haraldur, Þorvaldur, Flosi, S. Ingvarsson, Benzinn, Ólafur ritari, dr. Friðrik, Denni af Nesi og Kristján með honum, Neslaug lokuð. Denna var efst í huga Fyrsti Föstudagur sem er n.k. föstudag og hafði áhyggjur af skipulaginu.

Dagsskipunin hljóðaði upp á Drulludælu til að byrja með. Helmingurinn fór upp á Víðimel og setti stefnuna á Suðurgötu, hinn helmingurinn fór beinustu leið niður á Ægisíðu og setti stefnuna á Sólrúnarbraut. Sá er hér ritar fór af meðfæddri samvizkusemi út á Suðurgötu og nam á leiðinni allt baktal sem grasserað hafði um hann i Samskokkinu, alls kyns ýkjusögur og ósannindi. Er komið var að dælu var staðan ekki góð: venjulegir hlauparar horfnir áfram austur úr, en ofurhlauparar að stilla sér upp til spretta. Ekki höfðu þjálfarar fyrir því að útskýra fyrir ritara planið, nei, menn gáfu sér bara fyrirfram að hann ætlaði að vera aumingi í dag. Það var rokið orðalaust af stað vestur úr á spretti. Ég hélt áfram austur úr á eftir hinum aumingjunum.

Sá menn sem ég kannaðist við í Nauthólsvík, sá að fjórir þeirra fóru Hlíðarfót, en Benzinn og Flosi fóru áfram Flanir og stefndu á Þriggjabrúa. Ég set kúrsinn á eftir þeim. Er komið er á Flanir blasir við mikið listaverk í hlíðinni á vinstri hönd, sem mig grunar að sé helgað Sveinbirni Beinteinssyni Allsherjargoða. Þetta er heljarmikið grjót á breiðum stöpli og minnir einna helzt á risareður ellegar fokkjúputta og er vel við hæfi að stilla því upp á þessum stað. Hvað um það, ég áfram á eftir þeim hinum. Ritarinn var í góðum fíling, en þar sem hann var einn nennti hann ekki að fara Þrjárbrýr, lét sér nægja Suðurhlíð.

Á Plani velti fólk fyrir sér ástæðum þess að svo mjög hefði fækkað í hlaupahópnum upp á síðkastið. Jafnframt var kvartað yfir því að hópurinn tvístraðist á hlaupum, menn væru að hlaupa einir sér og yfirgefnir. Það er ekki skemmtilegt. Þarf ekki líka að sinna hinum lakari hlaupurum? Á bara að einbeita sér að spretthörðustu hlaupurunum? Ekki var laust við að maður saknaði blómasalans og prófessors Fróða, sem nenna að hlaupa með feitlögnum, miðaldra kyrrsetumönnum.

Huga þarf að Fyrsta Föstudegi, við bíðum eftir orðsending frá Denna. Í gvuðs friði, ritari.

Rofar til eftir tveggja áratuga ignorans

Fjórir hlauparar mættir til sunnudagshlaups: Ó. Þorsteinsson, Flosi, Einar blómasali og Ólafur ritari. Við spurðum Flosa hvað hann hefði fengið í afmælisgjöf, en manninn skortir ekki neitt svo ekki er heiglum hent að finna gjöf. Einar vildi halda áfram umfjöllun um þau sterku viðbrögð sem urðu í Akademíunni við forsíðumynd Fréttablaðsins sl. fimmtudag. Þá munu akademískar konur á barneignaraldri hafa spurt um hlauparann lengst til vinstri á myndinni sem væri svo "aaleslank". Hann bað um nánari greinargerð um fyrirspyjrendur, ættir og uppruna.

Þar sem við skeiðuðum um Ægisíðuna í vorblíðunni skoðuðum við viðgerðir á húsum við götuna og spurt var um eignarhald og mægðir. Nú brá svo við að blómasalinn mundi ættfærzlu frá seinasta sunnudegi, sem gaf Ó. Þorsteinssyni tilefni til þess að fagna þeim framförum sem hann hefði tekið í hlaupahópnum. Fyrir tæpum tveimur áratugum hefði maðurinn verið eitt, stórt gat, algjörlega gapandi ignoramus. Núorðið væri hægt að spyrja hann og fá svör við spurningum um ættir manna og tengsl. Þetta hlyti að vera eitt mesta afrek Samtaka Vorra.

Á leiðinni lýsti Formaður yfir áhyggjum sínum af framtíð Lærða Skólans. Heyrst hefði að risin væru upp öfl í Kansellínu sem væru hatursmenn þessarar öldnu menntastofnunar. Það ætti jafnvel að leggja skólann undir Kvennaskólann við Fríkirkjuveg. Ritari útskýrði nokkrar þær breytingar sem eru í farvatninu og er á engan hátt stefnt gegn Reykjavíkur Lærða Skóla. Ekki kom það í veg fyrir að frændi áréttaði og ítrekaði þessa frétt nokkrum sinnum eftir þetta.

Við ræddum um heilnæmi þess að hlaupa og áhrif hlaupa á heilsuna. Talin voru upp ýmis sjúkdómseinkenni sem menn telja sig hafa orðið vara við og benda til hrakandi heilsufars. Þó drógu menn þá ályktun af maraþonum að líklega værum við flestir við hestaheilsu. Blómasalinn spyr allt sem oftast þegar hann er kominn í rökþrot: "Hvað áttu í heilu?" Frekar þreytandi.

Mættum Friðrik Guðbrandssyni lækni á reiðhjóli, dýrum og vönduðum grip, stoppuðum og áttum við hann stutt spjall. Héldum svo áfram og linntum ekki látum fyrr en í Nauthólsvík. Þeir Flosi og blómasalinn vissu að segja frá ágætlega heppnuðu samskokki í Heiðmörk í gær. Lagt upp frá Árbæjarlaug og hlaupnar nokkrar vegalengdir. Helst var að þeim þætti leiðir illa merktar og af þessari ástæðu voru menn að hlaupa 19 km sem höfðu bara ætlað sér að fara 17. Nú líður senn að því að Hlaupasamtökin þurfi að standa fyrir eigin hlaupi og virðist nauðsynlegt að hafa það 29. maí vegna lokunar sundlaugar. Rætt um leiðir.

Eftir Nauthólsvíkina var farið að ræða gönguferðir og hjólaferðir, t.d. göngu á Móskarðshnjúka eða reiðhjólatúr inn í Heiðmörk einhvern sunnudagsmorguninn. Svo er það gangan mikla um Laugaveginn sem Jörundur ætlar að leiða í sumar.

Áfram um kirkjugarð, Veðurstofu og þannig áfram. Fátt markvert eftir þetta, farið fetið til Laugar. Þar beið Þjóðskáld Vesturbæjarins á tröppum og átti við okkur stutt spjall. Sagðar skemmtisögur. Pottur velmannaður og hæfilegur.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband