Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2009

Tímar í New York

Okkar fólk hefur lokið keppni og stóð sig með prýði. Sjá meðf. skrá.
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Sunnudagur eins og þeir gerast beztir

Sunnudagur og helgistund hjá Hlaupasamtökum Lýðveldisins. Valinkunn góðmenni mættu til að hlaupa: Flosi, Ólafur Þorsteinsson, Þorvaldur, Magnús, Einar blómasali, Ólafur ritari og dr. Ingi. Vantaði bara Villa og Jörund, þá hefði stundin verið fullkomin. Veður með eindæmum fallegt, fjögurra stiga hiti, stilla og heiðskírt, en jafnframt glerhált á götum og stígum. Því varð að fara varlega í hlaupi dagsins, fara bara fetið. Í Útiklefa var þegar tekið við að segja sögur og leggja út fyrstu greiningar dagsins. M.a. vikið að sjónvarpsþættinum "Hrepparnir keppa" og fullyrt að búið væri að breyta þeim úr skemmtiefni í hörðustu alvöru og Gettu betur fyrir fullorðna. Þannig eru í útvarpi sendar hvatningar til þátttakenda og aldrei að vita nema Hlaupasamtökin finni tilefni til þess að senda keppendum á þeirra vegum kveðju á öldum ljósvakans.

Við fórum sumsé fetið í dag og virtist það falla öllum vel í geð að vera bara rólegir. Einar á leið í skírnarrveizlu austur fyrir fjall. Hann kvaðst hafa farið á Jómfrúna og pantað rétt númer 15. Þjónninn kannaðist ekkert við þann rétt. Ekki heldur númer 69 þegar Einar nefndi hann og virtist jafnvel á þeim buxunum að henda þessum manni út sem væri bara með dónaskap. En loks fékk Einar komið því út úr sér að hann vildi fá diverse smörrebröd, úrval rétta af ýmsu tagi. Ó. Þorsteinsson upplýsti að uppáhaldsréttur hans væri böfsteg med lög. Flutt tillaga um að Hlaupasamtökin efndu til ferðar á Jómfrúna einhvern sunnudaginn eftir hlaup og var gerður góður rómur að því.

Í Nauthólsvík varð á vegi okkar Gunnlaugur Júlíusson stórhlaupari sem hafði þau tíðendi að flytja að hann væri að fara að skrá sig í Comrade-hlaupið í suður-Afríku, sem er 90 km og fjölmennasta ofurhlaup í heimi. Hér var haldið áfram söguflutningi og greiningu og um líkt leyti sneri Einar við enda tímabundinn maður. Við áfram í kirkjugarð. Alltaf er það sérstök tilfinning að koma á þennan kyrrláta stað á sunnudagsmorgnum og höfðu menn á orði hvað stundin væri einstök.

Hlaupið var hefðbundið eftir þetta: Veðurstofa, Hlíðar, Klambratún, Hlemmur og urðu engin vandræði á þeim stað. Maggi og Þorvaldur voru horfnir er hér var komið, en við Flosi og nafni héldum áfram niður á Sæbraut og þá leið tilbaka. Glerhált var og mátti fara varlega til þess að fljúga ekki á hausinn. Þarf varla að taka fram að stoppað var á öllum hefðbundnum stöðum til þess að fara djúpar í greiningar eða persónufræði.

Í Útiklefa var rætt áfram um viðburði föstudagsins, sem sagt er frá á dv.is. Pottur þéttur svo sem við var að búast og var eftir því tekið að Baldur var kominn í hlutverk Vilhjálms Bjarnasonar að vanda um við og leiðrétta ranghermi í frásögnum Ó. Þorsteinssonar, en Ólafur var búinn að hlamma sér niður við súlu Villa, órækt merki um að ekki er búist við að hann láti sjá sig meira í potti eða á hlaupum.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband