Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008

Bloggað frá Brussel

Ritari Hlaupasamtakanna er staddur á flugvellinum í Brussel og bíður heimferðar. Var fyrr í dag á fundi hjá EFTA - eftir fundinn rölti ég gegnum götur og garða og sá mér til hrellingar vakra hlaupara spretta úr spori. Samvizkubitið alveg að drepa mann, ekkert hlaupið síðustu tvær vikur og formið versnar bara. Kílóunum fjölgar og ástand allt slæmt. Ég er hálffeginn að enginn skuli hafa í sér döngun til þess að segja frá nýlegum afrekum, hlaupum og útivist, það færi alveg með mann. Því bið ég ykkur, kæru félagar, um að halda áfram að þegja og bíða þess að ég snúi heim á ný og taki upp fyrri iðju - það styttist í það. Líklega föstudagshlaup. kv. ritari.

Nýr afrekshlaupari krýndur

Hlaupið frá Laugu í Laugardal í dag, hlauparar dr. Jóhanna, Helmut, Björn kokkur og Einar blómasali. Samfélag allt í Vesturbæ er sundrað. Ég hitti fastagest Laugar Vorrar í gufubaðinu í Laugardalnum, og hann var gráti næst, sagði að vikan væri ónýt. Þegar ég svo sagði honum að Laugin opnaði ekki af nýju fyrr en á mánudagsmorgun, þá fór hann að hágráta eins og Vestfirðingurinn í dýflissunni hjá Jóni Hreggviðssyni og hafði haft í frammi galdra og yrði örugglega brenndur. Enginn var brenndur að Laugu að þessu sinni.

Eftir því var tekið að ónefndur prófessor var í morgunúbbarti og talaði fjálglega um langhlaup sem þreytt verður á morgun, 7. júní. Prófessorinn komst í gegnum allan textann án þess að nefna Hlaupasamtök Lýðveldisins á nafn einu sinni. Þetta verður tekið til athugunar og skoðunar hjá Aganefnd Hlaupasamtakanna og téðum aðila útmæld hæfileg refsing fyrir athæfið.

Hlaup mun hafa tekist með ágætum á þessum fagra degi, en ritari átti þess ekki kost að vera með sökum meiðsla. Lá hins vegar í afslökunarpotti  og var því sem næst sofnaður þegar hann var vakinn upp með ærzlum félaga sinna. Aðdragandi þeirrar sögu var sá að Helmut taldi sig sjá fjallmyndun í legupotti og taldi sig þekkja þykkildið. Hann hrópaði til félaga sinna: Kæru bræður, getur verið að belgurinn sá hinn mikli tilheyri ritara, og handan við belginn leynist andlist og vera ritara öll? Jú, þarf ekki að athuga málið, og í grallaraskap sínum ákváðu menn að hrella ritara með´því að hoppa ofan í pottinn og skvetta vatni á ritara þar sem hann var nær því sofnaður. Legið í potti um stund og rætt um þarfleg málefni, áhyggjur reifaðar af stöðu hlaupara sem standa illa.

Á Mimmanum mættust valinkunnir einstaklingar og réðu ráðum sínum. Þar var mættur dr. Denni af Nesi, dr. Jóhanna, Helmut og ritari. Við þetta tækifæri var afhentur maílöberinn þeim hlaupara sem þótti einna helzt verðskulda viðurkenningu og virðingu félaga sinna: Helmut Hinrichsen, hlaupari sem hefur einsett sér að verða betri hlaupari og þvertekur fyrir að detta í leiðindi og mælingar eins og aðrir ónefndir svokallaðir hlauparar. Og er góður félagi í leiðinni. Féllu fögur tár í athöfninni og fylltust menn auðmýkt yfir svo ágætu vali á hlaupara maímánaðar.

Nú eru góð ráð dýr: Formaður Vor til Lífstíðar hefur boðað hlaup og samtöl að Nesi á sunnudag er kemur. Ritari verður því miður á leið til Brussel þann dag, en mun hugsanlega baðast í viðurkenndri Laug á Höfuðborgarsvæðinu, líklega Sundhöllu við Barónsstíg þann hinn sama dag. Í gvuðs friði, ritari.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband