"Þetta er enginn gönguklúbbur. Hér er tekið á því!"

Ódauðleg ummæli flugu á Ægisíðu í hlaupi dagsins og verður sagt frá þeim nánar síðar. Upphaf hlaups er eins og venjulega á Brottfararplani Vesturbæjarlaugar. Þar safnast saman múgur og margmenni á mánudögum þegar Hlaupasamtök Lýðveldisins efna til fyrsta hlaups vikunnar. Ekki færri en 30 hlauparar voru mættir í hlaup dagsins, þar  af mátti þekkja öðlinga eins og dr. Friðrik, Magnús tannlækni, Kalla kokk, prófessor Fróða og fleiri góða hlaupara. Báðir þjálfarar voru mættir. EN - það sem þóttu tíðindi dagsins og stundarinnar: Einar blómasali var mættur á undan öllum öðrum, eða um 17:10, og kominn í gallann 17:15. Kunnugir töldu skýringuna vera þá að hann væri orðinn svo glámskyggn á úrið sitt að hann hefði lesið vitlaust á það og talið klukkuna vera meira en hún var.

Hlaupið hægt út að Skítastöð. Þar var hópnum skipt í tvennt, þ.e.a.s. þeim sem ekki hlupu áfram og slepptu sprettum, en meðal þeirra mátti bera kennsl á prófessor Fróða, Flosa og Kalla. Friðrik og Maggi voru skynsamir og sneru við áður en þeir voru komnir of langt í Skerjafjörðinn. Fyrri hópur fékk fyrirmæli um að hlaupa 1 km spretti, 7 slíka. Síðari hópur, undir stjórn Rúnars, átti að fara í fartleik. Hver hlaupari fékk númer og átti að ákveða lengd og hraða spretts. Sprettirnir voru frá 1 mín. upp í 4 mín. Við hlupum til baka í vestur undan leiðindanæðingi sem var á þessum slóðum. Einar var sprækur og einnig mátti sjá Sirrý taka vel á því. Við mættum svo Neshópi á Ægisíðu og var hann fjölmennur að vanda. Það vildi svo til að við vorum í hvíld milli spretta á þessu augnabliki og Denni spurði hvort þetta væri gönguklúbbur. Einar blómasali brást hinn reiðasti við og hrópaði: "Þetta er enginn gönguklúbbur. Hér er tekið á því!"

Þetta var engin lygi í blómasalanum. Hann hafði hins vegar farið óskynsamlega í sprettina, farið of geyst og var eiginlega sprunginn áður en eitthvað var farið á reyna á í sprettunum. Hann gafst upp á þessum kafla og hvarf til Laugar. Við hin, m.a. Stefán Ingi og Elínborg ansi spræk, fórum á Nesið og héldum áfram sprettunum. Þeir urðu á endanum 10, sá síðasti þegar við vorum komin yfir Lindarbrautina og yfir á göngustíg norðanmegin. Þá kom lengsti spretturinn, 4 mín. og tekið vel á því. Þarna fengum við vindinn aftur í fangið og hlupum þannig alla leið út að Grandavegi þegar loksins linnti.

Í ljós kom að Flosi og Ágúst höfðu farið Þriggjabrúahlaup í leit að rauðum sportbíl, en fundu engan. Jörundur mætti til Laugar og kom í pott. Hann er enn skaðaður eftir heimilisstörfin og mun líklega seint bíða þess bætur að hafa verið settur til þess að ryksuga. Prófessorinn hafði orð á því upp úr eins manns hljóði að það væri Fyrsti Föstudagur á föstudag, og hvort það yrði ekki Rauða Ljónið og svona? Rætt um árangur félaga okkar í New York maraþoni, sem var ágætur.

Frábært hlaup í ágætu hlaupaveðri - góður undirbúningur fyrir snarpt hlaup á miðvikudag.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband