Vetrarstarf að hefjast: myndataka

Æfing dagsins hófst á myndatöku. Kári stillti öllu liðinu upp, einum tuttugu hlaupurum, þ. á m. Formanni til Lífstiðar, Ólafi Þorsteinssyni, og Baldri Símonarsyni, félaga án hlaupaskyldu, en með þeim mun meiri rannsóknaskyldu. Annars voru mættir allir helztu og vöskustu hlauparar Samtakanna, einna helzt að menn söknuðu Jörundar. Til huggunar má þó nefna að ný myndataka verður n.k. mánudag kl. 17:15 og geta þeir sem misstu af myndatöku dagsins hlakkað til þess að láta smella af sér eins og einni fótógrafíu þá. Reynum að ná fleirum inn á myndina en sjást hér að ofan (það er í reynd heil röð fyrir neðan þessa hlaupara og Bjössi í Burt Reynolds-fílíng).

Mættur Friðrik kaupmaður eftir frægðarför til New York og fengum við að heyra söguna af hlaupinu í skömmtum, fyrir og eftir hlaup dagsins.

Það var fremur svalt í veðri, en algjör stilla og himinn fagurblár og byrjað að rökkva. Sól að setjast í suðvestri. Ægifögur sjón að hlaupa með Ægisíðunni og út í Skerjafjörð, maður varð að staldra við og njóta útsýnisins. Einhverjir voru á leið í Þriggjabrúahlaup og áttu að þétta, en við Ágúst og Flosi stefndum á 69. Mættur Bjarni Benz eftir meiðsli og ætlar að reyna að ná sér á strik smásaman. Nokkrir fóru styttra í dag, t.d. Hlíðarfót. Við félagarnir náðum forskoti, en flljótlega náðu okkur Rúnar og Benni og fóru reyndar fram úr okkur, svo kom Magga og einhver með henni, e.t.v. Jóhanna, sneru svo við og fóru tilbaka.

Við fórum yfir brú á Kringlumýrarbraut (vantar þjálft nafn á brúna, hvað með Knippelsbrú?) og settum stefnuna á Fossvoginn. Þá settu þeir upp hraðann og skildu mig eftir í náttmyrkrinu. Þetta er nú allur félagsþroskinn! Fyrir hlaup var því lýst yfir að það ætti að fara hægt, fara langt. Ég bauðst til að fara með þeim og þeim virtist falla það vel í geð. Svona er farið með góða drengi, skildir eftir einir áður en hlaup er svo mikið sem hálfnað. En það kom vel á vonda, því að á leiðinni mættu þeir úrillum hundeiganda sem sló Ágúst. Og maður á reiðhjóli formælti þeim og skammaði þá fyrir að vera að þvælast fyrir. Gott á þá!

Ég hélt í humáttina á eftir þeim og vissi af þeim á undan mér. Hugsaði sem svo að ég hefði átt að taka ipodinn minn með mér. Ipodinn yfirgefur mann ekki. Hlaup var annars ljúft í svölu og fögru veðri, og gekk vel. Mætti Laugaskokki sem var geysifjölmennt í kvöld. Fór á hægu tempói og leið bara vel. Ótrúleg tilfinning að koma yfir á Sæbraut, þar sem máninn skein á Viðeyjarsund og friðarsúlan kennd við Lennon dansaði við himin. Ég mátti til að stoppa og virða fyrir mér herlegheitin. Á svona stundum er bezt að vera einn með sjálfum sér og njóta dýrðarinnar. Það eru þessar stundir sem gera hlaupin að þeirri fjörgjöf sem þau eru.

Flestir farnir þegar komið var tilbaka til Laugar, ritari vel haldinn eftir 17 km á 5:30 mín. tempói. Þó voru Friðrik, Bjarni, Bjössi, Flosi, Ágúst og Elínborg í potti og töluðu ákaft saman um Baugsmenn.  Fljótlega tókst þó að snúa umræðu til gæfulegra horfs og taka fyrir greiningu á árangri okkar í New York og sagði Friðrik frá, metra fyrir metra. Setið framundir kl. 20 og lagðar línur um Fyrsta Föstudag á Dauða Ljóninu.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kári Harðarson

Ég lærði þrjár lexíur af þessari myndatöku:

1)  Enginn má taka símann meðan myndað er.

2) Ég þarf að taka autómatíkkina af, flassið blindaðist af öllum endurskinsmerkjunum á hlaupagöllum og vestum.  Betra væri ef ljósið væri ekki að koma úr sömu átt og myndavélin.

3) Stillum upp hópnum í breiðfylkingu á einni mynd þannig að myndin passi vel í 5:2 hlutföllin sem eru á myndum í fyrirsögnum á blogginu.

 

Kári Harðarson, 5.11.2009 kl. 11:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband