Það var lamið mig og barið mig.

Eftir hlaup dagsins er mönnum efst í huga: hvar eru ungmenni landsins á vegi stödd þegar þau ógna virðulegum háskólaprófessor og barnaskólakennara? Meira um það seinna.

Allt byrjaði þetta þegar menn söfnuðust saman til hlaupa í Brottfararsal Vesturbæjarlaugar. Hlaupasamtök Lýðveldisins hlaupa frá Vesturbæjarlaug á föstudögum kl. 16:30. Þorvaldur mættur og hafði lýst yfir áhuga á að fá moppu til umráða, en var nú mættur með klukku úr íþróttamiðstöð Laugarinnar, að því er virtist á leiðinni burt, en var í reynd að stilla hana á réttan tíma og gekk ekki mjög vel. Fljótlega sópuðust að honum bæði forstöðukona Laugar Vorrar, Guðrún Arna, Björn laugarvörður, og fleira gott fólk með fullt af góðum ábendingum. Á endanum tókst að stilla klukkuna og vonandi hefur Þorvaldur farið með hana aftur á sinn stað, en um það veit ritari ekkert því að hann var upptekinn við að lesa óhróður í Vesturbæjarblaði um bókavörð þann sem léði honum ritið Bert hold á eyðiey þegar hann var ungur að árum, gráhærð og góðleg kona.

Þegar upp var staðið mættu þessir til hlaups: Þorvaldur, ritari, Flosi, dr. Ágúst og Biggi jógi. Og svo slæddist Rúnar þjálfari inn, en það var eitthvað út úr karaktér. Hann ætlaði ekki að hitta okkur og var með eigin agendu. Veður var ákjósanlegt til hlaupa, hiti 11 stig, einhver vindur og rigningarlegt. Við lögðum af stað á undan Rúnari enda ekki ljóst hvað hann hygðist fyrir. Við erum frjálsir á föstudögum og gerðum honum raunar ljóst að í dag þýddi ekkert að vera með einhver fyrirmæli. Á föstudögum er hefðbundið.

Fljótlega kom í ljós að ritari var þungur á sér. Tildrögin voru sem hér segir: við mælingar á líkamsþunga að morgni fimmtudagsins 29. okt. sl. komu í ljós afar hagstæðar niðurstöður, þ.e. að ritari væri 5 kg léttari en ónefndur blómasali. Orkaði þetta þanninn á ritara að hann missti alla sjálfstjórn í hádegisverði Ríkisins í Arnarhváli, þegar í boði var grillaður BBQ kjúklingur af beztu sort, með kartöflusalati o.fl. Annað eftir því þann dag og var etið sleitulaust. Átið hélt síðan áfram í dag þegar Gunna Ögmunds bauð upp á veizlu með heimasoðnu rúgbrauði, heimareyktum laxi, rúllupylsu, hangikjöti og hvað veit ég. Niðurstaðan var sú að ritari var afar þungur á sér í hlaupi dagsins.

Umræðuefni dagsins var ekki af því tagi sem innblæs manni göfugar hugsanir: klósettpappír. Er með ólíkindum hvað menn magnast upp við slíkar umræður og hugsaði ritari sem svo að það væri eins gott að engin kona hlypi með okkur í dag. Fram fór heildstæð greining á eðli klósettpappírs, allt frá mjög þunnum sem fingur slæðist auðveldlega í gegnum og til þess konunglega brezka, sem er heilglansaður öðrum megin, og örlítið mattur hinum megin og gerir lítið annað en að dreifa úr efninu sem hann á að hreinsa upp. Ritara leist ekki meira en svo á stefnuna sem umræðan tók og hótaði að snúa við og hætta hlaupi. Þetta hleypti æsingu í umræðuna og menn gerðust bara djarfari.

Ágúst, Biggi og Flosi skildu mig fljótlega eftir, Þorvaldur sýndi þá aumingjagæzku að drolla þetta með mér. Ég velti fyrir mér hversu langt yrði farið í dag, verður þetta Hlíðarfótur? Nei, það er einum of. Maður verður að klára hefðbundið, vinna upp einhvern bruna. Þannig að við kjöguðum þetta og fórum með klassískan kveðskap í Öskjuhlíð, upp skaltu á kjöl klífa og allt það dæmi. Nema hvað á Klambratúni var Þorvaldi greinilega farið að leiðast seinagangurinn á ritara og skildi hann eftir, en ég náði honum aftur á Rauðarárstíg. Hann fór hins vegar um Laugaveg, ég hélt áfram niður á Sæbraut. Það var byrjað að rökkva.

Við Útvarpshúsið tók ég eftir Bigga, hann var á eftir mér. Ég varð hissa, sá ekki alveg hvaða leið hann hefði getað farið til þess að lenda á eftir mér. Biggi var næstum því annars hugar og sagði mér eftirfarandi sögu: "Við hlupum sem leið lá um Rauðarárstig þar til við komum að hindrun við Hlemm, nánar tiltekið vinnutæki sem staðsett var uppi á gangstétt og urðum við því að færa okkur út á götu, eða í ræsið, nánar tiltekið. Við það hægir á sér bíll sem við mætum. Fyrir aftan hann kom rauður sportbíll og líkar ökumanni þeirrar bifreiðar greinilega ekki að þurfa að hægja á sér og leggst á flautuna. Við þetta fýkur í mig og ég lem flötum lófa á ytra byrði rauða sportbílsins. Ökumaður sportbílsins rýkur út úr bílnum og ræðst á Ágúst, hrindir honum. Ágúst bregst hinn versti við og kveðst ekki hafa snert bílinn."

Hér var á ferðinni á að gizka 18 ára gamall sterastubbur sem ógnaði virðulegum háskólaprófessor, virðulegum barnaskólakennara úr Vesturbæ og (virðulegum) jóga af Seljavegi. Framhaldið varð þetta: okkar menn héldu áfram hlaupi, og sterinn elti þá á sportbílnum, gerði þeim ljóst að einhver fengi að borga fyrir skemmdir á bíl hans. Hann ók í veg fyrir Ágúst og Flosa við Sólfar, sem bentu á Bigga hinum megin Sæbrautar og sögðu: það var hann! Hann elti Bigga inn á Olís-stöðina við Skúlagötu, þar sem Biggi var að hringja í lögguna, fór í farangursgeymslu bifreiðarinnar og sótti þangað álbrydda hafnaboltakylfu og gerði sig líklegan til þess að afgreiða málin. Biggi er hins vegar ekki jógi fyrir ekkert. Hann sýndi algert æðruleysi og stillingu, fór út og mætti drengnum og lagði til að þeir færu og skoðuðu meintar skemmdir á bílnum. Drengurinn spurði hvar hann hefði slegið í bílinn, Biggi benti á einhvern allt annan stað en hann sló á. Þar var engin skemmd. Þar með var málið leyst. Eftir þetta hljóp Biggi af stað og hitti ritara. Spurning hvort hlauparar þurfi að vera útrústaðir piparúða auk orkudrykkja á hlaupum!

Saman hlupum við síðan til Laugar og var þetta gott hlaup að öðru leyti. Menn báru saman bækur sínar í Laug og reyndu að vinna úr þessari óvenjulegu reynslu. Er ritari kom í útiklefa stóð þar maður við pissuskál með þann ásetning að tæma slóna. Var ljóst að mikið lá við. Tveir ungir menn voru að klæðast í útiklefa. Loks rofaði til og stefndi í að það losnaði um við hlandskál, um leið losnaði um annað og  mikill fretur var látinn gossa út í umhverfið. Mönnunum ungu var nokkuð brugðið, en loks segir annar þeirra: "Já, sæll!"

Í potti var samstaðan fullkomin. Þangað mætti hetja Hlaupasamtakanna, Jörundur Guðmundsson stórhlaupari. Hann hafði greinilega samvizkubit yfir að vera fjarri hlaupum, en taldi sig hafa gilda afsökun. Hann væri í tveggja vikna hlaupafríi vegna slyss við heimilisstörf. Þetta var okkur hinum nýlunda, við vissum ekki að Jörundur stundaði heimilisstörf. Jú, eftir að hann hætti störfum sem prentari er konan farin að sjá ýmsa möguleika á að nýta hann til gagnlegra starfa heimavið, svo sem við ryksugun. Það var reyndar við slík störf sem Jörundur lenti í því að beygja sig snöggt niður á við og togna - og er því ekki til stórræðanna. En það breytir ekki því að Jörundur er okkar hetja og fyrirmynd og þarf ekkert að vera að afsaka sig eða að biðjast afsökunar á einu eða neinu.

Að vísu gerðist það að ritari vildi bera undir Jörund þá hnignun góðs siðar í Hlaupasamtökunum sem birtist í því að menn gátu helgað sig umræðu um klósettpappír frá Ægisíðu við Hofsvallagötu og allar götur inn í Skerjafjörð og umræðan bara magnaðist og varð verri. Vildi ritari tryggja sér undirtektir Jörundar og stuðning. En hann brást fullkomlega og sagði frá klósettpappírnum í Amsterdam sem er svo þunnur að þó maður hafi hann fjórfaldan fer puttinn samt í gegn. Þar með var ritara öllum lokið.

Enn og aftur varð okkur hugsað til okkar góðu félaga, Helmuts, dr. Jóhönnu, Rúnu og Friðriks. Þau þreyta New York maraþon á sunnudag og munum við fylgjast náið með þeim. Að því búnu fara Helmut og Jóhanna til suðlægari héraða og verða okkur horfin fram í maí á næsta ári. Verður þeirra sárt saknað á meðan.

Með þessari frásögn telur ritari sig nokkurn veginn hafa náð hlaupi dagsins og því sem um var rætt. Þó kann að vera að frekar þurfi að fjalla um árásina unga sterastubbsins. Í gvuðs friði. Ritari.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kári Harðarson

Sterastubbur bakari er vafalaust áhyggjum hlaðinn og atvinnulaus, sterar eru svo dýrir núna að maður hefur ekki efni á skóm.  Svo er ljótt að lemja bíla.

Maður reynir að vera advocatus diaboli eftir fremsta megni.

Kvitt fyrir lestur.

Kári Harðarson, 30.10.2009 kl. 22:20

2 Smámynd: Flosi Kristjánsson

Segðu! Það liggur við að menn þurfi að selja hafnarboltakylfuna sína til að hafa í sig og á!

Flosi Kristjánsson, 30.10.2009 kl. 22:30

3 Smámynd: Birgir Þorsteinn Jóakimsson

Bílar sem flauta á mann á að berja. (lög nr. 666..66.1998). Ekki er þó rétt að skemma bíla, nema ef þeir reyna að keyra á mann, þá ber að henda í þá steinum eða gangstéttarhellum. (69.1.1999).

Birgir Þorsteinn Jóakimsson, 31.10.2009 kl. 08:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband