25.10.2009 | 14:46
Kona hleypur á sunnudegi
Sex hlauparar mættu til hlaups á fögrum sunnudagsmorgni: Ó. Þorsteinsson, Jörundur, Þorvaldur, Tinna, ritari og Einar blómasali. Er þetta í fyrsta sinn í langan tíma að kona mætir á sunnudegi og þótti nýmæli. Hiti 4 stig, logn og sólarlaust, ákjósanlegt hlaupaveður. Áfram haldið umfjöllun um áskriftahrun Mogga, maraþonhlaup Jörundar í Amsterdam og aðskiljanlega tengda fleti.
Rætt um ágæta frammistöðu okkar manna, Sigga Ingvars og Bjössa kokks, í haustmaraþoni Félags maraþonhlaupara sem fram fór í gær við metþátttöku. Liðið áfram Sólrúnarbraut í rólegheitum og ekki linnt fyrr en í Nauthólsvík, þar sem framkvæmdir standa yfir við nýjan háskóla. Vikið að póstsamskiptum á föstudag þar sem smurbrauð upp á danska vísu bar á góma, en einnig hin sérstæðu skeyti Ólafs frænda míns, sem Flosi fullyrðir að rituð séu á word processer og kópíeruð yfir í tölvu.
Stoppað við valin leiði í Kirkjugarði og sögð deili á þeim sem þar liggja. Áfram um Veðurstofu og sást þar síðast til Tinnu og Þorvalds, fékk það okkur nokkurrar áhyggju eftir á að vita til hennar með honum þar sem hún þekkir væntanlega ekki til þess sem ber að varast þegar umferðaræðar borgarinnar nálgast. Segir ekki meira af þeim í frásögn þessari.
Síðan hlupum við Jörundur áfram og jukum heldur hraðann, skildum þá blómasala og Ólaf eftir. Fórum um Hlemm og Sæbraut. Teygt á Plani. Pottur þéttur með helztu þátttakendum, með og án hlaupaskyldu, sögur sagðar svo magnaðar að dygðu í margar bækur. Kom þar Stykkishólmur nokkuð við sögu.
Nú er oss vandi á höndum: Laug lokuð á morgun. Trúlega luma þjálfarar á ráði við því uppi í ermi sinni, en ritari bendir á Nes, þar sem oss hefur áður verið vel tekið af hlaupurum í TKS. Í gvuðs friði.
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.