Hlaupasamtökin - þar sem mannúðin ríkir ofar hverri kröfu

Hlaupasamtökin eru góðgerðasamtök. Þau eru kærleiksrík mannúðarsamtök. Þar ríkir vinátta, þar ríkir gleði. Þar þekkjast ekki þær systur, Öfund og Afbrýðisemi. Meira um það seinna.

Mætt til hlaups á Brottfararplani: dr. Friðrik, Þorvaldur, Magnús, Flosi, Kári, Margrét, dr. Jóhanna, Helmut, Ólafur ritari, Sirrý, Birgir, Hjálmar og Ósk, S. Ingvarsson og Friðrik kaupmaður bættust við síðar. Svo voru fleiri hlauparar, tvær ungar konur og einn karlmaður, sem mig vantar nöfnin á. Mér finnst að hlauparar þurfi að sanna sig áður en þeir eru nafngreindir í pistlum nema þeir geri sig seka um áreitni við ritara, eins og t.d. Sirrý, þá rata nöfn þeirra í frásagnir, illu heilli. Rúnar var á svæðinu, en stefndi ekki á hlaup sökum ómegðar.

Eftir því var tekið að ákveðinn hlaupara vantaði, sem þó hafði gefið út stórbrotnar yfirlýsingar um langhlaup um Goldfinger og Laug, ekki styttra en 26 km. Þá vantaði líka ónefndan blómasala. Munu þeir hafa haft keimlíkar "afsakanir" fyrir fjarvist sinni.

Miðvikudagar þýðir bara eitt: langt. Sumir telja að Þriggjabrúahlaup sé langt. Við vorum nokkrir sem stefndum á aðeins lengra, Flosi, Kári, Ólafur ritari og Friðrik. Úr því Ágúst var ekki á svæðinu var óþarfi að vera að djöfla sér út í alltof löngu, svo að við ákváðum að fara Stokk. Veður var gott, þótt kalt væri, nánast logn og þurrt. Við langhlauparar fórum á tempói sem hentaði Kára, í kringum 6 mín. Aðrir hurfu þegar á Ægisíðunni og við sáum þá ekki meira, fyrr en í Laug.

Hér kemur mannúðin inn. Mér varð hugsað til þess hvað við Flosi værum nú góðir menn að snúast svona kringum Kára og lá við að ég tárfelldi yfir eigin manngæzku. Þorvaldur og einhverjir fóru Hlíðarfót, Magnús og dr. Friðrik voru langt að baki og er ekki vitað um afdrif þeirra, en sumir telja að þeir hafi farið Aumingja. En við Flosi héldum áfram með Kára og Friðrik Meló var á sveimi eins og býfluga í kringum okkur, fór fram og tilbaka. Við mættum Þorvaldi bróður eftir brúna yfir Kringlumýrarbraut, hann var í hópi Laugaskokkara.

Haldið áfram í Fossvoginn og enn á sama hæga tempói. Sigurður löngu horfinn. Við yfir á Hólmann í Elliðaánum og tilbaka undir Breiðholtsbraut. Hér skildu leiðir, við Kári fórum Stokkinn, Flosi og Frikki stefndu á Laugardalinn. Stokkurinn tekur skemmtilega á móti manni og reynir á að fara upp á Réttarholtið, sem einu sinni voru yztu mörk tilverunnar hjá þessum hlaupara. Það voru drykkir með í för og gott að svala sér á ísköldum orkudrykk.

Við bættum í á bakaleiðinni og tókum jafnvel spretti á köflum. Þetta var meiriháttar hlaup, uppfullt af náungakærleika og mannúð. Þetta varð mér ekki ljóst fyrr en ég sat í potti og Sirrý hafði orð á því hvað ég væri góður maður að fylgja Kára heila 16 km. Ég bað hana þess lengstra bæna að segja engum frá þessu og eyðileggja ekki mitt vonda rykti í Hlaupasamtökunum. Í pott mætt sjálfur dr. Einar Gunnar og spurði hvað væri títt. Ég kvaðst vera einkar illa informeraður þar sem ég hefði ekki mætt í sunnudagshlaup í margar vikur og því ekki notið góðs af Reuter og persónufræðum. Sagði hann sömu sögu af sjálfum sér. Er ég fór upp úr var Flosi að koma tilbaka eftir 24 km hlaup - Frikki úti á Plani eftir 29 km. Þetta eru naglar.

Upplýst að næsti föstudagur er Fyrsti Föstudagur. Dauða Ljónið.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband