Hlaupið á Nes, baðast, móðganir

Ritari kom í Brottfararsal fullbúinn og sá þar próf. dr. Fróða tilsýndar. Sá virtist ekki í góðu skapi. Hann var illúðlegur. Ritari, sem er þekkt góðmenni, gekk út í krók Hlaupasamtakanna í Brottfararsal og gaf sig á tal við prófessorinn. Erfitt reyndist að draga orð upp úr honum ellegar að fá einhvern botn í hvað það var sem plagaði hann. En á endanum kom í ljós að hann var kominn á þá skoðun að ritari Hlaupasamtakanna væri illmenni, gagnstætt því sem almannarómur hefur andað um til þessa. Var í þessu sambandi vísað til frásagnar af seinasta hlaupi og pottsetu og virtist hlauparinnn hafa tekið hana fullmikið inn á sig. Þar sem talað var um langhlaup, endorfín, þunglyndi og annað sem við á.

Aðrir hlauparar voru þeim mun upprifnari, þessir mættir: Helmut, Flosi, Jóhanna, Rúna, Friðrik, Sirrý, Brynja, Jörundur, Þorvaldur, Ágúst, Birgir, ritari, Þorbjörg M., Kári, Anna Birna - en enginn blómasali. Á Brottfararplani var ráðleysið allsráðandi, enginn vissi hvað ætti að gera. Álitamál hvort fara ætti Ægisíðu eða upp á Víðimel og út á Nes. Á endanum réð Jóhanna för og farið var á Nes.

Farið allhratt af stað og áður en ritari vissi af var hann kominn á tempó með Ágústi og fleirum undir fimm mínútum, án þess að skilja þörfina á þessum hraða og hafandi í huga tilmæli þjálfara um að fara rólega næstu 26 daga. Það var norðangarri og við vorum með vindinn í hliðina á þessum stað. Flosi hélt mjög vel uppi hraða og greinilegt að hann er allur að koma til sem einn af helztu hlaupurum Samtaka Vorra. Aðrir, þ. á m. þekktir eyðimerkurhlauparar, máttu hafa sig alla við að halda í við þennan aldna barnaskólakennara úr Vesturbænum.

Það var skeiðað suður úr og einhver orð höfð um sjóbað. Ekki hafði ég mikla trú á sjóbaði í þessum kulda. Nema hvað, þeir Flosi og Ágúst klífa yfir kambinn niður á sandströndina suður af Gróttu. Svo kom hver hlauparinn á fætur öðrum, háttuðu og fóru í sjó. Ekki verður farið inn á smáatriði hér en furðu eru hlauparar orðnir frjálsir af sér í sjóböðum. Vatnið var svalandi í hitum sumars og endurnærandi. Bandarískar túristakellingar hrópuðu á Birgi: Jú möst bí kreisií!

Áfram. Sumir styttu og fóru stytztu leið til Laugar vegna þess að þeir eru í prógrammi og eru að undirbúa hlaup í Berlín eða New York. Við Helmut héldum fyrir golfvöll, Flosi og Ágúst á undan okkur. Einhvers staðar á þessum grjóti lagða malarstíg verður mér fótaskortur og misstíg mig, stefnir í slæma tognun. Allt uppfullt af heimskulegum golfurum, sem verða enn heimskulegri þegar haft er í huga golfmót MP-banka, þar sem áfengi virðist hafa leikið aðalhlutverkið, með þekktum afleiðingum. Ég sé fyrir mér 3ja vikna fjarveru frá hlaupum, en hugsa svo til ráðs sem dóttir mín, ballett-dansmærin, benti mér á: lyfta fæti upp í loft og láta blóðið streyma frá skaðasvæðinu, þannig að það lokaðist ekki inni í bólgunni. Þannig lá ég á Nesi. Helmut beið á meðan. Okkur varð kalt.

Hann sagði: Þú getur ekki hlaupið svona. Ég sagði: Við getum ekki hlaupið ekki svona, okkur verður of kalt. Svo lögðum við í hann hlaupandi og við hlupum tilbaka, mér fannst ég vera einfættur, en lét mig hafa það.

Pottur ótrúlega vel mannaður, Hlaupasamtökin mynduðu hring í barnapotti. Það losnaði um málbeinið hjá prófessornum og hann fékkst til að tjá sig um andúð sína á ritara. Kom fram að hann hafði í undirbúningi stofnun félags þeirra sem berjast gegn ritara, ekki ósvipað því sem Jörundur stofnaði til baráttu gegn lúpínu og malbikuðum stígum. Þarna mætti Einar blómasali og kvaðst hafa verið upptekinn við að "fiffa til bókhaldið" svo sem áreiðanlegir menn höfðu eftir honum. Rakel dúkkaði upp, óhlaupin að því er beztu menn vissu. Menning og skemmtun flóði út um allt og fóru menn harla ánægðir til síns heima að þessu loknu.

Sumir eru enn í prógrammi, fara langt í fyrramálið, 20-35 km. En við sem erum búnir með okkar markmið í ár - við getum slakað á og horft á fóbbolta úr sófanum, drukkið öl með ef því er að skipta. Í gvuðs friði, ritari.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband