Reykjavíkurmaraþon 2009

Fríður flokkur hlaupara úr Hlaupasamtökum Lýðveldisins skokkaði frá Laug niður í kvos upp úr kl. 8 að morgni 22. ágúst 2009. Fyrir dyrum var Reykjavíkurmaraþon, þar sem þeir Jörundur, Einar blómasali og Ólafur ritari stefndu á heilt maraþon. Allnokkur fjöldi ætlaði í hálft.

Í Lækjargötu hittum við Vilhjálm Bjarnason sem á yfir 20 hlaup í hálfu og ætlaði ekki að breyta til nú. Steingrimur J. ræsti og óskaði hlaupurum velfarnaðar.

Veður að mörgu leyti heppilegt til hlaupa, 12 stiga hiti, skýjað, einhver vindur á suðaustan og rigning hékk í loftinu.

Farið rólega af stað, 5:30-5:40 og því tempói haldið framan af.

Í Fossvoginum var farið að draga af mínum, verkjaði í mjaðmir. Of langt milli drykkjarstöðva, fyrst við Víkingsheimili og næsta í Skerjafirði við Skítastöð. Satt að segja hvarflaði að mér að gefast upp og hætta við Hofsvallagötu, en það kom upp í mér einhver blómasali, hugleiddi sexþúsundkallinn sem fór í hlaupið og ákvað að ég skyldi fá eitthvað fyrir minn snúð. Hitti svo Bigga, sem var búinn með sitt hálfa maraþon og var mættur til þess að hvetja og styrkja. Hann bar í mig vatn, íbúfen, orku, saltpillur og loks þegar krampar fóru að gera vart við sig í Ánanaustum fékk ég nudd á staðnum. Þetta bjargaði því að ég gat lokið hlaupi með reistan makka og kom stoltur í mark á 4:27.

Sveit Hlaupasamtakanna stóð sig vel í hlaupinu, þeir Sigurður og Snorri héldu merki Samtakanna á lofti - og blómasalinn var þriðji maður inn á 4:07. Jörundur einnig flottur á 4:22. Frekari greining á árangri hlaupara bíður betri tíma.

Frábær dagur sem lauk með veizlu að ritara, hefðbundið chili con carne, og var vel mætt, en ritari var sofnaður í sófanum þegar síðustu gestir bjuggu sig undir að fara.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband