Hlaupið frjálslega í Öskjuhlíðinni

Fullyrt var að 25 hlauparar hefðu mætt til hlaups í dag.  Þegar svo er leggur ritari það ekki á nokkurn mann að lesa upptalningu á nöfnum, þó skulu nefndir Helmut, Jörundur, Flosi, S. Ingvarsson og þjálfarar. Fjöldi kvenna, og enn rifjaði Jörundur upp þá tíma þegar aðeins einn kvenmaður hljóp með Hlaupasamtökunum. Nú verður ekki þverfótað fyrir konum á Brottfararplani.

Þjálfarar lögðu til að teknir yrðu sprettir í Öskjuhlíðinni. Veður gott, hægur vindur, sól og hlýtt í veðri. Raunar of heitt fyrir hlaup því að ritari svitnaði eins og grís í gufubaði þegar á Sólrúnarbraut. S. Ingvarsson kom til móts við okkur á Hofsvallagötu, greinilega búinn að fara allnokkra vegalengd er hann mætti okkur. Nokkur umræða spannst um prófessor Fróða, en alllangt er um liðið síðan hann lét svo lítið að hlaupa með okkur. Var það hald manna að nú þegar hann hefði ekki að neinu að stefna væri ekkert sem ræki hann til hlaupa. "En félagsskapurinn?" spurði einhver. Enginn varð til þess að svara. Rifjað upp að nokkrir hlauparar hefðu komið við í Lækjarhjalla á laugardaginn eð var, en enginn opnað í Dalnum.

Farið rólega út í Nauthólsvík þar sem sjósyndarar voru að gera sig klára fyrir Kópavogssund, virtust ekki færri en 200. Við áfram og upp í Öskjuhlíð. Helmut ætlaði ekki í sprettina svo að hann hélt áfram í átt að kirkjugarði. Það voru teknir sex 200 m sprettir og tóku menn vel á því. Vekur alltaf furðu þegar bílar aka um Öskjuhlíðina án þess að eiga þangað augljóst erindi. En þegar Helmut birtist allt í einu á hlaupum út úr skóginum með Melabúðar-Frikka í eftirdragi, ja þá var okkur öllum lokið. Hvað er í gangi? spurðu menn. Þeir fóru yfir veginn og aftur inn í skóginn og sýndu þess engin merki að vilja taka spretti með okkur.

Hópurinn er vel samstilltur og fylgdist að í sprettunum - menn að komast í gott form. Einkum mæðir þó á okkur blómasala, sem stefnum einir í Hlaupasamtökunum á heilt maraþon í RM. Við munum halda merkjum Samtakanna á lofti 22. ágúst nk. Svo var dólað niður í Nauthólsvík og nokkrir hlauparar fóru í sjóinn, sem var yndislegt. Haldið tilbaka og farið á 4:50 tempói síðasta spölinn.

Anna Birna og Kári í potti, komin til byggða eftir volk á kanó um aðskiljanlegustu firði landsins. Pottur afar þéttur og vel mannaður. Næst hlaupið á miðvikudag.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband