Þetta helzt: Vilhjálmur í kurteisisheimsókn

Ólafur ritari og Einar blómasali báðir mættir kl. 17:15, báðir að drepast úr spennu yfir að hefja hlaup. Hver birtist þá ekki glaðbeittur í Brottfararsal nema sjálfur Vilhjálmur Bjarnason, þeirra erinda að gera úttekt á stöðu mála, sjá hverjir mættu og athuga nýliðun. Honum var tekið fagnandi og hann inntur eftir því hvort þetta væri fyrsta skrefið að því að hefja hlaup að nýju með Hlaupasamtökunum. NEI! sagði Vilhjálmur ákveðið. Ég er hættur að hlaupa hér, ég læt ekki bjóða mér að láta svívirða mig með fullyrðingum þar sem veitzt er að vitsmunum mínum og heiðarleika. Gengið var á hann um að fara að mæta að nýju, en hann sat fastur við sinn keip. Kvaðst þó hlaupa í Garðabænum.

Allnokkur fjöldi mættur, þótt marga af valinkunnustu hlaupurum Samtakanna hafi vantað, engin nöfn nefnd. Áberandi voru yngri hlauparar sem hafa hafið hlaup fyrir skömmu síðan, og nýr hlaupari mættur:  Hildur, dóttir Ólafs ritara, dansnemi í New York, í sumarfríi hér og vildi fá að berja augum þann sundurleita flokk sem faðir hennar skrifar samvizkusamlega um nokkra pistla í viku. Hún hljóp aðeins stutt með okkur, enda enn að byggja upp þrek sem fæst af hlaupum. Aðrir stefndu á Þriggjabrúahlaup, einhverjir Suðurhlíðar og enn aðrir 69.

Hlaupið rólega af stað, en með stígandi tempói eftir Skítastöð. Allt eftir bókinni eftir það. Hlauparar grúppuðu sig saman í litla hópa, 2ja til 3ja manna, og hlupu þannig. Ritari ætlaði fyrst að fara Suðurhlíðar sökum bólgu í fæti, en ákvað að kýla á Þrjárbrýr þegar hann fann að ástandið var allgott. Vel gekk að hanga í fremsta fólki út að Borgarspítala, en eftir það sá maður það hverfa í reyk. Það var þó huggun harmi gegn að vita af blómasalanum fyrir aftan mig. En svo kom þessi nagandi ótti um að hann myndi reyna að fara fram úr mér á leiðinni, og jafnvel grípa til örþrifaráða eins og að stytta á strategískum köflum. Þess vegna fylgdist ég vel með honum og varð það til þess að hann þorði ekki að stytta.

Ég tók mikinn sprett niður Kringlumýrarbraut og náði að fara alls staðar yfir á ljósum án þess að stoppa. Það skiptir miklu. Það voru miklar hlaupakonur á undan mér á Sæbrautinni, stöðvað við vatnsfontinn og drukkið. Ég sá blómasalann koma skeiðandi og hraðaði mér af stað aftur og setti á fulla ferð framhjá Sólfarinu. Bjóst alltaf við að heyra alræmt tiplið fyrir aftan mig, en slapp fyrir Hofsvallagötuhorn án þess að það bólaði á hlauparanum. Það var ánægjulegt, en tók á og ég verulega sveittur að hlaupi loknu.

Jörundur kom í pott óhlaupinn, enda í hvíld fyrir Laugaveginn, með honum var Jörundur jr. - ungur efnispiltur sem á örugglega eftir að verða mikill hlaupari eins og afinn.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband