Hlaupasamtökin trekkja stöðugt að nýja hlaupara

Í hlaupi dagsins voru ekki færri en 30 hlauparar mættir og dettur ritara ekki í hug að reyna að nefna þá alla, enda veit hann ekki hvað helmingurinn heitir. Jæja, ég get sosum nefnt þá Helmut, Ágúst og Flosa. Aðrir mega njóta vafans. Veður hið ákjósanlegasta til hlaupa, 17 stiga hiti og bjart yfir. Nánast enginn vindur. Þjálfarar höfðu reiknað út vindátt og mæltu því með hægu hlaupi inn að Skítastöð og þaðan 1 km sprettir, eigi færri en fimm slíkir, út á Nes.

Á Hofsvallagötu gerðist Ágúst nostalgískur og kvartaði yfir því að  ritari væri hættur að baktala blómasalann, þess í stað væri hann farinn að segja frægðarsögur af honum. Þetta væri með öllu óþolandi og brýnt hagsmunamál að hverfa til fyrra horfs, hefja að nýju rógburð, einelti og óþverraskap. Ritari lofaði að gera sitt bezta, svo fremi honum gæfist tilefni til.

Hlauparar dagsins voru býsna sprækir, en þó var eftir því tekið að hefðbundnir hraðafantar voru ekkert að derra sig. Fremstir fóru Helmut, ritari og Þorvaldur og fóru þó ekki hratt. Er komið var út að Skítastöð var staldrað við og lögð drög að sprettum. Svo var talið í og sprett úr spori. Þetta gekk giska vel, ólíklegasta fólk tók vel á því, þ. á m. blómasalinn og ritarinn. En ósköp voru þessir kílómetrar lengi að líða! Mættum Neshópi, sem virtist óvenju fámennur nú í sumarfríum ríkisstarfsmanna. Hlaupasamtökin aldrei fjölmennari.

Ég endaði með blómasalanum og Ágústi er komið var á Nesið og þriðji sprettur var í gangi. Eftir hann gafst sá gamli upp, enda búinn að vera í fjallahlaupi með Professor Keldensis á Laugarvatni um helgina og algjörlega útkeyrður. En við Einar og Rúna tókum enn einn sprettinn á Suðurströnd og alla leið út á Lindarbraut. Þá var tímabært að fara að slaka á og jafnvel skoða möguleika á sjóbaði. Aðstæður allar góðar, en ekkert varð af því að menn færu í sjóinn, að þessu sinni.

Farið rólega tilbaka, ég lenti í heiftarlegu rifrildi við Rúnu og blómasalann um Icesave-deiluna og ákvað að skilja þau eftir. Þau virtust einna helst á því að Ísland yrði innan fárra ára nýlenda Hollendinga og hér yrðu menn reykjandi hass á öllum götuhornum. Eða að við værum komin undir brezka yfirstjórn og farin að éta fisk og franskar í öll mál.

Ævintýrið var þó eftir: þegar komið var á Plan var þar aragrúi hlaupara og hafði lokið hlaupi. Biggi teymdi alla út á Flöt og bauð upp á ÓKEYPIS jógatíma! Það var teygt sig og togað, rúllað og velt á alla kanta, emjað og æpt! Aðvífandi gestir stóðu alldeilis forviða og horfðu á ósköpin eins og naut á nývirki. Við hinir, Helmut, Flosi og ritari, tókum okkar hefðbundnu teygjurútínu og létum ekki þetta nýaldarkukl trufla okkur.

Pottur var óvenjuheitur að þessu sinni. Rætt um forgangsröðun í lífi hlaupara, sumir sögðu matur, hlaup, vinna, fjölskylda. Aðrir matur, áfengi, vinna, hlaupa, fjölskylda... og þannig áfram. Lögð drög að löngu hlaupi á miðvikudaginn, réttlætingin fyrir stuttu í dag væri langt á miðvikudag: ekki styttra en 24 km. Sundlaug.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband