Ævintýralegt á föstudegi

Fyrr var upplýst að Hlaupasamtökin stóðu fyrir hefðbundnu hlaupi að morgni þessa dags frá Vesturbæjarlaug, kl. 6:25 í morgun, farið frá frá horni pylsusjoppu og hlaupið sem leið lá um Sólrúnarbraut og út í Nauthólsvík í rjómablíðu, hár bærðist ekki á höfði, hiti um 14 stig og allar aðstæður því mjög pósitívar. Er komið var í Víkina dreif fólk sig af fötum og skellti sér í svala ölduna, spegilsléttan flötinn, og ekki kjaftur í nánd. Síðan farin sama leið tilbaka, fáir á ferli.

Seinni ferð var hefðbundin, safnast saman um 16:20 í Brottfararsal. fjölmargir hlauparar mættir. Þegar við brottför urðu átök. Fyrir lá að farið yrði um Víðimel og út á Nes og þaðan í sjóinn. Þetta var breyting frá hefðbundinni rútu, og féll ekki í kramið hjá forstokkuðum framsóknarmönnum eins og Benedikt. Hann mótmælti hástöfum og heimtaði sama gamla rúntínn. Jóhanna talaði við hann af lempni og tókst að sannfæra hann um að þetta væri ekki svona hættulegt. Á endanum féllst hann á að það mætti sosum lulla þetta á þennan hátt.

Ský hafði dregið fyrir sólu og bætt í vind, en hiti var um 18 gráður. Lagt í hann. Samstaða um að fara á hægu tempói, 6 mín. En það fór eins og beztu menn spáðu fyrir um, áður en langt var um liðið voru fremstu menn komnir á allnokkurt tempó. Samt var þetta allt í merki hófsemdarinnar. Fórum um Víðimel og út í Ánanaust og settum kúrs á Nes. Á leiðinni tíndum við upp þá kumpána Kristján og Denna, og hefði verið með ólíkindum ef þeir hefðu sleppt Fyrsta Föstudegi.

Helmut var í forsvari fyrir hópnum og leiddi okkur niður í fjöru við Gróttu, þaðan settum við kúrsinn úr  fjöruna. Erfitt var að fóta sig þar og hlaupa, en Helmut vildi meina að það væri okkur hollt að hlaupa við þessi mótdrægu skilyrði. Við slömpuðumst þarna áfram fjöruna og virtist hún aldrei ætla að taka endi. Svo kom  að því að Helmut stoppaði. Fólk fór af fötum, þessi fóru í sjóinn: Helmut, Kári, Jóhanna, Ólafur ketilsmiður, Einar blómasali, Kári, Benedikt og Friðrik Meló. Athygli vakti að blómasalinn fór að öllu og fullu leyti í sjóinn - og hann hrópaði m.a.s. á ritara til þess að tryggja að sundið yrði fært til bókar.

Við svömluðum þarna í öldunum í lengri tíma og áttum bágt með að slíta gamanið - en þar kom að við höfðum okkur upp úr öldunni. Tíndum á okkur pjötlur og héldum áfram hlaupi. Sumir fóru kringum golfvöllinn, aðrir styttu og fóru stytztu leið til Laugar. Hér urðu miklar umræður af ýmsu tagi, sem ekki verða tíundaðar hér.

Það var pottur og lögð drög að Fyrsta Föstudegi. Hátíðin var síðan haldin í garði þeirra heiðurshjóna Helmuts og Jóhönnu og leikið spilið Kubb. Þar áttum við ánægjulega og uppbyggilega stund og ræddum margvísleg þjóðþrifamálefni.  Lögð drög að nýrri framleiðslulínu, kringlótt rúgbrauð með síld eða reyktum siliungi inni í.  Svo komu ýmist hugmyndir um remúlaði eða bernaise-sósu með, þá hætti ég að fylgjast með. Mikil umræða um reyðar af ýmsu tagi sem rekur á land og má nýta kjötið af. Á meðan fór fram keppni í Kubb - sem virðist aðallega felast í því að grýta keilum í saklausa gesti sem eru komnir til þess að eiga ánægjulega og örugga stund í fögru umhverfi.

Hvað er næst? Laugardagshlaup kl. 9:30 - langt.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kári Harðarson

Ég er tvítekinn í listanum yfir þá sem fóru í sjóinn.  Þar sem ritari gerir ekki mistök verð ég að taka þetta sem sneið til mín um að ég þurfi að leggja af.

Virðingarfyllst,  Kári

Kári Harðarson, 9.7.2009 kl. 17:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband