Goldfinger revisited - gamlir kunningjar heimsóttir

Það voru nokkur kunnugleg andlit sem sýndu sig á Plani við brottför í langt hlaup dagsins i dag. Báðir þjálfarar mættir, Ósk, Eiríkur, Ólafur ritari, Þorbjargir tvær, Dagný, Flóki, og svo fólk sem ég hreinlega þekki ekki. Ljósmyndarar smelltu af myndum af andlitum hlaupara fyrir auglýsingu um Reykjavíkurmaraþon, voru annað hvort að leita að dæmigerðum hlaupurum eða kynlegum kvistum sem hlaupa. Vindur á sunnan og einhver rigning. Lagt í hann. Ritari ekki með það á hreinu hvað hann vildi gera, aðspurður kvaðst hann vilja fara 21 km. En hann var þreyttur eftir fyrri hlaup og átök, en langaði engu að síður til þess að hlaupa langt. Fann að líkaminn vildi endurnýja kynni sín af náttúru Íslands, eins og hún birtist hvað fegurst í Fossvogsdalnum, Goldfinger og í Elliðaárdalnum.

Ég gerði mér engar grillur um að hanga í fremsta fólki eins og ég gerði síðustu helgi. Enda var fólkið fljótlega horfið. Mér var alveg sama. Þjösnaðist áfram í sunnanroki út Ægisíðu og var að mestu einn. Mættum dr. Jóhönnu sem hefur líklega verið að ljúka sínum hefðbundna 18 km laugardagsskokki, og stuttu síðar Jörundi prentara, sem var að ljúka 27 km, hafandi farið um Kársnes, komið við hjá Ágústi í Lækjarhjalla (ekki fylgdi sögu hvort lokið var upp fyrir honum). Við flugvöll varð lognið aðeins meira og það var hreint með ágætum að hlaupa í Fossvoginn, en austarlega tók aftur að bæta í vind. Við Víkingsvöll sveigði ég inn í Kópavoginn og tók brekkuna erfiðu og þar upp hjá Goldfinger.

Yfir í Breiðholtið og upp hjá mömmu Gústa. Þegar komið var að Stíbblu varð mér hugsað til síðasta laugardags þegar fólkið gafst upp og ákvað að stytta. Ég hugsaði með mér að sú yrði ekki raunin í dag, það skyldi haldið áfram upp að Árbæjarlaug. Þetta var auðvelt og einfalt. Og þú, lesandi góður, kannt að hugsa: hvers vegna gerir hann þetta? Hvernig gerir hann þetta? En ég svara: ég get þetta, ég vil þetta!

Ég upp að Laug, inn að pissa og fylla á brúsa (með vatni, ekki hlandi). Svo áfram niður eftir. Þetta var yndislegt! Ég, ritari, einn með sjálfum mér, í náttúrunni miðri þegar hún er í fullum vexti, gróðurangan í lofti, á hægu krúsi eins og mér hentar bezt. Þetta gerist ekki betra. Niður úr, einstaka kona á ferli á undan mér, en ég lét þær í friði. Gerð stopp á völdum stöðum til að drekka, ég drekk ekki hlaupandi. Niðri við Breiðholtsbraut, inn við Teiga, á Sæbraut og svo við Ægisgötu.

Þreyta sat í ritara frá seinasta laugardegi, sprettum á mánudegi og löngu hlaupi sl. miðvikudag. Þess vegna voru ekki sett nein met, en ég var sáttur við að ljúka 24 km hlaupi á tveimur og hálfum tíma. Flestir aðrir hlauparar voru horfnir er komið var til Laugar, Eiríkur einn eftir með frú. Sátum lengi og spjölluðum saman í blíðunni.

Framundan: lokað í VBL 2. - 6. júní. Hvað gera hlauparar? Mér skilst að þjálfarar vilji halda fast við þá ætlan að hlaupa kl. 17:30 nk. mánudag, annan dag hvítasunnu, þrátt fyrir að Laugin loki kl. 18. Sama dag munu hlauparar skv. hefð hlaupa kl. 10:10 frá VBL. Ég mun ekki gera frekari tillögur um hlaup næstu viku þar eð ég verð í hvíldarvist í Reykholtsdal út vikuna. En vek athygli á Laugardalslaug og þeim leiðum sem þaðan liggja dag hvern greiðlega austur um sveitir, inn í Ellilðaárdal og þaðan upp úr.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband