Icelandair-hlaupið 7. maí 2009 - þegar dr. Jóhanna vann!

Hvar á maður að byrja? Ég hitti Friðrik kaupmann í Melabúðinni í dag þegar ég fór að kaupa fiskinn minn. Hann tjáði mér að Biggi hefði komið óðamála fyrr um daginn og tilkynnt að hann ætlaði að melda sig og blómasalann til þátttöku í Icelandair-hlaupinu. Nú verða mér gleggri menn að útskýra fyrir mér af hverju Biggi þurfti að trufla Friðrik við dagleg störf sín í þágu heilbrigðra viðskiptahátta í Vesturbænum til þess að láta vita að þeir blómasalinn ætluðu að standa við það sem þeir hefðu verið löngu búnir að gefa út að þeir ætluðu að gera. Það leit út fyrir góða þátttöku Hlaupasamtakanna í hlaupinu.

Næst gerist það að ritari er mættur tímanlega í Vesturbæjarlaug og hringir í blómasalann til þess að heyra hvar hann sé staddur í tilverunni. Þá er hann djúpt sokkinn í viðskiptasamtöl, reynandi að telja mönnum trú um að kaupa járnplötur en láta prófílana eiga sig. Hann bauð mér far með þeim fóstrbræðrum, en það yrði minn sann enginn asi á þeim, þeir myndu ekki róta sér fyrr en 18:27, þegar Birgir kæmi að sækja hann. Ég minnti á kvöldtrafíkina. Ekki er ég frá því ég hafi heyrt svitann spretta fram  í andliti járnhöndlarans og fann símalínuna rafmagnast af paníkk. Ég sagði blómasalanum að ég væri orðinn þreyttur á ævintýramennskunni sem umlyki ferðirnar með honum, og lyki ævinlega með því að maður missti af viðburðinum sem maður stefndi á.

Jæja, ég dóla mér í rólegheitunum út á Loftleiðir. Þar er múgur og margmenni farið að safnast saman, þótt blési og kalt væri í veðri. Sótti mitt númer og fékk melluband um hárið. Hitti Denna, settist hjá honum og átti við hann langt spjall um lífsins freistingar. Svo bara hrundi fólkið inn sem maður þekkti, Þorvaldur bróðir, Flosi, Dína duð frænka og ég veit ekki hvað og hvað. Ekki skulu félagar Hlaupasamtakanna sem tóku þátt í kvöld taldir upp hér, en vonandi getum við birt lista með nöfnum og tímum von bráðar.

Það var hitað upp með hlaupum ýmist fram og tilbaka eftir Flugvallarvegi eða upp í Hlíðina. Svo var hlaup ræst og ég ætla að ekki færri en 500 hlauparar hafi lagt í hann. Þetta var í lagi suður í Nauthólsvík, þá höfðum við vindinn í bakið. Ekki slæmt á leiðinni vestur úr út í Skerjafjörð, þá var hliðarvindur, en svo versnaði í því þegar þurfti að fara að kjaga á móti vindinum á Suðurgötu og svo aftur á Njarðargötu, það var erfitt. Tempó var hratt þegar í byrjun og var gott að vera búinn að hita upp og losna við að eyða orku í það við byrjun hlaups. Það er alltaf meiri metnaður í manni þegar maður þekkir hlaupara, bræður manns og vinir eru þarna einhvers staðar að baki og gætu tekið upp á þeim fjanda að fara að taka fram úr manni.

Svo virðist sem ritari sé í sæmilegu formi, hann náði að halda góðu og jöfnu tempói alla leiðina og lenti ekki í því að missa neinn fram úr sér sem máli skipti. Þegar komið var út á Flugvallarveg aftur var þó nokkur kraftur eftir í karlinum og hann átti góðan endasprett. Merkilegt hvílíkur sprengikraftur býr í líkam þessa útlifaða embættismanns! Endaði á tímanum 34:20 og var ánægður með það. Kom á óvart að sjá mér betri menn koma á eftir mér og kenni um of miklum fatnaði þeirra. Ég var nákvæmlega rétt klæddur í dag, hnésíðar buxur og langermatreyja, ekkert meira.

Þá var komið að bezta partinum: veitingunum. Ég var ekki þyrstur svo að ég fór beint í súpuna. Og HVÍLÍK SPRENGING BRAGÐLAUKANNA!!! Þótt ekki hefði annað komið til, þá hefði súpan verið mér næg réttlæting fyrir þátttöku í hlaupi dagsins. Þetta er með því bezta sem ég hef upplifað í almenningshlaupi á Íslandi frá því ég hóf þátttöku. Ég fékk aftur í dolluna og meira brauð með. Rakst á blómasalann þar sem hann var að reyna að kraka til sín tveimur pokum af sælgæti undir því yfirskini að hann ætlaði að gefa börnunum sínum litlu það heima. Stuttu síðar hitti ég blómasalann aftur og þá var hann búinn að rífa sælgætispokann sinn upp og búinn að gleyma því að hann ætti lítil börn heima í kotinu.

Jæja, aldrei hef ég nennt að bíða eftir vinningum, veit sem er að ég mun aldrei vinna neitt. Fór sem leið lá til Vesturbæjarlaugar og lá um stund í potti. Einn. Fór síðan heim til fjölskyldu minnar, harðla ánægður með frammistöðuna í kvöld. Þá er hringt. Á hinum endanum er blómasalinn og ekki langt undan heyrast skríkjurnar í Birgi. Þeir hrópa gegnum veðurgnýinn að dr. Jóhanna hafi unnið! Hún vann, hrópa þeir. Var hún í fyrsta sæti í sínum kvennaflokki? spyr ég. Nei, hún vann utanlandsferð fyrir tvo til áfangastaðar í Evrópu að eigin vali. Skilja mátti á þeim kumpánum að þeim þætti þetta merkilegra heldur en ef hún hefði unnið sinn kvennaflokk í hlaupinu sjálfu.

Í einu orði sagt: frábært hlaup! Við stóðum okkur öll vel!

Næst: Fyrsti Föstudagur, 8. maí, Vopnahlésdagurinn í Evrópu. Vel mætt: tilkynnt um venue í hlaupi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Goðan daginn.

Dr. Jóhanna kom okkur öllum að óvörum ,  mikil stemmning í Icelandair hlaupi í gær , þrátt fyrir vindinn

En er ekki fyrsti föstudagur í dag ?

kv

Einar Þór Jónsson

Einar Þór (IP-tala skráð) 8.5.2009 kl. 07:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband