Sjóbað - og maður fer að þekkja sjálfan sig og félagana

Miklar skeytasendingar allan daginn, eins og menn sáu, hvatt til sjóbaða enda vorið í algleymingi og kominn tími til þessarar uppáhaldsiðju okkar Naglanna. Meira um það seinna. Mæting hreint með endemum, og enn bætist í hópinn. Nýr hlaupari, en gleymdist að taka niður nafnið. Enn mætir Bjarki lögfræðinemi og slær ekki af. Að öðru leyti voru þarna kunnugleg andlit, en þó lýstu þessir með fjarveru sinni: Gísli rektor, dr. Friðrik og Magnús Júlíus, lykilpersónur þegar kemur að sjóböðum. Magga þjálfari ein með hópinn, alltaf jafn jákvæð og óbuguð þrátt fyrir erfitt klíentel. Hún lagði til að farið yrði rólega út að Skítastöð og að þeir sem ætluðu í Icelandair hlaupið færu aðeins Hlíðarfót, aðrir mættu taka Þriggjabrúa. Einnig væru sjóböð inni í myndinni! (Yes!!!)

Lagt upp á hægu tempói sem breyttist í hratt á svipstundu á Sólrúnarbraut þegar bræður tveir geystust áfram eins og um kapphlaup væri að ræða. Með þeim Birgir, Björn og Bjarni. Gekk þetta svo langt að Margrét hrópaði skipanir á okkur að fara hægar. Það var tempó út í Nauthólsvík. Þangað komin snerum við niður að sjó, ég og Biggi, stuttu síðar komu Helmut, Kári, Kalli og Anna Birna, sömuleiðis var blómasalinn að snövla í kringum okkur en fór ekki í sjóinn. Við hin skelltum okkur í sjóinn, utan hvað Kári fór ekki alveg oní og fær því ekki fullt Kvaransstig fyrir. Aðrir flottir og er maður farinn að þekkja sitt fólk aftur. Þarna var margt fólk og greinilegt að hér er komin mikil tízka og fín.

Við Biggi, Kalli og blómasalinn fórum um Hlíðarfót tilbaka, Helmut; Kári og Anna Birna sömu leið tilbaka aftur og átti að fara hluta leiðar berfætt. Segir fátt af hlaupurum, utan hvað sprett var úr spori á beina kaflanum við flugbrautarendann.

Löng seta í potti. Þarna gerðust hlutirnir. Fljótlega birtust hlauparar sem höfðu farið Þriggjabrúahlaup, Hjálmar, Jörundur og Friðrik kaupmaður. Þriggja ára verðandi Hagskælingur hélt saungskemtun í potti sem hefði verðskuldað að minnsta kosti 25 aura í þektu skáldverki. Uppskar mikið lófaklapp og húrrahróp fyrir og hvarf á braut bukkandi sig og beygjandi, þakkaði fyrir sig og kvaddi.

Næst: Fyrsti Föstudagur - meira á hlaupadegi.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband