Sprettir

Ekki færri en 23 hlauparar mættir til mánudagshlaups í Hlaupasamtökum Lýðveldisins. Óþarfi að telja alla upp. Birgir nýkominn aftur af námskeiði á Hellnum þar sem reynt var að kenna honum að þegja. Engum sögum fer af árangri Birgis á námskeiðinu, en að öðru leyti mun dvölin hafa verið hin gagnlegasta, sjóböð og fjallgöngur.

Þjálfarar ákváðu að farið skyldi út að Skítastöð á hægu tempói. Þangað komin var lagt fyrir hópinn að taka 1, 2, 3 mín. spretti með einnar mínútu hvíld á milli. Þetta var gert tvisvar og vorum við þá komin út á Nes - lokasprettur tekinn á Suðurströnd alla leið út að Lindarbraut. Eftir það á hægu tempói tilbaka. Það verður að segjast eins og er að flestallir fylgdust að megnið af leiðinni, altént var enginn áberandi aftar en aðrir. Nú eru hlauparar óðum að komast í sumarformið. 

Er við teygðum á Plani mætti Eiríkur á svæðið, nýkominn frá London. Var honum vel fagnað að vonum. Svo kom Benedikt í pott og urðu ekki síður fagnaðarfundir þar. Umræðan snerist eðlilega um London-maraþonið og gengi manna þar. Stemmning var víst ekki síðri þar en í Berlín og e.t.v. eitthvað fyrir Hlaupasamtökin að íhuga þegar kemur að hlaupum á erlendri grund á næstu árum. Undir lokin var umræðan orðin svo nákvæm að ritara blöskraði og hann forðaði sér - ekkert af því sem þá var sagt er hafandi eftir og því verður það ekki heldur sett í annála.

Blómasalinn hefur tekið að sér að skipuleggja hlaup/hjólreiðar frá Þingvöllum til Laugarvatns með sundi og grilli á eftir - einhvern tímann í maí fyrir túristatímann. Nú er bara að fylgja þessu eftir.

Næst: miðvikudagur, verður farið langt?

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband