Langur laugardagur í vorblíðunni

Lagt í hann kl. 9:30 í löðrandi blíðu, eiginlega var maður of mikið klæddur í ermasíðri treyju og þunnum jakka, þunn stuttermatreyja hefði dugað. Mætt: Margrét, Rúnar, Þorbjörg (kona Rúnars), Snorri, Bjössi kokkur, Einar blómasali (seinn að vanda) og Ólafur ritari. Stefnan sett á Stíbblu. Á horni Ægisíðu og Hofsvallagötu var búið að koma upp drykkjarstöð í tilefni af vormaraþoni. Við mættum dr. Jóhönnu sem var að ljúka 18 km og hafði farið af stað um áttaleytið. Stuttu síðar mættum við Jörundi sem var búinn að fara eitthvað álíka ef ekki meira. Þau voru bæði flott.

Hefðbundin skipting hlaupara í þá sem fremstir fara og hina sem hlaupa á eftir. Kom það í hlut okkar blómasalans að dóla okkur í humáttina á eftir hraðara fólki.  Það var kominn þessi vorfílíngur í okkur og gróðurinn allur að koma til í kringum okkur, við sáum lóur, heyrðum í hrossagauk og þrastasöng. Mættum maraþonhlaupurum sem voru ekkert mjög margir, en þeirra á meðal fulltrúi Hlaupasamtakanna, próf. dr. S. Ingvarsson Keldensis.

Gekk ágætlega inn að Víkingsheimili. Blómasalinn með frábæra hugmynd um hjólaferð á Þingvöll og Laugarvatn, fara í laug þar og grilla á eftir. Hér með er þessari hugmynd komið á framfæri. Þá var það og rifjað upp að næstkomandi laugardag er merkisdagur í lífi Hlaupasamtakanna og mætti gera eithvað til hátíðabrigða eftir langt hlaup, t.d. bjóða upp á léttan bröns. Við upp að Stíbblu og yfir á brúnni. Niður dalinn á góðu stími og ræddum gengi krónunnar miðað við evru.

Við Rafstöð var miðstöð maraþons og var okkur boðinn drykkur þar. Hálfmaraþonhlauparar voru nýfarnir af stað. Við á eftir og tókum strikið í Laugardalinn. Þreyta farin að segja til sín, en aðeins stoppað til þess að drekka, t.d. við vatnsfontinn á Sæbraut. Gegnum miðbæinn, hjá Tjörn, gegnum Hljómskálagarðinn, hjá Þjóðminjasafni, Háskóla og svo vestur úr. Við hittum Gísla við Melaskóla og hann lofaði að fara að koma aftur til hlaupa í Samtökum Vorum, hefðbundið á mánudag og svo sjóbað á miðvikudag. Blómasalinn orðinn lúinn hér og farinn að ganga, ég hvatti hann áfram og til að ljúka hlaupi. Formið er að koma og tilhlökkunarefni að halda áfram að bæta sig.

Næst hlaupið sunnudag 10:10 - fróðlegt verður að fá greiningu á niðurstöðum Alþingiskosninga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband