18.3.2009 | 21:29
Manni á að líða vel – ekki illa
Miðvikudagur langt. Ekki skemur en inn að Elliðaám var sagt. Mættir heldur færri en s.l. mánudag, en þó margir af máttarstólpum Samtaka Vorra. Má þar nefna próf. Fróða, Flosa, Magnús Júlíus og Jörund. Björn mættur með soninn sem átti að bíða í Lauginni meðan faðirinn hlypi og virtist ekki lítast meira en svo á þá ráðagjörð. Prófessorinn að prófa nýja drykki sem sponsorarnir dæla í hann.
Uppi hugmyndir um Stokk. Aðrir hlynntir Þriggjabrúahlaupi. Kári mættur og bara sprækur fyrstu ca. 50 metrana, en svo fór að draga af honum. Þéttur hópur í góðu veðri á Sólrúnarbraut alla leið inn í Nauthólsvík, þar viku fyrstu af leið og fóru Hlíðarfót. Aðrir áfram og sást Flosi fara fyrir fylkingunni. Það er nú svo merkilegt með það að hlutskipti ritara virðist vera einsemdin. Maður lendir á eftir fremstu hlaupurum, en á undan þeim sem aftar fara. Þannig fór ég einn frá flugvelli eða þar um bil yfir Kringlumýrarbraut og upp hjá Spítala.
Við brúna yfir Miklubraut náði Jörundur mér og var það ágætt. Við ræddum ýmis þörf málefni, svo sem atvinnuástandið, málefni eftirlaunaþega, hlaup og utanlandsferðir. Jörundur masar og masar og maður gleymir stað og stund, sem gerir hlaupið bærilegra. Hann sagðist vel geta náð fremsta fólki með því að bæta aðeins í, en mönnum ætti að líða vel á hlaupum og ekki vera að spenna sig umfram vellíðunarstuðulinn. Fólkinu sem fremst færi liði illa. Ég var sammála Jörundi og var ekkert að spenna mig.
Fórum Mýrargötu og Ægisgötu, sem nú orðið heitir Minningarhlaup Vilhjálms. Maður var orðinn svolítið þrekaður undir lokin, en aðrir hlauparar voru bara léttir, einnig þeir sem fóru Stokk. Blómasalinn mætti í pott og var skömmustulegur. Kannski fer þetta að verða bærilegra, árangur og framfarir að nást og ístra að minnka. Menn höfðu á orði að hér áður fyrr hefðu eingöngu karlar hlaupið með Hlaupasamtökunum, nú væri fullt af ungum og grönnum konum sem hlaupa hratt og ekki nokkur leið er að halda í við. Er eitthvert réttlæti í því?
Dagurinn fullkomnaður með góðum sigri á Makedónum í handbolta.
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.