8.3.2009 | 15:04
Kalt
Ekki var það nú björgulegt þegar ritari vaknaði að morgni þessa sunnudags. Úti blés norðanáttin og við það minnkaði til muna löngunin til þess að fara út að hlaupa. En hafandi í huga það einkenni félaga í Hlaupasamtökunum að eftir því sem veður er verra - þeim mun meiri er löngunin til að mæta á svæðið, reima á sig skóna og fara út að skokka. Ritari harkaði af sér, tók saman gírið og dreif sig af stað. Sem var eins gott, því ekki færri en fjórir hlauparar aðrir mættu: Ólafur Þorsteinsson, Magnús Júlíus, Einar blómasali og Jörundur. Enginn hafði orð á því að veður væri óhagstætt - enda brýnni málefni sem biðu krufningar. Menn mundu að óska foringja sínum til hamingju með afmælið.
Í Brottfararsal áttu tal saman Pétur óháði Þorsteinsson og Jörundur, þó ekki um andleg málefni. Nei, þeir áttu spjall um skatta. Jörundur sagðist borga skattana sína með glöðu geði. Ritari skaut því inn að skattar væru nauðsynlegir til þess að greiða ríkisstarfsmönnum dagpeninga. Hér kom hann inn á viðkvæmt málefni, því að dagpeningar ríkisstarfsmanna eru sameiginlegt áhyggjuefni Jörundar og Péturs. Hins vegar glöddust þeir innilega yfir því að búið væri að lækka dagpeninga ríkisstarfsmanna um 10%. Ritari var ósammála.
Það voru niðurstöður forvala stjórnmálaflokkanna sem einna helzt voru til greiningar, þar sem jafnréttisbaráttan virðist hafa snúist upp í andstæðu sína. Konur raða sér víðast hvar í efstu sæti, en þurfa svo að víkja fyrir karlaræflunum sem enginn vill hafa í efstu sætum. Athygli vekur slök útkoma Kollu hjá VG í Reykjavik, svo og Einars Más Sigurðarsonar hjá Samfó á Austurlandi. Ræddir möguleikar nýrra framboða og hvers væri að vænta af þeim. Spurt var: hvað gerir Vilhjálmur?
Ólafur nýkominn af túndru og lét vel af dvöl sinni þar. Komin ný hlaupabraut nyrðra sem bíður hlaupafúsra fóta.
Hópurinn skokkaði sem leið lá um Sólrúnarbraut út í Nauthólsvík og tók lögbundið stopp þar. Sagðar sögur svo sem hefð er um. Áfram í kirkjugarð og þá leið alla eins og við gerum alltaf á sunnudögum. Ekki var tekið í mál að fara Sæbrautina í þessari átt, enda orðið tímabært að telja aftur tómu verzlunarplássin á Laugaveginum. Þau reyndust vera 29 þegar talið er frá Hlemmi niður á Ingólfstorg, og hefur fjölgað um 5 á tveimur vikum.
Kalt var í potti, svo maður kveið því að fara upp úr. Pottur þó vel mannaður þekktum fræðimönnum í Vesturbæ Lýðveldisins. Umræða úr hlaupi dagsins endurtekin nokkurn veginn orðrétt og í sömu röð. Í gvuðs friði.
Flokkur: Pistill Ritara | Breytt s.d. kl. 17:31 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.