Alone again, naturally, eða: Aleinn á ný, auðvi-Tað

Manni dettur alls kyns vitleysa í hug á hlaupum, oft kemur einhver frasi, mantra, lína úr lagi, eða bara einhver della, upp í hugann, og frekar en gefast upp á erfiðleikunum, þreytu, vondu færi, leiðindum, þá byrjar maður að kyrja einhverja dellu sem fellur saman við taktinn í hlaupinu. Svo byrjar maður að prjóna við vitleysuna og áður en yfir lýkur fer svo að maður fyrirverður sjálfan sig fyrir að láta sér detta svonalagað í hug. En hvað á maður að gera, þegar alltaf er hlaupið einn? Alltaf einn?

Þetta byrjaði vel. Það var kalt, en samt voru kátir sveinar mættir í Útiklefa, ritari, Bjarni, Flosi, og svo kom Helmut. Menn höfðu hraðar hendur og klæddust, undirritaður var með balaklövu og sólgleraugu og fékk þá athugasemd í Brottfararsal hvort til stæði að ræna banka. Banka? spurðum við, er eitthvað að sækja þangað? Margrét þjálfari spurði hvar blómasalinn væri, hann er að sinna einhverjum Dönum. (Hér gleymdum við að spyrja hvar Rúnar væri, sennilega höfum við gert okkur ánægða með Margréti eina og sér.)

Gísli skólameistari var mættur og var í vondum málum. Hann og Helmut höfðu lofað nemendum skólans að fara í sjósund. Nú herti frost og það tók að blása af norðri. Ekki beint gæfulegt fyrir sjósund. Þeir reyndu að bera víurnar í ritara, en ritari var einbeittur að taka á því í hlaupum og fara að ná einhverjum árangri, léttast, fara lengra, fara hraðar, o.s. frv. Svo var prófessor Fróði mættur og vildi eiga uppbyggilegt samtal við ritara, en einhverra hluta vegna varð lítið úr samtali - svo spenntir voru menn fyrir hlaupi. Prófessorinn reyndi að troða sér inn á toilet með ónefndum kvenmanni, en hún vísaði honum ákveðið burtu.

Það var bjart og létt yfir mannskapnum í Brottfararsal og á endanum fóru menn út á Stétt. Þar byrjaði einhver óviðkomandi að blaðra eitthvað um sínar prívat og persónulegu hugleiðingar um hlaup. Honum var vinsamlega og kurteislega bent á að hann hefði ekki réttindi. Þar með tók Margrét þjálfari orðið og gaf út skipun um Þriggjabrúahlaup. Nánari lýsing var ekki gefin, en menn vissu það svo sem hvað til þeirra friðar heyrði, ekki sízt þeir sem hyggja á maraþon snemma árs. Þeir fengu að heyra umvandanir um að fara að lengja hvað úr hverju.

Hlaup hófst á því að þeir Helmut og Gísli reyndu að finna sér vitorðsmenn í sjóbaði, en varð ekki kápa úr því klæðinu. Enginn sýndi því áhuga að fara í sjó. Gísli benti á hafið og fór með fögur orð um náttúru Íslands, hafið væri kyrrt og blátt og svalt, hressandi yrði að dýfa sér í svala ölduna og kæla sig, koma upp og finna hægan andvara af suðri leika um vit sín. Ólafur, heldurðu ekki að það verði yndislegt að koma upp úr heitum sjánum og finna norðangoluna gæla við sig?

Hópurinn hélt hópinn framan af. Svo komu þessir sérþarfagæjar, Benni, Eiríkur o.fl. Þeir þurftu að geysast áfram og það var allt í lagi, S. Ingvarsson, Björn, Bjarni, Friedrich aus Melabudensis - allir æddu áfram eins og þeir ættu lífið að leysa. Margrét má eiga það að hún hélt sig við lakari hlaupara, þótt ekki næði miskunnsemi hennar til ritara. Hann dróst aftur úr og var svo heppinn að Sirrý féllst á að hlaupa með honum út í Nauthólsvík. Eftir það var gvuðs miskunn dáin.

Árla hlaups ákvað ég að fylgja hinum. Það var allt í lagi. Ég var í ágætu formi í dag, hafði borðað létt í hádeginu. Það var bara að halda áfram um Flanir, Ristru Flanir, um Lúpínulundir félaga okkar Jörundar. Að baki mér vissi ég af Helmut og Gísla, en var á of góðu rússi til þess að vilja fórna því fyrir hégóma. Hélt því áfram, sá til félaga minna á undan mér. Áfram að Borgarspítala og svo upp brekkuna. Sá þá fólk uppi við Bústaðaveg og var ánægður með mitt framlag, og einkum það að geta haldið áfram upp brekkuna án þess að stoppa. Svo var það Útvarpshæð, Kringla, yfir Miklubraut og svo vesturúr og niður Kringlumýrarbraut.

Er hér var komið sögu voru allir horfnir mér. Hér byrjaði mantran að rúlla í hausnum á mér, Alone again, naturally: hvernig myndi maður þýða þetta? Aleinn á ný - auðvi-Tað! Þetta síðasta fannst mér mjög jóhönnulegur endir. Svo niður úr og alls staðar lenti ég á grænu ljósi svo að ég hafði ekki afsökun til að stoppa eða hvíla mig. Á Sæbraut rennur enn kaldasta vatn í höfuðborginni og þar svalg ég stórum. Áfram vestur úr. Hér hugsaði ég: hvar skyldi prófessor Fróði vera staddur í sínu hlaupi, skyldi hann hafa lengt? Hvað fer hann langt?

Ég hljóp upp Ægisgötu og lauk góðu hlaupi á virðingarverðum tíma. Í Brottfararsal voru nokkrir hlauparar að teygja, of kalt var utandyra til slíks. Gísli skólameistari sagði mér að þeir Helmut hefðu farið í sjó og vakið aðdáun nemenda í skóla sínum, síðan hefðu þeir rekizt á Jörund stórhlaupara, en ég man ekki hvort hann sagði að þeir hefðu hlaupið með Jörundi tilbaka eða hvort Jörundur hefði keyrt þá tilbaka, en það skýrist vonandi á sunnudag, þegar fram fer Hátíðarhlaup.

Pottur er náttúrlega bara ævintýri þegar slíkt mannval safnast saman þar. Bjarni og Friðrik fóru í hláturkeppni, Björn sá sig tilneyddan að biðja fólk í næsta potti afsökunar - þeir væru bara svona og ekkert við því að gera. Svo fylgdu nokkrar góðar sögur.  Sagðar sögur af fjarstöddum félögum, eins og fara gerir og við hæfi er. Ekki beinlínis baktal, bara sögur.

Kemur nú að Fyrsta Föstudegi: óljóst er með heimahöfn. Þeir einir geta verið öruggir með réttar upplýsingar sem mæta til hlaupa n.k. föstudag. Í gvuðs friði, ritari.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband