Hefðbundið á föstudegi

Nokkur fjöldi hlaupara mætti til hlaups föstudaginn 27. febrúar 2009, mæting var í Brottfararsal Vesturbæjarlaugar Vorrar, þar sem nú hefur verið hengt upp viðurkenningarskjal Framfara til handa Samtökum Vorum fyrir afrek ársins 2008. Mættir: próf. Fróði, Flosi, Friðrik (í Meló), Rúna, Kalli, Bjössi, Denni, ritari, dr. Jóhanna.

Þar sem þetta var föstudagur lá ekki annað fyrir en fara rólega gegnum hlaup dagsins. Og þar sem Gísli var ekki mættur voru ekki horfur á sjóbaði. Sá var munur á hlaupi nú og alla jafna að hópurinn var sameinaður alllengi og engir sem fóru að derra sig að ráði fyrr en í Nauthólsvik. Þar sem ritari hefur verið að byrja aftur, aftur og aftur, ýmist eftir meiðsli eða veikindi, og auk þess búinn að taka matarhátíðir hátíðlega, þá var hann þungur og var þakklátur þeim sem vildu fylgja honum. Þetta voru þau Rúna, Friðrik, Denni og Kalli. Við héldum hópinn nánast alla leið, Friðrik að vísu eitthvað að ólmast, fór fram og tilbaka, stoppaði til þess að eiga við úrið sitt og lá grunur á að hann væri að dæla inn kílómetrum sem engin innistæða var fyrir.

Ég hafði hugsað mér Hlíðarfót  - en þegar til átti að taka lenti ég á kjaftasnakki og gleymdi að beygja, fór Hi-Lux-brekkuna og þá var eiginlega of seint að snúa við, leiðin hvort eð er hálfnuð og ekki annað að gera en þrauka. Þetta gekk gizka vel og var vel haldið áfram.

Mikið óskaplega var það góð tilfinning að ljúka góðu hlaupi á góðum degi, veður yndislegt og vor í lofti. Ekki var verra að Friðrik birtist á tröppu með súkkulaði handa okkur og varð þá mörgum hugsað til blómasalans sem var fjarri góðu gamni í dag. Síðan var setið góða stund í potti, unz við bræður þurftum að hypja okkur heim í sjæn fyrir afmæli kvöldsins, þegar Þorvaldur bróðir okkar fyllti sjötta tuginn. Þar var mikil veizla gjör og hélt ritari þar tölu og kom Hlaupasamtökunum rækilega á framfæri eins og sæmir. Ræddi m.a. skyldleika tveggja bókmenntagreina: afmælisræðna og minningargreina. Meira um það í hlaupi morgundagsins, en hlaupið verður frá Vesturbæjarlaug stundvíslega kl. 10:10 í fyrramálið. Vel mætt! 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband