Einar blómasali býður heim til sín

Eftir hlaup dagsins var haldið til veizlu að Reynimel. Fátt fékkst upplýst af hlaupinu annað en að farið hefði verið heldur hratt yfir, undir 5 mín. tempói, sem er heldur vægt fyrir okkar hóp. Nema hvað, það var Fyrsti Föstudagur og blómasalinn bauð til veizlu. Það fyrsta sem mætti manni var sjálfur álitsgjafi lýðveldisins og samvizka þjóðarinnar, frjálslega klæddur, í gallabuxum, og hefir ritari aldrei séð VB klæddan slíkum klæðnaði fyrr.

Á borðum var sushi með soyasósu og engiferþykkni, fiskisúpa með karrístyrkingu, brauð, smyrjur ýmislegar og loks var borið fram belgískt súkkulaði. Cadbury´s stykkið var vandlega skorðað í bókahillu, milli Laxness og Snorra. Og svo var gnægð drykkja.

Mættir til veizlu voru próf. Ágúst og frú Ólöf, dr. Karl, dr. S. Ingvarsson, dr. Jóhanna, Helmut, Jörundur, Björn kokkur, Denni, Melabúðar-Friðrik og Rúna, Flosi og Ragna, Kári og Anna Birna og sonur, ritari, Biggi, Hjálmar, Ósk, Bjarni Benzz og....

Vilhjálmur flutti snjalla tölu til heiðurs fyrrv. afmælisbarni dr. Jóhönnu og afhenti henni afganginn af afmælisgjöfinni, gevurztraminer-vín frá Hitlersvinum í Chile, og fjórar flöskur af rauðvíni úr ýmsum áttum.

Þessu næst kleif Bjarni fram og lýsti yfir því að janúarlöberinn væri hljóðlátur og hógvær og léti lítið yfir sér, og væri auk þess hómópati: hér horfðu hlauparar hver á annan og hugsuðu sitt (próf. Fróði og ritari horfðu hvor á annan og hugsuðu: hómó- hvað? Sexúal? Nei). Enginn fann sig í þessari lýsingu, svo kom sannleikurinn eins og bomba: Una Hlín Valtýsdóttir, hómópati, er hlaupari janúarmánaðar.  Bjarni stóð þarna keikur, brattur, sannfærður og vildi afhenda hlauparanum viðurkenninguna, en hún tíðkar ekki að sækja heim samkomur vorar,  hún hleypur bara. Þess vegna þarf að finna nýtt tækifæri til þess að afhenda viðurkenninguna.

Talandi um viðurkenningar. Viðurkenning Framfara til handa Hlaupasamtökunum fyrir að vera hlaupahópur ársins 2008 liggur inni á borði hjá Guðrúnu Örnu forstöðukonu VBL og Birgir hefur fengið það sem sérstakt hlutverk að bearbeta forstöðukonuna og fá hana til þess að koma skjalinu fyrir á heppilegum stað í Brottfararsal. Um þetta þarf líklega að semja og er Birgir rétti maðurinn til þess að koma málinu í höfn.

Nema hvað: þarna stóðum við og nutum veitinga þeirra hjóna, og Jörundur afhenti bókina Geðheilsan og meltingarvegurinn, rit ætlað mönnum eins og Einari, sem hugsa mikið um mat, en þurfa líka að hugsa um geðheilsuna.

Það voru vonbrigði kvöldsins að Formaður Vor til Lífstíðar‚ Ó. Þorsteinsson Víkingur, lét sig vanta, þrátt fyrir að heimilisfaðirinn hefði gert sér sérstaka ferð til þess að höndla inn héraðsvín Vesturbæjar, Púllí Fússey, og átti það á tönkum til  þess að geta vel tekið á móti björtustu von Vesturbæjarins, sól og stjörnu.

Dr. Jóhanna hélt stutta tölu, minnti á að liðið væri ár frá því að afhendingar löbera hefðu hafist, og mæltist til þess að þessari hefð yrði hætt, en að haldið yrði áfram fast í Fyrsta Föstudag. Hér súkkaði Denni og sagði: Ég sem hélt að ætti að leggja af Fyrsta Föstudag! Próf. Fróði brast í grát, hann hefur lagt hart að sér og ekki enn fengið viðurkenningu og nú er viðurkenningin úr sögunni. Og hann sem er að fara í Sahara-hlaup!

Áfram hélt veizlan og það bættist í mannskapinn. En þegar upp var staðið stóðum við Birgir í því að tala við blómasalann og halda honum kompaní. Og örva hann til dáða á vettvangi viðskiptanna.

Þannig er hlaupahópurinn okkar, okkur er ekkert mannlegt óviðkomandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góðan daginn, ég vildi bara forvitnast hvenær þið eruð með æfingar og hvar? Er öllum hlaupurum velkomið að mæta?

Teitur Kári (IP-tala skráð) 10.2.2009 kl. 17:00

2 identicon

Öllum er frjálst að hlaupa með Hlaupasamtökum Lýðveldisins. Hlaup eru á mánudögum, miðvikudögum og fimmtudögum kl. 17:30, föstudögum kl. 16:30, laugardögum kl. 10:00 og sunnudögum kl. 10:10. Mæting við Vesturbæjarlaug.

Ólafur G. Kristjánsson (IP-tala skráð) 10.2.2009 kl. 20:31

3 identicon

Takk kærlega fyrir þetta Ólafur. Er eitthvað sérstakt fyrirkömulag á hlaupunum?

Teitur Kári (IP-tala skráð) 11.2.2009 kl. 17:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband