Mæting góð í alvitlausu veðri

Einkennileg árátta að mæta einna helzt til hlaupa þegar veður er svo glóruvitlaust að það er ekki hundi út sigandi. Nei, þá flykkjast hlauparar í Hlaupasamtökunum til Laugar og gera sig klára í hlaup. Í dag töldu talnaglöggir menn 22 til 23 hlaupara sem vildu hlaupa í roki og rigningu og hálu undirlagi. Ekki verða einstakir hlauparar taldir upp, en þess þó getið að hvorki Björn né Birgir voru mættir. Kátína ríkti í Brottfararsal og fengu menn vart hamið hlaupagleðina sem ólgaði.

Þjálfarar lögðu til að farið yrði út að Skítastöð og eftir það ákveðið um framhaldið. Farið hefðbundið um Víðimel og út á Suðurgötu. Við flugvallarendann buldi á okkur austanhríðin og haglélið. Það var ekki skemmtilegt. Farið út að Skítastöð og þar lögð upp áætlun um spretti, en ég lét mér nægja að skokka tilbaka úr Skerjafirði og um Ægisíðu til Laugar. Á leiðinni komu hlauparar á fullum spretti og fóru fram úr mér, lengdu á Nes. Við vorum nokkrir letingjar sem töldum skynsamlegast að ljúka hlaupi við Hofsvallagötu og þarf engum að koma á óvart að Magnús og Einar blómasali voru í þeim hópi.

Legið lengi í potti og rætt um stjórnmálaástandið.

Minnt er á afhendingu viðurkenningar sem hlaupahópur ársins 2008 n.k. miðvikudag.

Óvæntar fréttir verða fljótlega birtar um Fyrsta Föstudag 6. febrúar n.k.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Birgir Þorsteinn Jóakimsson

BJörn er með snúinn ökkla, svolítið snúið að finna afsökum mér til handa.

kv, Biggi Jógi.

Birgir Þorsteinn Jóakimsson, 27.1.2009 kl. 00:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband