Hlaupasamtökunum hlotnast afreksverðlaun

Svofelld frásögn var send á póstlista Hlaupasamtakanna í dag:

"Hitti formann félagsins Framfarir áðan í Laugardalshöllinni
þar sem mót eitt mikið fór fram. Hann tjáði mér að Hlaupasamtök
Lýðveldisins hefðu verið kjörinn Hlaupahópur ársins 2008, eða
eitthvað þvílíkt. Kæru félagar … til hamingju!

Viðurkenningin verður afhent fljótlega. Beðið um dagsetningu…
Hvenær ætli að það sé best að ná fólki saman? Fyrsta föstudag í febrúar?

Um Framfarir
http://www.hlaup.is/displayer.asp?cat_id=608"

Höfundur mun hafa verið Birgir Jógi. Fyrsta úrlausnarefni dagsins var því að finna heppilegan tíma fyrir afhendingu verðlauna, svo og að ákveða hverjum úr hópi vorum hlotnaðist sá heiður að taka á móti verðlaununum.

Dagurinn var mánudagur, dagur miskunnarleysis, dagur átaka. Fjöldi hlaupara mættur, þ. á m. próf. Fróði á nýjum eyðimerkurskóm, afar litríkum, og vöktu þeir óskipta athygli. Sumir lögðust í gólfið til þess að fá góða mynd af þeim. Ritara fannst þetta vera hálfgerðir trúðaskór, en vildi ekki hafa orð á því á staðnum því hann veit að prófessorinn er svo viðkvæmur gagnvart skófatnaði sínum. Þetta eru sumsé skórnir sem eiga að duga í eyðimörkinni. En prófessorinn var stoltur af nýju skónum sínum og það var fyrir öllu.

Nema hvað, að aflokinni hefðbundinni andakt í Brottfararsal var safnast saman á Plani og þar var gefin út leiðarlýsing og þjálfunaráætlun: upp á Hringbraut, þaðan út á Nes, 10 Bakkavarir, og þannig áfram. Þeir sem ekki taka Bakkavarir máttu velja hvað þeir gerðu, t.d. lengja út á Lindarbraut. Áætlunin virtist leggjast vel í viðstadda og engin umtalsverð mótmæli heyrðust.

Hópurinn skiptist fljótt í tvennt: afreksmenn og venjulega hlaupara. Færi þokkalegt, en þó víða hált. Veður allgott, stillt. Þessi hlaupari fór framan af í félagsskap með Eiríki, blómasala og Melabúðar-Friðriki og áttum við félagsskap út í Ánanaust, eftir það skildi leiðir. Ég fór á Nes og alla leið út á Lindarbraut, aðrir styttu og tóku strikið út í Bakkavör. Þegar ég kom hringinn voru þau hin að puða í brekkunni og ákvað ég að slást í hópinn. Teknar voru á bilinu 6-10 Bakkavarir áður en yfir lauk. Eftir það haldið til Laugar, nema hvað próf. Fróði hvarf út í myrkrið og hefur líklega skilað 16-18 km á endanum.

Teygt vel og lengi í Móttökusal. Troðið í potti eins og við var að búast. Margvísleg málefni tekin til umfjöllunar og verður engu ljóstrað upp hér. Þó var vikið að fyrrgreindum verðlaunum og ákveðið að fela virðulegustu hlaupurum Samtaka Vorra að veita þeim viðtöku: fór ekki milli mála að þeir fóstbræður Vilhjálmur Bjarnason og Ólafur Þorsteinsson þóttu bezt til þess fallnir að taka við verðlaununum fyrir hönd Samtakanna. Afhending verður mánudaginn 26. janúar n.k. kl. 17:15 í Brottfararsal Vesturbæjarlaugar. Viðburðurinn verður ljósmyndaður og viðurkenningarskjalið fest upp á vegg í Brottfararsal.

Mun vegsemd og virðing Hlaupasamtakanna vaxa mjög af þessari viðurkenningu og ljós þeirra lýsa um langa framtíð.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband