Allur að koma til

Fagur dagur til hlaupa, en fáir mættir: Bjössi kokkur, Kalli kokkur, S. Ingvarsson, Eiríkur, Þorvaldur, Benedikt og ritari. Bjarni lét svo lítið að kíkja við í Brottfararsal um það bil sem við vorum að leggja í hann. Gömul kona í Kópavogi beið eftir akstri og Bjarni gat ekki brugðist henni. Við lögðum til að hann hlypi í Voginn og tæki kellinguna á bakið. Honum fannst það ekki góð hugmynd. Enginn gaf sig fram  til þess að leiða hópinn, svo að Þorvaldur var beðinn um að taka að sér að teyma hópinn á rekspöl.

Jólaundirbúningurinn var mönnum ofarlega í huga á Sólrúnarbraut, einkum póstkortin. Áður en maður vissi af var umræðan komin út á einkennilegar brautir. Eiríkur fór að tala um fábreytni póstflokkunarstarfsins, þarna stæðu menn og flokkuðu og flokkuðu, fengju sífellt nýja bunka, skutluðu þeim inn í tilheyrandi hólf og þegar þeir sneru sér við væri kominn nýr bunki til að sortéra. Þannig héldi þetta áfram í það endalausa og starfinu yrði aldrei lokið. Nei, sagði Bjössi, svo snappa þeir og fara með haglara inn í næsta stórmarkað og plaffa á mannskapinn, drepa 20 manns eða svo. Menn tóku almennt undir þessa lýsingu og töldu ástæðu til þess að vera á varðbergi gagnvart sínu nánasta umhverfi, einkum nú um jólin, þegar mikið er að gera hjá póstflokkunarfólki.

Það var þokkaleg færð, búið að ryðja brautina, en samt rann maður svolítið til í snjónum. Stillt og ekki sérstaklega kalt. Hópurinn hélt hópinn af mikilli samheldni inn í Nauthólsvík og ræddi málin af mikilli spekt. Þá skildi með okkur, þeir sem fóru hraðar yfir létu gamminn geisa, en við Þorvaldur fórum fetið. Upp gegnum djúpan snjó hjá  Hi-Lux og það var erfitt og þungt. Upp brekkuna og svo nokkuð hefðbundið tilbaka. Við vorum nokkuð frískir og slökuðum í raun aldrei á. Fórum þó Laugaveg, sem var ekki góð hugmynd á þessum tíma, allt fullt af fólki og við þurftum að fara á svigi. Eina jákvæða var að stéttin var þurr.

Þegar komið var til Laugar var þar mættur próf. Fróði og hafði farið 5 km. Hann er að fara Sólstöðuhlaup á morgun, hlaupið frá 11:20 eða þar um bil og eitthvað fram eftir degi, í rúma fjóra klukkutíma. Löng hefð er fyrir þessu hlaupi og eru menn hvattir til að mæta í Vesturbæjarlaug og taka þátt í hlaupinu.

Blómasalinn var í útiklefa. Hann kom til ritara hátíðlegur í bragði og rétti honum penna merktan Sindrason. Hvað nú, hugsaði ritari. Æ sér gjöf til gjalda. Þetta fæ ég að heyra í framtíðinni, að hann hafi gefið mér penna. Svo fer hann að miða tímatalið við daginn þegar hann færði mér penna. Þegar hann rifjar upp liðna tíma og segir: Jú, munið þið ekki, góðir drengir? Þetta gerðist tveimur vikum áður en ég gaf ritara pennann. Þannig voru nú hugrenningarnar hjá manni í útiklefa í dag eftir hlaup.

Svo var setið í potti góða stund og rætt um áfengi. Svolítið um mat líka. Framundan mikil neyzla. Maggi kom í pott og við ræddum um bíla. Toyota og Chevrolet eru að sameinast. Ákveðið hefur verið að fyrri hlutann úr Toyota og seinni hlutann í Chevrolet í nafnið á nýja bílnum: Toylet. Svo verður hægt að kaupa Toylet Sedan, sem hlýtur að vera mjög seljanlegt nafn á bíl. „Ertu á bíl?“ „Já, ég kom á toiletsetunni.“ Ágúst vill kaupa sér nýjan bíl. Allir réðu honum frá því. Hann hlustaði ekki á það. Hann vill kaupa sér eitthvað krassandi, svarta drossíu með lituðu gleri svo að hægt verði að fela sig og gera ýmislegt sem þolir ekki dagsljós. „Eins og hvað..?“ spurðum við. „Ulla á fólk!“ sagði prófessorinn. Einhverjum hefði dottið eitthvað annað í hug.

Gott hlaup að baki og hressandi, minn allur að koma til eftir að hafa dottið í ótímabært sukk í Danaveldi. En nú er komin sú árstíð að hlaup litast mjög af hátíðahöldum. Aldrei mikilvægara en nú að láta hlaup ekki falla niður. Huga þarf að tímasetningu hlaupa um jólin, t.d. annandaginn, þegar laug er trúlega aðeins opin til 18. Tilkynningar eða tillögur um hlaup verða sendar út eftir hendinni. Í gvuðs friði og njótið hátíðarinnar! Ritari.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband