10.12.2008 | 21:20
Alvitlaust veður
Sumir taka það sem vott um geðbilun þegar menn fara út að hlaupa í alvitlausri suðaustanátt, einkum þegar hlaupið er með storminn í fangið. Þetta tökum vér félagsmenn í Hlaupasamtökum Lýðveldisins sem merki um andlegt og líkamlegt heilbrigði. Enda mæta aldrei fleiri til hlaupa en þegar veður er brjálað eins og það var í kvöld. Svo skemmtilega vildi til að ritari gleymdi hlaupabuxum og varð að skjótast heim til að sækja þær. Þorvaldur bauð fram buxur sem Vilhjálmur hafði hlaupið í, en aðspurður kvaðst Þorvaldur ekki geta fortekið að hann hefði á einhverjum tímapunkti lánað buxurnar Framsóknarmanni. Af þeirri ástæðu var boðið afþakkað. Þegar ritari kom tilbaka var blómasalinn mættur. Hann spurði hvað hefði gengið á. Ritari sagði það sem hann vissi sannast í málinu. Nú?, sagði blómasalinn, gleymdi konan þín að setja hlaupabuxurnar í töskuna þína? Allir helztu hlauparar Samtakanna voru mættir og því þarflaust að fara með nafnaþuluna. Skal þess þó sérstaklega getið að Nesverjar voru mættir í ljósi þess að lokað er í laug á Nesi. Þjálfarar mættir og lögðu til að farið yrði hefðbundið Þriggjabrúahlaup.
Veður var samkvæmt almannaskilningi óhagstætt til hlaupa, hvöss suðaustanátt og rigning. En slíkar aðstæður örva félaga í Hlaupasamtökunum til dáða. Lagt af stað á hógværu nótunum eins og venjulega. Það sem eykur á erfiðleika er myrkrið, mikil óvissa fylgir hlaupum, því að myrkrið geymir margan leyndardóminn. Og óvissa ríkir um hvar maður stígur niður fæti. En við létum skeika að sköpuðu, fremstir fóru gamalkunnir kappar, Benedikt og Eiríkur, Björn og Flosi, litlu aftar við minni spámenn, ritari, Helmut, blómasali og þannig áfram. Fljótlega fór lífernið að segja til sín og ritari seig aftur úr hraustari mönnum. Einhverra hluta vegna ílentist Helmut með honum, vafalaust af einhverri aumingjagæzku. Blómasalinn skeiðaði áfram eins og herforingi, dr. Jóhanna var þar einnig, og maður sá fólkið bara hverfa (þó ekki í reykjarmekki).
Við Nauthólsvík náði ég blómasalanum, þar var einnig Rúnar mættur. Hann bað okkur fyrir blómasalann og að skilja hann ekki eftir. Nei, nei, hér er enginn skilinn eftir. Hér vorum við Helmut, blómasalinn og ritari samferða allir svolítið þungir á sér. Það skal viðurkennt að þyngstur var hugurinn og tók það mikinn sálarstyrk að þrauka og halda áfram yfir fyrstu brúna. Auk þess einhver vöðvabólga við mjaðmir og mjóbak sem gerði manni erfitt um vik. Það hvarflaði að mér satt að segja að stytta og fara Suðurhlíðar en þá hugsaði ég til brekkunnar og vissi sem var að hún var engu léttari en brekkan hjá Borgarspítala. Þannig að það var bara að halda áfram. Og brekkan við Spítalann olli engum vonbrigðum: hún var þrælerfið! En þegar upp var komið var þetta eiginlega búið. Þá vorum við lausir við vindinn og lausir við landhækkun, nú var bara hlaupið á jafnsléttu eða niður í móti. Hér skildi Helmut okkur líka eftir og hvarf. Það er merkilegt hlutskipti að lenda alltaf með blómasalanum á hlaupum, þetta virðast vera manni ásköpuð örlög.
Það var rætt um eldhúsinnréttingar, uppþvottavélar og önnur heimilistæki, verð á vörum, verðhækkanir, sparnað, fjárfestingar, - en líka svolítið um mat. Það var farið alla leið niður á Sæbraut og þaðan vestur úr opinberlega staðfesta hlaupaleið, 13,6 km. Enn streymir kalt vatn úr drykkjarfonti á Sæbraut sem svalar þyrstum hlaupurum. Á seinni hluta leiðarinnar voru hlauparar orðnir þreyttir og fóru hægt yfir, en það var allt í lagi. Ég var stoltur yfir því að hafa yfirleitt nennt að fara þessa leið og haft úthald til þess. Nú er upp runninn tími jólaboða, mikið borðað, mikið drukkið og mikil óregla í gangi. Ekki einmitt tíminn til að léttast. Svo tekur Þorrinn við og enn meiri matur og meira sukk. Því er mikilvægt að eiga þess kost að fara út og spretta úr spori. Okkur leið vel að hlaupi loknu, hittum fyrir Bjössa, Helmut og dr. Jóhönnu, þau hófu strax að henda gaman að vatnavöxtum í Móttökusal Laugar sem þau sögðu að fylgdu ritara. Hann kvartaði yfir andstyggilegri framkomu í sinn garð. Fleiri í potti. Blómasalinn hitti Sæma rokk í heitasta pottinum og átti langt spjall við hann. Nú er sem sagt um að gera að missa ekki dampinn og halda áfram að hlaupa og reyna að halda í við sig í mat sé þess nokkur kostur.
Flokkur: Pistill Ritara | Facebook
Athugasemdir
Djöf. öfunda ég ykkur. Konan sendi mig með Bjargeyju… (sem á afmæli í dag, 11 des.)
á hljómsveitaræfingu. Hún á að spila með hljómsveit í Háskólabíói 10 jólalög. laugard. 20 des.
Mér finnst nú fjandi hart að fjölskyldan skuli hafa forgang á hlaupin, nú þegar mikið er etið.
Birgir Þorsteinn Jóakimsson, 10.12.2008 kl. 23:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.