Frændur á ferð

Það var ráðstefna á tröppu Vesturbæjarlaugar þegar ég kom. Þar stóðu blómasalinn og Ó. Þorsteinsson, þekkt góðmenni úr 107 og einnarmessumaður, og voru í djúpum samræðum, svo djúpum að þeir misstu ekki niður þráðinn þótt mig bæri að. Seinna bættist Flosi í hópinn og enn héldu þeir áfram. "Á ekki að hlaupa?" spyr ritari. "Nei, það er allt í rusli heima hjá mér," sagði blómasalinn, "eldhúsið á hvolfi, ég finn ekki neitt." Hann ætlaði að sleppa hlaupi í dag til þess að geta helgað sig endurreisnarstarfi á heimilinu. Aðrir ákveðnir í að láta ekki svo ágætan dag úr greipum renna, veður fagurt, stillt og svalt. Hálka á jörðu. Við vorum sumsé þrír, bræður og frændur: Flosi, Ó. Þorsteinsson og Ó. Kristjánsson.

Fyrst var að segja frá hátíðarfundi í tilefni af 70 ára kennslu viðskiptafræði sem Ólafur sótti. Hann kunni að segja frá frábærri frammistöðu vinar okkar V. Bjarnasonar, sem þar flutti ræðu og brilljeraði, afsannaði útbreidda kenningu að viðskiptafræðingar væru nördar og viðundur. Viðskiptafræðingar geta verið bæði skemmtilegir og víðsýnir, flutt erindi af kunnáttu og lærdómi, vísað í aðrar fræðigreinar, tekið dæmi úr bókmenntunum svo eitthvað sé nefnt. Taldi Ólafur að við í Hlaupasamtökunum mættum vera stoltir af þessum félaga okkar.

Dagurinn var frábær - er til eitthvað betra en fara út að hlaupa á kyrrlátum sunnudagsmorgni? Þótt ekki sé farið hratt. Fórum nýju brautina, sem ég veit ekki enn hvort verður eingöngu hjólastígur, eða hvort hann verður einnig ætlaður fótgangandi. Margt var að ræða og margs að minnast, sögur að segja. Í dag er 16. nóvember og ungar stúlkur í Garðabæ eiga afmæli, þeim eru færðar árnaðaróskir. Þá gat ÓÞ upplýst okkur um sextugsafmæli fyrrv. hlaupara - "og hver er hann?" var spurt. Það var á fjórðu vísbendingu sem Flosi gat upplýst hver þetta var og gegnir í dag háu embætti.

Það var rætt um fjölmiðla, m.a. um fróðlegan þátt Egils Helgasonar s.l. miðvikudag, sem fjallaði um Sverri Kristjánsson í tilefni af endurútgáfu Kommúnistaávarpsins, sem ætti að vera orðið skyldulesning í hópi vorum.

Krísan var rædd í þaula og var ekki verra að hitta Gunnar Gunnarsson fréttamann við Svörtuloft og eiga þess kost að skiptast á skoðunum við þann mæta útvarpsmann um stöðu og horfur mála. Fréttamenn eru oft öðrum betur tengdir og hafa innsýn og þekkingu úr ýmsum áttum sem þeir geta tengt saman. Enn og aftur dró frændi minn frásögnina af frammistöðu VB á þingi viðskiptafræðinga
og vakti hún aðdáun viðstaddra - menn voru sammála um að VB væri afbragð annarra manna.

Ekki get ég sagt að "hlaup" dagsins hafi laðað út svita á mér, sem annars er manna sveittastur að loknum góðum átökum. En engu að síður var ég sannfærður um að það var betra að hafa farið út en hanga heima og slæpast. Hefðbundin viðvera í potti og aftur flutt vísbendingaspurning - en nú hafði nýjum vísbendingum verið bætt við. Einhver hafði orð á því að það gæti ekki staðist að ekki væru sagðar nafnlausar sögur í hópi vorum - stundum virtist eins og eingöngu væru sagðar nafnlausar sögur, en þá gleyma menn að það er ekki heiglum hent að eiga í vitsmunalegum samskiptum við frænda minn, það krefst íhygli og gáfna og er ekki öllum gefið. Einkum geta útúrdúrar innan í útúrdúrum inni í löngum og flóknum frásögnum vafist fyrir mönnum. Einna helzt er það bókmenntafræðingum hent að fylgja frænda þegar hann fer á flug.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband