Lýst yfir söknuði - hvar er blómasalinn?

Hvað gefur okkur hlaupurum gleði? Hvað knýr okkur til þess að hlaupa áfram, þrátt fyrir að vetur er brostinn á og helztu áfangasigrar sem stefnt var að frá byrjun árs séu að baki? Enginn hvati lengur, ekkert að stefna að – hvers vegna hlaupum við? , það kom í ljós í hlaupi dagsins. Menn hlaupa fyrir ánægjuna, fyrir samveruna, fyrir félagsskapinn, fyrir gáfurnar, fyrir kímnina, fyrir sögurnar, fyrir manngæðin. Og fyrir endorfínið, sem að vísu streymir í litlu magni þessar vikurnar, sökum kulda og þess hvað maður er latur að hreyfa sig.

Þeir sem mættir voru eru gamalkunnir og gamalgrónir hlauparar, og bara, gamlir. Nema kannski Rúna. Aðrir mættir: Dr. Friðrik, Flosi, Bjarni, Bjössi, Biggi, ritari, Benni.  Þéttur hópur og engir þjálfarar þannig að frelsið ríkti ofar hverri kröfu. Við réðum okkur sjálf og gátum ákveðið hvert yrði farið og hversu hratt. Af þeirri ástæðu var bara farið hefðbundið. Það var kalt í veðri, og fór kólnandi, frost á jörðu og mátti hafa allan vara á. Flestir sæmilega klæddir, enginn var á stuttbuxum, en þó kom sú hugmynd upp að hlaupa nakinn til þess að mótmæla einhverju. Ekki vitað hverju eða hverjum.

Þéttur hópur og allir samtaka um að hlaupa af gleði og ánægju, láta lönd og leið vangaveltur um vegalengdir og tíma. Nei, nei, það var of gott til að vera satt. Benni og Bjössi hurfu á undan okkur hinum. Flosi og Rúna. Ég sat uppi með Bigga sem hafði frá mörgu að segja eins og venjulega. 20 m fyrir aftan okkur voru svo Bjarni og Friðrik og virtist verða vel til vina. Þannig var skiptingin í dag á Sólrúnarbraut.

Fílingur góður en menn eitthvað stirðir. Biggi hættur við maraþon sökum sinameiðsla og því verður Ágúst einn á ferð á morgun. Hált undirlag og þurftu menn mjög að gæta fóta sinna. Ég náði til dæmis að segja Birgi ævisögu mína á leiðinni frá grásleppuskúrunum við Ægisíðu og út að Flugvelli, hann var mjög impóneraður og kvaðst vilja breyta lífi sínu til samræmis við áherzlur mínar og gerast Framsóknarmaður. Ég hváði og spurði hvaðan hann hefði fengið þá hugmynd: jú, þú sagðist hafa verið Framsóknarmaður í tvö ár, gengið um með vinstraglott í tvö ár 1971-1973. Hér var mér öllum lokið. Ég hef löngum haft Birgi grunaðan um að vera svag fyrir Framsókn, en hér kom hann út úr skápnum og lýsti því beinlínis yfir að Framsókn væri framtíðin, þar væri örlögsíma æskunnar fólgin. Ég leiddi þetta hjá mér, enda vorum við að nálgast Nauthólsvík, og við sáum Bjössa og Benna hverfa upp Hi-Lux, framan við okkur voru Rúna og Flosi, en að baki okkar kom Bjarni fnæsandi.

Einhvers staðar í námunda við Hi-Lux sameinuðumst við og vorum orðin fimm: Flosi, Rúna, Birgir, Bjarni og ritari. Sáum grunsamlega bíla og töldum okkur vera að upplifa ný Hi-Lux ævintýr – en svo var ekki, allt í sómanum. Upp brekkuna, tekið á því. Svo var nú bara skeiðað áfram hefðbundið.

Menn söknuðu blómasalans. Því var eðlilegt að talið bærist að honum. Rætt var um hin efnilegu og glæsilegu börn hans og mærðu menn þennan félaga okkar og töldu hann afbragð annarra að upplagi og lífshamingju.

Þetta var svolítið flokkaskipt í dag. Björn og Benedikt voru einhvers staðar langt á undan okkur og koma ekki við okkar sögu. Flosi og Bjarni þar á eftir og köru að fara Sæbraut. Við hin skynsömu, ég, Birgir og Rúna, fórum Laugaveginn til þess að sleppa við norðangarrann. Greið leið vestur úr og ekki margt manna á þessari helztu verzlunargötu Reykvíkinga. M.a. rifjaði Rúna upp æskudaga sína með blómasalanum í Melaskóla og kom þar okkur margt á óvart. Við Birgir þrýstum á Rúnu að segja hið sanna, var hann svona, var hann hinsegin, hvernig var hann? En komumst lítt áleiðis.

Pottur heitur og góður og menn voru rólegir, tóku sér góðan tíma til þess að ræða málin. Mættir auk hlaupara Stefán og dr. Einar Gunnar.

Hlauparar eru stoltir af félaga sínum, Vilhjálmi Bjarnasyni, sem sýndi snilldartakta í Útsvari í kvöld.  

Björn upplýsti að boðið væri til veizlu í félagsheimili Framsóknarmanna á Seltjarnarnesi í kvöld. Hvert tilefnið var fékkst ekki upplýst, en þó virtust óhugnanlega margir vera á Framsóknarslóðum í kvöld.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heyr, heyr!

… og til hamingju Vilhjálmur… þvílíkir yfirburðir… 

… að vísu hjálpaði amma aðeins.

Birgir Þorsteinn Jóakimsson (IP-tala skráð) 24.10.2008 kl. 22:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband